BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Rumble in the Jungle eða Hamagangur á Hlíðarenda

26.06.2018

 Til er í útlöndum fræg mynd sem nefnist „Rumble in the Jungle“. Hún hefur ýmist hefur verið kölluð „Skruðningur í skóginum“ eða „Frumskógargnýr“ en mætti allt eins kalla á tungu Sigga Grétars „Hamagangur á Hlíðarenda“. Myndin fjallaði um bardaga heimsmeistarans í þungavigt í hnefaleikum, George Foreman, og áskorandans, Múhameðs Ali, sem áður hafði hampað titlinum. Einvígið fór fram í Saír, sem þá hét, að viðstöddum 60.000 áhorfendum.  

Þarna kynnti Ali til sögunnar leikkerfið „hangið í köðlunum“. Hann lét með öðrum orðum Foreman hamast á sér án þess að hann kæmi á hann almennilegum höggum – þótt þau skiptu hundruðum. Þegar heimsmeistarinn tók að lýjast og orðinn æfur yfir háðsglóðsum andstæðingsins lét Ali til skarar skríða, flögraði um eins og fiðrildi og stakk eins og býfluga. Í lok áttundu lotu rotaði hann síðan heimsmeistarann og endurheimti titilinn.

Í gærkvöldi var aftur „Hamagangur á Hlíðarenda“ – að viðstöddum liðlega 600 áhorfendum. Blikar mættu við rætur frumskógarins í Öskjuhlíð í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins, særðir eftir afar ósanngjarnt 2-1 tap á teppinu fyrir skemmstu í deildinni.  

Byrjunarliðið var kunnuglegt með Gunnleif í markinu, Davíð var vinstri bakvörður, Damir og Viktor Örn í hjarta varnarinnar og  Jonathan Hendrickx hægri bakvörður. Oliver og Andri Rafn voru fyrir framan vörnina, Arnþór Ari hægra megin í framlínunni, Willum vinstra megin, Sveinn Aron fremstur og Gísli Örn í holunni. Nánar hér.

Aðstæður voru með nokkrum ágætum, reykvískt sumar eins og það gerist skást um þessar mundir, Valsmenn léku undan dálitlum vindi í fyrri hálfleik, í sjö stiga hita, og ekki virtist há liðunum neitt sérstaklega að það sást til sólar stóran hluta leiksins.  

Fyrri hálfleikur minnti nokkuð á myndina frægu, Hamagangur á Hlíðarenda. Það var eins og Blikar hefðu ákveðið að beita trixi Alis, hanga í köðlunum og láta Valsmenn herja á vörnina. Hlíðarendapiltar pressuðu okkar menn sem náðu upp litlu spili. Eða höfðu ákveðið að hanga bara í köðlunum fram eftir leik. Viktor bjargaði t.d. naumlega í horn eftir langt innkast Valsmanna, í kjölfarið kom hörkuskot sem fór hátt yfir markið. Á 16. mínútu þrumuðu lærisveinar séra Friðriks á markið en Gulli varði glæsilega en hann var þá nýbúinn að skipta um hanska sem virtist hafa jákvæð áhrif. Litlu síðar var aftur hætta við mark Blika eftir hornspyrnu Valsmanna.  

Ef frá eru taldar hornspyrnur og löng innköst heimamanna áttu þeir samt afar erfitt með að brjóta varnarmúr Blika á bak aftur. Það var helst að langar sendingar Bjarna Ólafs úr öftustu víglínu yllu usla í vörn okkar manna. Þetta var því svolítið eins og í Saír, heimamenn herjuðu á svæðið í kringum nýru okkar manna, náðu einstaka höfuðhöggum en ollu litlum skaða.

Á 19. mínútu var aftur á móti komið að áttundu lotu í Hamagangi á Hlíðarenda. Skyndilega var sem Blikar sviptu af sér grímunni, rifu sig út úr köðlunum, og blésu til sóknar. Willum æddi upp endilangan vinstri kantinn í átt að hornfánanum með hálft Valsliðið í kringum sig. Hann sendi snilldarsendingu fyrir þar sem Sveinn Aron var mættur og átti ekki í vandræðum með að setja boltann í markið með vinstri fæti. Gísli var reyndar þétt að baki Sveini Aroni ef honum skyldi bregðast bogalistin.  

1-0 var kannski ekki með öllu sanngjarnt miðað við gang leiksins en Foreman fannst ekki heldur sanngjarnt að vera rotaður forðum.

Valsmenn tóku aftur til við að sækja, Gulli varði glæsilega í amk tvígang en Gísli skaut tvisvar á markið á móti hinum megin.  

Á 37. mínútu sluppu heimamenn með skrekkinn. Willum sendi boltann fram á Svein Aron sem lagði hann fyrir Oliver. Oliver þrumaði á markið en skotið var varið uppi við vinkilinn. Hann var síðan aftur á ferð í lok hálfleiksins, komst einn inn fyrir en kannski hafði hann horft yfir sig af myndinni um Ali og Foreman og ákveðið að halda spennunni aðeins lengur, hann beið alltof lengi með að skjóta svo að niðurstaðan varð horn sem ekkert kom út úr. Tíðindamanni Blikar.is er nær að halda að þarna hafi Oliver gleymt því um stund að hann er líka með firnafínan vinstri fót sem hefði mátt grípa til við þessar aðstæður.

