BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2020: Valur – Breiðablik

25.09.2020 image

Pepsi MAX deild karla 2020. Valur - Breiðablik á Origo vellinum sunnudag kl.19:15!

Það stefnir í hörkuleik gegn Hlíðarendapiltum í góða veðrinu á Origo vellinum á sunnudagskvöld. Eftir góðan 2:1 sigur Blika á Stjörnunni er næsta viðureign okkar manna gegn Val - lang stigahæsta liði deildarinnar með 40 stig eftir 16 leiki. Nokkur lið eru að berjast um Evrópusætin mikilvægu og þar standa Blikar ágætlega að vígi með 26 stig í 3. sæti eftir 15 leiki - einu sæti neðar en FH í 2. sæti með 29 stig.

image

Efsta deild

Fyrstu innbyrðis leikir liðanna í efstu deild voru árið 1971 – árið sem Breiðablik lék fyrst í efstu deild. Fyrri leikurinn 1971 var heimaleikur Blika og lauk með 2-0 sigri okkar manna. Það voru þeir Guðmundur Þórðarson og Magnús Steinþórsson sem skorðu fyrstu efstu-deildar mörk Blika gegn Valsmönnum. Seinni leikurinn tapaðist 4:2.

Aðeins nánar um fyrstu innbyrðis viðureignir liðanna. Haustið 1971 áttust liðin við í 3ja sinn. Nú í 8-liða úrslitum Bikarkeppninnar. Blikar gerðu sér lítið fyrir unnu leikinn 2-1 og fóru áfram í 4-liða úrslit. Mættu Reykjavíkur Víkingum ú úrslitaleiknum eftir 1:0 sigur á Fram í undanúrslitum. Samtals 11 mörk skoruð í þremur innbyrðisleikjum liðanna árið 1971.

Tölfræðin fellur með Val. Í 67 efstu deildar leikjum hafa Valsmenn unnið 28 leiki, Blikar 24 leiki og 15 sinnum skilja liðin jöfn. Oft mikið skorað í innbyrðis leikjum liðanna. Í þessum 67 innbyrðis leikjum hefur Valur skorað 106 mörk gegn 95 mörkum Blikamanna. Samtals 201 mörk í 67 leikjum sem gerir 3 mörk að meðaltali í leik. Innbyrðis leikir liðanna>

Síðustu 5 á Origo vellinum

Breiðablik hefur yfirhöndina gegn Val í síðustu 5 viðureignum á Origo vellinum - stigaárangur Blika er 60% gegn 40% Valsmanna.

Leikmenn

Tveir leikmenn í núverandi leikmannahópum liðanna hafa leikið með báðum liðum. Markmaðurinn okkar Anton Ari Einarsson á 36 leiki að baki með Valsliðinu. Aron Bjarnason kom til Breiðabliks frá ÍBV í janúar 2017 og lék 75 leiki með Kópavogsliðinu áður en hann var seldur til Újpest í Ungverjalandi í júlíglugganum 2019. Aron er góður félagi. Damir hlakkar til að hitta vin sinn á sunnudaginn...

Leikmannahópur Breiðabliks

Allir leikmenn Blika ættu að vera klárir í slaginn nema Elfar Freyr Helgason sem tekur út leikbann í leiknum vegna fjögurra gulra spjalda. 

image

Dagskrá

Miðar eru seldir í gegnum miðappið Stubbur.Takmarkaður miðafjöldi í boði. 

Leikurinn verður flautaður á kl.19:15. Veðurspáin fyrir sunnudagskvöld er mjög góð. 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur í boði BlikarTV frá heimsók Valsmanna á Kópavogsvöll í sumar:

Til baka