BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Rússibani!

27.07.2020 image

Blika beið verðugt verkefni í PepsiMax deildinni í kvöld gegn Skagamönnum. Bæði lið búin að vera að ströggla að undanförnu og uppskeran eftir því rýr. Gestirnir með 10 stig og okkar menn með 11 fyrir leikinn. Blikar sárir og svekktir eftir tapið gegn HK og staðráðnir í að rífa sig í gang, og í raun ekki annað í boði, ætli menn sér eitthvað erindi í deildinni. Svo einfalt er það. Það var því mikil spenna í loftinu fyrir leik.

Veður og aðstæður var með allra besta móti í kvöld, léttskýjað með hægum andvara af norð-norð vestri og sólskini allan leikinn. Hiti 15°C og hékk í tæpum 13°C í leikslok. Sem sagt sallafínt veður fyrir leikmenn og þá tæplega 1300 áhorfendur sem lögðu leið sína í dalinn í kvöld.

Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:

image

Talsverðar breytingar frá síðasta leik þar sem Kwame, Andri Rafn, Elfar Freyr og Gísli komu inn í stað Olivers, Davíðs, Viktors Arnar og Brynjólfs (í banni).

Blikar biðu ekki boðanna í upphafi leiks og eftir smá hnökra í byrjun settu okkar menn i gírinn svo um munaði. Settu mikla pressu á gestina og léku hratt og vel sín á milli þegar þeir höfðu boltann, sem var alloft og því oftar sem á leið. Alexander átti gott skot sem hrökk í varnarmenn og Thomas fékk upplagt færi eftir mistök í vörn gestann en náði ekki að nýta. Þrýstingurinn jókst stöðugt og svo brast þetta á með látumþegar Blikar náðu verðskuldaðri forystu eftir góðan samleik sem lauk með þvi að Kristinn þræddi boltann inn á Alexander sem skaut, en í varnarmann, Alexander náði boltanum hins vegar aftur og nú feilaði hann hvergi og setti boltann af öryggi í netið.

image

Blikar komnir með verðskuldaða forystu og fögnuð ákaft, innan sem utan vallar. Og nú gerðust hlutirnir hratt og aðeins 5 mínútum síðar átti Gísli tilþrif kvöldsins þegar hann stormaði með knöttinn inn að vítateig vinstra megin og í átt að endamörkum, með varnarmann gestanna fyrir framan sig. Þar brá okkar maður á það óþokkabragð að beita Zlatan/Ronaldinho bragðinu og sýndust þá fjórir fætur og knettir jafnmargir, og vissi varnarmaðurinn hvorki í þenna heim né annan þegar Gísli þaut framhjá honum og renndi svo boltanum eina út í teig þar sem Kristinn kom á ferðinni og sneiddi boltann í fjærhornið með vinstri fætinum. Snilldarsókn með glæstum lokahnykk. Blikar komnir í 2-0 og lyftist nú enn brúnir á Blikum.

image

Áfram komu færin á samnefndu bandi og Blikar keyrðu áfram á gestina með flottum samleik og miklum hlaupum um allan völl. Það bar loks 3ja ávöxtinn á 35. mínútu þegar Thomas skallaði hornspyrnu Höskuldar í netið. Gaman að fá mark úr föstu leikatriði, megi þau verða fleiri. Staðan nú orðin 3-0 og Blikar ekki hættir.

image

Af gestunum var enn lítið að frétta og satt að segja var undirritaður að velta fyrir sér hvort gestirnir hefðu ekki mætt með neina leikáætlun. Því fer auðvitað víðsfjarri og hana hafa þeir áreiðanlega haft en sennilega hefur hún farið í vaskinn í þann mund sem Blikar gerðu fyrsta markið. Í það minnsta var hún lítt eða ekki sjáanleg. En áfram rann smjörið hjá Blikum og aðeins örfáum mínútum eftir markið hjá Thomas var nú aftur komið að Kristni og markið var sannkallað konfekt. Alexander Helgi launaði nú Kristni stoðsendinguna og galt í sömu mynt. Kristinn tók vel á móti og lagði boltann snarlega fyrir hægri fótinn og skaut nánast í skrefinu og boltinn í stöng og inn. 4-0 takk fyrir og vallarklukkan ekki komin í 40 mínútur. Þvílík veisla. Og mörkin hefðu hæglega getað verið 7- 8 þegar hér var komið sögu. En í stað þess voru það gestirnir sem áttu lokaorðið þegar þeir minnkuðu muninn, þvert gegn gangi leiksins, með marki úr vítaspyrnu eftir meint brot okkar manna rétt fyrir leikhlé. Óheppilegt.

image

Staðan í hálfleik því 4-1 og nú rann Blikaklúbbskaffið ljúflega niður, þó það hafi aðeins súrnað í manni við mark gestanna. Blikar samt ánægðir með sína menn og höfðu sumir á orði að allt væri með allrabesta móti líkt og hjá Altungu forðum. Þeim hinum sama sem sagði að fæturnir væru jú skapaðir til að skora mörk með þeim, eins og nefið er skapað fyrir lonníetturnar, og svínin til að éta þau. Í Blikakaffinu var boðið upp á sætabrauð í stað svína, og þóttist enginn svikinn því.