Niðurstaða fyrri hálfleiks var engu að síður sú að þótt Valsmenn hefðu verið með boltann lungann úr leiknum höfðu þeir ekki skapað sér fleiri hættuleg færi en okkar menn – og voru marki undir.  

Valsmenn skiptu Ólafi Karli Finsen inn á í hálfleik fyrir Hauk Pál fyrirliða og átti það líklega að efla sóknarleik heimamanna. Þessi ágæti leikmaður var kallaður „armur Stjörnuþrjótur“ á þessum vettvangi eftir leikinn í deildinni á dögunum, enda er hér mikið lagt upp úr hlutleysi, og fór nú um Blika í stúkunni. Skyldi hann aftur verða okkur skeinuhættur?

Og vissulega voru Valsmenn beinskeyttari eftir hlé. Ívar Örn Jónsson þrumaði á markið á 49. mínútu en Gulli varði. Tveimur mínútum síðar var svo fjandinn laus. Patrick Pedersen vann boltann á miðsvæðinu, sendi á Andra Adolphsson sem rauk upp hægri kantinn og gaf fyrir. Kristinn Freyr missti naumlega af honum en Sigurður Egill var mættur á fjærstöng og lagði boltann snyrtilega í netið. Viktor Örn hélt því fram af nokkrum þunga að Kristinn Freyr hefði fellt hann í aðdraganda marksins en það er ekkert Var á Hlíðarenda og því fór sem fór.  

Örskömmu síðar vippaði Andri Rafn snyrtilega inn fyrir vörn Vals en Sveinn Aron hitti ekki boltann í erfiðu færi. Skömmu síðar var Willum á auðum sjó við færstöngina eftir aukaspyrnu en fann ekki samherja í teignum. Þeim darraðardansi lauk með skoti Arnþórs Ara yfir markið.  

Örfáum andartökum seinna var Viktor Örn heppinn að vera ekki sendur í snemmbúna sturtu. Hann var rétt búinn að fá áminningu þegar þeim Kristni Frey lenti saman sem hefði getað kostað báða gult spjald. Það var hiti í mönnum – enda undanúrslit í bikarnum í húfi.

Á 65. mínútu kom Arnór Gauti inn á fyrir Arnþór Ara. Arnóri Gauta gekk illa að setja mark sitt á leikinn, átti fína spretti en kom ekki með þann fítonskraft sem maður á að venjast. En það átti eftir að breytast áður en yfir lauk.

Næstu mínútur lá  mjög á Blikum, okkar menn náðu ekki upp neinu sérstök spili og á 78. mínútu var Sveini Aroni skipt út af fyrir Brynjólf Darra Willumsson.  

Þó að þeir Willumssynir hafi á köflum leikið ágætlega saman úti á vinstri kantinum – líklega hefur faðir þeirra farið yfir það á töfluæfingu fyrir leik – virtist leikurinn vera að fjara út. Það var  eins og bæði lið væru farin að huga að framlengingu, jafnvel vítakeppni. Á 91. mínútu fór þó um Blika jafnt í stúkunni sem heima í sófa þegar Tóbías Thomsen komst í ágætt færi en mönnum létti þegar hann skaut framhjá.

Mínútu síðar var komið að því að endurtaka lok áttundu lotunnar í Saír. Andri Rafn átti frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna þar sem Arnór Gauti kom brunandi eins og skrattinn úr Skítalæknum og var allt í einu einn á móti markmanni Vals. Honum urðu ekki á nein mistök og hann tryggði Blikum frækinn sigur með öruggu skoti með hægri fæti.

Það var urgur í Valsmönnum eftir markið, Óli Jóh virtist fjúkandi reiður, en það lék enginn vafi á því að Arnór Gauti var réttstæður og markið því fullkomlega löglegt. Og fagurt eftir því.

Segja má að Blikum hafi tekist – rétt eins og Ali 1974 – að láta Valsmenn halda að þeir hefðu tögl og hagldir í leiknum. Okkar menn héngu í köðlunum og létu Valsmenn leika boltanum sín á milli úti á vellinum, senda langa bolta inn í teig sem litlu skiluðu. Að vísu skapaðist stundum óþarfa hætta eftir horn og löng innköst heimamanna, þeir fengu aðeins of oft að leika lausum hala á fjærstönginni, en að öðru leyti virtist sigurinn í lítilli hættu, sérstaklega eftir að Arnór Gauti kom okkur yfir á lokamínútu uppbótartíma. Þá var maður alveg rólegur.

Rumble in the Jungle eða Hamagangur á Hlíðarenda fór því nú eins og forðum. Annað liðið rembdist eins og rjúpa við staur á meðan hitt liðið tók á sig högg á nýru og höfuð án þess að skaðast en kom síðan með eitraðan vinstri krók í fyrri hálfleik og hrikalegt hægri handar högg í þeim síðari. Munurinn er hins vegar sá að Ali rotaði Foreman bara einu sinni í bardaganum í Saír – Blikar Valsmenn tvisvar.

Og nú er að sjá hvort Blikar endurheimti ekki bikarinn í september, rétt eins og Ali heimsmeistaratignina fyrir ríflega fjörutíu árum.

PMÓ

Umfjallanir netmiðla. 

Til baka