BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: ÍBV - Breiðablik á Hásteinsvelli sunnudag kl.14:00

19.09.2019

Áfram rúllar Pepsi MAX bolti karla. 21. umferð verður leikin á sunnudaginn. Allir leikirnir hefjast kl.14:00.

Eftir súrt jafntefli við Garðbæinga á mánudagskvöld heimsækjum við Blikar Eyjamenn á Hásteinsvelli kl. 14:00 á sunnudaginn.

Staða liðanna í deildinni fyrir leikinn er mjög ólík. Eyjaliðið er í neðsta sæti deildarinnar með 9 stig og fallið úr Pepsi MAX deildinni. Breiðabliksliðið er í 2. sæti deildarinnar með 37 stig. Sigur okkar manna gegn ÍBV á sunnudaginn svo gott sem tryggir Breiðabliki 2. sætið annað árið í röð.

Staðan í Pepsi MAX deild karla þegar tvær umferðir eru eftir.

Sagan

ÍBV og Breiðablik eiga að baki 95 mótsleiki frá fyrsta mótsleik árið 1960. Meira>

Fyrsti leikur liðanna var æfingaleikur við ÍBV út í Eyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga sín fyrstu skerf á knattspyrnuvellinum. Knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð árið 1957. Þar til viðbótar eru margir óskráðir leikir í svonefndri Bæjarkeppni liðanna sem var leikin heima og heiman á vorin og haustin. Sú hefð hófst í kjölfar eldgossins í Eyjum og stóð yfir í nokkuð mörg ár.

Blikar tryggðu sér 3 stig í fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli í júní í sumar. Nánar um leikinn.

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 59. Tölfræðin úr þeim leikjum er frekar jöfn. Blikar hafa unnið 24 leiki, ÍBV 21 leik og jafnteflin eru 14. Markaskorun er nokkuð jöfn. Blikar hafa skorað 81 mörk gegn 80 mörkum ÍBV. Meira>

Í 29 efstu deildar viðureignum Blika gegn ÍBV á Hásteinsvelli hafa Eyjamenn vinninginn með 12 sigra gegn 7 sigrum Blika. Jafnteflin eru 10. Meira>

Úrslit viðureigna liðanna á Hásteinsvelli frá 2009 - 2018. Meira>

2018 0:0 * 2017 1:1 * 2016 0:2 * 2015 2:0 * 2014 1:1 * 2013 4:1 * 2012 0:0 * 2011 1:1 * 2010 1:1 * 2009 0:1

Leikmenn

Leikmannahópur Blika er mikið breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlí-glugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Þá er Aron Bjarnason farinn til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. Og Blikinn snjalli Kolbeinn Þórðarson hefur samið við belgíska 1. deildarliðið Lommel til þriggja ára. Rétt fyrir gluggalok í júlí kvittaði Alfons Sampsted upp á lánssamning við Breiðablik frá Norrköping þetta keppnistímabil. Og Andri Rafn Yeoman hefur haldið til náms á Ítalíu og mun því missa að tveimur síðustu leikjum tímabilsins. Leikmannahópur Blika 2019

Hver verður markakóngur Pepsi MAX deildar karla 2019?

Það stefnir í hörkueinvígi um markakóngstitilinn í Pepsi Max deild karla að þessu sinni. Okkar maður, Thomas Mikkelsen, er markahæstur með 12 mörk. I humátt á eftir er Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson með 11 mörk og svo auðvitað Eyjamaðurinn Gary Martin sem hefur farið mikinn að undanförnu og hefur einnig skorað 11 mörk. Það verður því spennandi að sjá hvernig þessum tveimur hörkuframlínumönnum gengur í leiknum í rokinu í Vestmannaeyjum.

Flautað verður til leiks í Eyjum kl.14:00 á sunnudaginn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka