BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deild karla 2019: ÍA – Breiðablik sunnudag kl.16:00!

09.08.2019

Sextánda umferð Pepsi MAX deildar karla hefst á sunnudaginn með 5 leikjum og lýkur á mánudagskvöld. Blikamenn heimsækja Skagamenn á sunnudaginn. Leikið verður á Norðurálsvelli og hefst leikurinn kl.16:00!

Eftir öruggan 4:0 sigur á KA á Kópavogsvelli á miðvikudagskvöld eru Blikar áfram í 2.sæti Pepsi MAX deildar karla með 26 stig. 

Skagamenn eru í 5.sæti með 22 stig eftir að hafa tapað naumlega fyrir FH á Kaplakrikavelli á þriðjudagskvöld. Allt stefndi í 0:0 jafntefli þegar FH-ingar skora sigurmark þegar 2 mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma.

Skyndilega er spútniklið Skagamanna komið niður í fimmta sæti – þótt það muni aðeins fjórum stigum á þeim og okkur. Það er ljóst að Skagamenn verða erfiðir heim að sækja að venju. En ef okkar menn spila eins og á móti KA erum við til alls líklegir á sunnudaginn.

Innbyrðis leikir 2019

ÍA og Breiðablik mættust í síðasta æfinagleik liðanna fyrir Pepsi MAD 2019. Þá lutu Blikar í gras gegn Skagaliðinu 3:1 á Norðurálsvellinum á Akranesi. Sigur Skagamann var sanngjarn en hugsanlega nokkuð stór miðað við gang leiksins. Skagamenn byrjuðu leikinn með miklum látum og pressuðu okkur hátt uppi á vellinum. Okkur gekk illa að spila boltanum úr vörninni enda voru aðstæður frekar erfiðar á Skipaskaganum, mikið rok og völlurinn þungur. Meira>

Fyrsta tap Blikmanna í Pepsi MAX deildinni 2019 kom gegn sprækum Skagamönnum á Kópavogsvelli um miðja maí. Allt stefndi í 0:0 jafntefli þegar Skagamenn skora sigurmark þegar 3 mínútur voru liðnar af uppbótartíma. Í pitsli eftir leikinn kemst tíðindamaður Blikar.is svona að orði um atvikið: “Á 3. mínútu uppbótartíma fá Skagamenn sína 6. hornspyrnu (Blikar fengu líka 6 slíkar í leiknum). Boltinn er skallaður frá - en þeir eiga skot á markið sem fer í varnarmanninn Einar Loga Einarsson og boltinn lekur framhjá Gunnleifi í hornið fjær.Meira á blikar.is>

Svipmyndir frá fyrri leik liðanan á Kópavogsvelli í sumar. 

Sagan

ÍA er það lið sem Breiðablik hefur mætt næst oftast í keppni frá upphafi. Mótsleikirnir eru orðnir 112 frá fyrsta leik liðanna í maí 1965. Skagamenn hafa sigrað 63 mótsleiki, Blikar hafa sigrað í 27 leikjum og 22 leikir enda með jafntefli. Meira> 

Á 30 ára tímabili, frá 1965 til 1995, vinna Skagamenn nánast alla mótsleiki liðanna. Meira>

Frá árinu 2000, í 33 mótsleikjum liðanna, hafa Blikar unnið 14 leiki, jafnt er í 8 leikjum, og Skagamenn hafa unnið 11 mótsleiki. Meira>

Efsta deild

Leikir í efstu deild frá upphafi (fyrst 1971) eru 55. Skagamenn leiða með 33 sigra gegn 14 sigrum Blika og 8 jafnteflum. Meira>

Eftir að Blikar tryggja sér aftur sæti efstu deild árið 2006 er vinningshlutfalið mikið jafnara. Á þeim tíma sem liðinn er síðan þá fellur tölfræðin með okkur Blikum; 7 sigrar gegn 6 Skaga-sigrum og 4 jafntefli í 17 viðureignum 2006-2019. Meira>

Skagamenn léku 1. deild 2009 og 2011, og aftur árin 2014 og 2018. Því eru efstu deildar leikir liðanna bara 17 á 14 ára tímabili 2006-2019.

Mótsleikir liðanna frá upphafi

A-deild – 55 leikir (14-8-33) / B-deild – 2 leikir (0-0-2) / Bikarkeppni KSÍ – 9 leikir (2-7) / Deildarblikar KSÍ – 7 leikir (3-3-1) / Fótbolti.net mót – 4 leikir (3-1-0) / Litla bikarkeppnin – 35 leikir (5-10-20).

Síðustu 5 í efstu á Akranesi

Blikum hefur gengið ágætlega gegn Skagamönnum í efstu deild á Akranesi í síðustu heimsóknum. Aðeins eitt tap í síðustu 5 heimsóknum.

2017: 2:3. Blikar lögðu ÍA …

2016: 1-0. Auglýst eftir ástríðu! ...

2015: 0-1. Komnir í toppbaráttuna …

2013: 2-2. Blikar færðu ÍA stig á silfurfati …

2012: 1:1. Dramatískar lokamínútur gegn Skagamönnum …

Leikmenn

Tveir núverandi leikmenn Blika hafa spilað með báðum liðum. Þegar Viktor Örn Margeirsson lék sem lánsmaður hjá ÍA árið 2017. Og Guðmundur Böðvar Guðjónsson lék með ÍA liðinu 2016/2017.

Leikmannahópur Blika er töluvert breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlí-glugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Þá er Aron Bjarnason farinn til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. Og Blikinn snjalli Kolbeinn Þórðarson hefur samið við belgíska 1. deildarliðið Lommel til þriggja ára. Og rétt fyrir gluggalok kvittaði Alfons Sampsted upp á lánssamning frá Norrköping út keppnistímabilið 2019. 

Leikmannahópur Breiðabliks 2019

Flautað verður til leiks á Norðurálsvellinm á Akranesi á sunnudaginn kl.16:00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka