BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Óskar Hrafn lætur af störfum hjá Breiðabliki

08.10.2023 image

Frá knattspyrnudeild Breiðabliks:

Á mánudaginn síðasta óskaði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki, eftir að láta af störfum um miðjan desember nk.

Eftir vandlega íhugun var það mat forsvarsmanna félagsins að hreinlegast væri að ganga frá þessum breytingum strax og lætur því Óskar Hrafn af störfum í dag.

Óskar Hrafn kom til Breiðabliks 2019 og hefur á sínum tíma náð frábærum árangri með liðið. Ber þar hæst Íslandsmeistaratitilinn 2022 og það að koma Breiðabliki í riðlakeppni í Evrópu fyrst íslenskra karlaliða.

Undir stjórn Óskars hefur liðið spilað 25 Evrópuleiki og með árangri sínum átt mestan þátt í því að tryggja íslenskum félagsliðum 4 Evrópusæti. Það hefur verið afar gaman fyrir stuðningsmenn Breiðabliks og aðra knattspyrnu- áhugamenn að fylgjast með spilamennskunni, innanlands og utan, undir stjórn Óskars Hrafns

Með metnaði sínum og eldmóði hefur hann hvatt félagið til að gera enn betur í aðstöðu og aðbúnaði öllum og um leið hjálpað leikmönnum að nýta sína hæfileika og taka næstu skref hvort það er innan raða Breiðabliks eða á erlendri grundu.

Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Óskari Hrafni kærlega fyrir samstarfið og samvinnuna, honum fylgja okkar bestu kveðjur og óskir úr Smáranum um gott gengi í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur á komandi misserum og árum.

Til baka