BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Oliver sá um HK

19.03.2015

Oliver Sigurjónsson skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu eftir rúmlega 15 mínútna leik fyrir Blikana í 1:0 sigri gegn HK í Lengjubikarnum í Kórnum í kvöld. Þetta var nú eitt af því fáa sem gladdi áhorfendur enda var leikurinn lítilla sanda og lítilla sæva eins og segir í Hávamálum. Leikurinn var líka söfnunarleikur fyrir Ólaf ,,Hlera" Inga Ingimundarson og safnaðist töluverð upphæð fyrir kappann og er það vel. 

Leikurinn byrjaði reyndar fjölega og strax á annarri mínútu slapp Ellert Hreinsson í gegn en renndi boltanum fram hjá marki heimapilta. Blikar réðu lögum og lofum framan af hálfleiknum og átti maður von á því að við myndum kafsigla nágranna okkar. En þegar við náðum ekki að bæta við forskotið þá var eins og töluverður vindur væri úr okkar mönnum. Þeir spiluðu á ca 80% hraða en það dugði sem betur fer gegn frekar slöku HK-liði. Einu færin sem þeir fengu voru eftir feilsendingar varnarmanna okkar og er það áhyggjuefni að menn skuli ekki halda einbeitingu allan leikinn. 

Oliver Sigurjónsson hélt upp á að hafa verið valinn í U-21 árs landslið Íslands í fyrsta skipti í dag og átti fínan leik. Markið sem hann gerði var gullfallegt og greinilegt að Guðjón Pétur er nú kominn með keppinaut í aukaspyrnum í sumar. Kiddi og Arnór áttu ágæta spretti upp kantana af og til framan af leik en í heild þurfum við að gera betur sem lið ef við  ætlum okkur að gera einhverjar rósir í sumar.

-AP

Til baka