BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggur sigur á Þrótti

14.03.2015

Blikar unnu öruggan sigur á Þrótti 3:1 í Kórnum í kvöld. Það voru þeir Ellert Hreinsson 2 og Arnþór Ari Atlason sem settu mörk Blikaliðsins í fyrri hálfleik. Reyndar hefðu Blikamörkin átt að vera mun fleiri en við fórum illa með nokkur dauðafæri. Seinni hálfleikur var mun daufari en sá fyrri og þrátt fyrir að við hefðum átt nokkur ágæt færi þá vildi tuðran ekki inn og tveggja marka sigur staðreynd.

Fyrri hálfleikur var á flestan hátt mjög vel spilaður hjá Blikaliðinu. Boltinn gekk hratt manna á milli og Þróttarar voru á löngum köflum eins og statistar inn á vellinum. Fyrsta markið kom eftir glæsilega sókn upp þar sem Arnór og Davíð fífluðu Laugardalsdrengina upp úr skónum og Arnþór Ari skoraði með góðu skoti í teignum. Næsta mark kom eftir hornspyrnu frá Kristni aðeins nokkrum mínútum síðar.

Blikaliðið fékk nokkur góð færi til að auka við forskotið en það var eins og töfrarnir væru farnir úr sókninni. Sérstaklega fór Ellert illa með tvö gullin tækifæri. Ákveðið kæruleysi greip einnig aðra leikmenn liðsins og Þróttara komust óvænt í færi og nýttu það vel. Staðan því 2:1. En þá spýttu okkar drengir í lófana og Ellert bætti við glæsilegu skallamarki eftir góða sendingu frá Kristni Jónssyni.

Leikurinn datt töluvert niður í seinni hálfleik. Þróttarar komu grimmari til leiks og pressuðu okkur ofarlega á vellinum án þess þó að skapa sér nein færi. Við náðum ekki heldur að nýta nokkur ágæt tækifæri til að auka við forskotið. Í heildina getum við samt verið þokkalega ánægð með leikinn. Við skoruðum þrjú góð mörk og vorum að skapa okkur mörg færi í leiknum. Arnór fyrirliðið fór fyrir sínu liði og átti mjög góðan leik. Kiddi Jóns byrjaði leikinn að þessu sinni og náði einnig að setja eins mikinn svip á þennan leik eins og þann síðasta. Í síðari hálfleik skipti hann við Ósvald Jarl Traustason sem hefur átt við meiðsli að stríða og var ánægjulegt að sjá hann aftur inn á vellinum.

Þó nokkur fjöldi áhorfenda lagði leið sína í Kórinn á þessu laugardagskveldi. En ekki er hægt að segja að það hafi verið mikil stemmning í stúkunni. Varla var klappað fyrir góðum tilþrifum okkar manna og nánast aldrei þegar nýir menn komu inn á. Við verðum að ná upp meiri stemmningu meðal áhorfenda á fimmtudaginn þegar við mætum nágrönnum okkar úr HK einnig í Kórnum.

Leikskýrsla

-AP

Til baka