Síðari hálfleikur hófst með látum, ekki vantaði það, en alveg gerólíkum þeim í fyrri hálfleik. Nú voru það gestirnir sem virkuðu frískari og það var smá slen yfir okkar mönnum í byrjuninni og gestirnir voru fljótir að nýta sér það. Eftir 2ja mínútna leik fengu þeir hornspyrnu eftir sleifarlag okkar manna í varnarvinnunni og úr henni skoruðu þeir og minkuðu muninn í 2 mörk. Þetta var aftur orðinn leikur og það fór kvíðabylgja í bland við andvörp og stunur um stúkuna. Það mátti líka heyra orðbragð sem Kolbeinn kafteinn hefði verið fullsæmdur og verður ekki haft eftir. Ætluðu menn að fara að gefa færi á sér eftir þennan frábæra fyrri hálfleik? Blikar geystust í sókn skömmu síðar og Alexander komst inn í teig hægra megin lék þar á varnarmann sem brá á það heillaráð að skella honum flötum. Víti. Úr vítinu skoraði Thomas af öryggi og Blikar aftur komnir með 3ja marka forystu.

image

Fyrrnefndir bölvarar blésu feginsamlega og önduðu léttar. En þeir voru enn á innsoginu, eftir andvarpið, þegar það brast á með brælu í vítateig Blika. Forsagan er sú að varnarmenn Blika gáfu a.m.k. í tvígang í fyrri hálfleik fyrirsjáanlegar og lausar sendingar á eigin markvörð. Gestirnir voru næstum búnir að gera sér mat úr þeim þá, en nú gerðu þeir alvöru úr, þegar Blikar renndu boltanum á markmanninn, sem oftar, og hann hugðist taka auka snertingu á boltann. Því miður var framherji gestanna bara mættur svæðið og hann tæklaði boltann í netið. 5-3. Takk fyrir og túkall.

Blikar í  stúkunni vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið. Sumir í andnauð af skelfingu en aðrir krossbölvandi, og þurftu nú að nota hvorttveggja, innsogið og frásogið, til að tjá sig. Ekkert af því er birtingarhæft og því útrætt mál hér. En hvað var í gangi?

,,Ææ og Óó“ stendur skrifað í gagnmerkri bók og hafi það einhvern tíma átt vel við, þá var það nú.

Næstu 25 mínútur skiptust liðin svo á að sækja og sem betur fer náðu Blikar heldur að rétta úr kútnum. Nokkur færi fengu okkar menn til að bæta við og gestirnir fengu ennfremur sín færi, en þau voru færri. Svo var í tvígang leikið tilbrigði við stefið gamalkunna; ,,Gísli þrumaður niður“. Í bæði skiptin lék sami maður stefið og fékk verðskuldað gult spjald fyrir það fyrra, en slapp með seinna sinnið, sem vel meinandi menn meintu að hefði þó verið sýnu grófara.

Blikar skiptu Oliver inn fyrir Alexander eftir að sá síðarnefndi varð fyrir hnjaski. Blikar fengu enn færi. Kwame hefði á öðrum degi getað skorað ein 3 mörk, hann fékk 2 sannkölluð dauðafæri og í tvígang var hann kominn inn í teig en ákvað að gefa í stað þess að láta vaða á markið. Var annars frískur, eins og liðið allt. Benedikt og Davíð komu svo inn fyrir Andra Rafn og Kristinn og Blikar sigldu þessu heim síðustu mínúturnar án þess að gestirnir gerðu alvöru atlögu, utan einu sinn þegar varð dálítill hamagangur í teig okkar manna og boltinn skoppaði manna á milli uns okkar menn þrumuðu honum í burtu.

Undir lokin kom svo bráðungur piltur, Hlynur Freyr Karlsson, inn á fyrir Kwame. Hlynur er fæddur 2004 og er mikið efni sem hefur leikið með U-17 ára landsliði Íslands og fékk nú smjörþefinn af PepsiMax deildinn.

image

Blikar vörpuðu öndinni léttar þegar dómarinn blés til leiksloka og fögnuðu langþráðum sigri. Hann var í allra minnsta lagi svo ekki sé fastar að orði kveðið, en sigur samt. Blikaliðið lék alveg sérlega vel í fyrri hálfleik. Boltinn gekk hratt á milli manna og mikill hreyfanleiki í liðinu. Mörkin hvert öðru fallegra og hefðu hæglega getað orðið mun fleiri.

Síðari hálfleikur einkenndist af óþarflega miklu brasi okkar manna þar sem einbeitingarleysi með tilheyrandi sjálfssköðum kostuðu mörk. En þar fyrir utan var svo glimrandi gott spil oft á tíðum sem hefði átt að skila fleiri mörkum. Það var alveg óþarfi að hleypa spennu í þennan leik.

Næsti leikur Blika er heimaleikur gegn Gróttu n.k. fimmtudag kl. 19:15  í Mjólkurbikarnum.

Hann ætlum við að vinna.

Áfram Breiðablik !
OWK

Myndaveisla í boði Helga Viðars hjá BlikarTV og mörkin úr leiknum í boði visir.is

image

Til baka