BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: KA - Breiðablik á Akureyri á miðvikudag kl.19:15

12.05.2019

Strákarnir okkar fá mjög verðugt verkefni þegar við mætum sprækum KA-mönnum á Geifavellinum á Akureyri klukkan 19:15 á miðvikudaginn.

KA-liðið hefur verið í erfiðri leikjatörn undanfarið – einn heimaleikur gegn Íslandsmeisturum Vals og tveir leikir á erfiðum útvöllum, á Akranesi og í Hafnarfirði. Uppskeran 3 stig eftir góðan sigur á Íslandsmeisturum Vals í 2. umferð. Í 3. umferð fóru KA-menn í Krikann og töpuðu mjög naumlega fyrir FH 3:2. KA-liðið, sem komst yfir 1:2 í leiknum, töldu dómarann hafa sleppt vítaspyrnu á FH á lokamínútum leiksins og voru ekkert að fela þá skoðun sína.

Því er kristaltært að það verða mjög vel gíraðir og peppaðir leikmenn KA sem taka á móti Blikaliðinu þegar flautað verður til leiks kl. 19.15 á miðvikudaginn.

Blikar eru nú i efsta sæti með 7 stig eftir þrjá fyrstu leikina:

Við unnum mjög sterkan 0:2 útisigur á Grindvíkingum í fyrsta leik með mörkum frá Aroni Bjarnasyni og Kolbeini Þórðarsyi. Meira um leikinn>

Í annarri umferð náðu Blikar að knýja fram 2:2 jafntefli gegn HK-ingum í Kórnum með mörkum frá Thomas Mikkelsen og Viktori Erni Margeirssyni. Meira um leikinn>

Í þriðju umferð spiluðu Blikar sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu – reyndar á Fylkisvelli í Árbænum því nýtt yfirlag á Kópavogsvöll er ekki tilbúið. Andstæðingurinn, funheitir Víkingar sem voru þó ekki búnir að vinna leik á tímabilinu en spilamennska þeirra hafði verið með ágætum. Blikar voru staðráðnir í að sýna betri leik en gegn HK og gerðu það líka með glæsibrag. Voru tilbúnir frá fyrstu mínútu og unnu sanngjarnan 3:1 sigur með mörkum frá Kolbeini Þórðarsyni (2) og Höskuldi Gunnlaugssyni. Meira um leikinn>

Sagan

Heilt yfir fellur sagan með Blikum þegar úrslit allra mótsleiki liðanna er skoðuð. Mótsleikirnir eru samtal 38 í öllum mótum frá upphafi. Blikar hafa yfirhöndina með 24 sigra gegn 10 sigrum KA manna og jafnteflin eru 4. Meira>

Mótsleikir liðanna frá upphafi:

Efsta deild – 16 leikir (11-2-3)

Næst-efsta deild – 10 leikir (6-1-3)

Bikarkeppni KSÍ – 4 leikir (1-0-3)

Deildarblikar KSÍ – 8 leikir (6-1-1)

Efsta deild

Innbyrðist viðureignir liðanna í efstu deild eru 16 leikir. Blikar hafa yfirhöndina með 11 sigra gegn 5 sigrum KA manna. Mikið skorað í þessum 16 leikjum eða 46 mörk.

Tölfræði undanfarinna ára bendir til þess að Blikaliðinu líði ágætlega á Akureyri. Í 8 efstu deildar leikjum gegn KA, árin 1978-2018, hafa blikar unnið 5 viðureignir, gert 2 jafntefli og tapað tvisvar.

Innbyrðis leikir liðanna á Akureyri dreifast á tímabilið 1978 – 2018. Síðustu tveir leikir okkar manna gegn KA á Akureyri eru:

2018: 0:0 Aðeins eitt stig í gulum leik .... nánar um leikinn>

2017: 2:4 Höskuldur lagði upp öll fjögur mörk Blika í leiknum ... nánar um leikinn> 

Sögustund

Góðar tengingar hafa verið milli liðanna í gegnum árin. Núna eru 2 fyrrverandi leikmenn Breiðabliks að spila og starfa með KA-liðinu. Steinþór Freyr Þorsteinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson. Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987. Nánar>

Guðjón Pétur Lýðsson skipti yfir í KA í haust frá Val en vegna fjölskylduaðstæðna náðu Akureyringar og Guðjón Pétur samkomulagi að rifta samningnum. KA-menn samþykkt tilboð Blika í þennan snjalla knattspyrnumann þannig að GPL 10 spilar nú aftur í græna búningnum. Nánar>

Leikmannahópur Breiðabliks 2019

Leikurinn

Við hvetjum að sjálfsögðu alla Blika nær og fjær til að mæta og styðja strákana til sigurs þrátt fyrir að vegalengdin frá Stór-Kópavogssvæðinu sé nokkur. Veðurspáin fyrir norðan er góð.

BlikarTV verður með útvarpslýsingu frá leiknum á youtube.

Leikurinn á Greifavellinum á Akureyri hefst kl.19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka