BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öflug liðsheild gerði gæfumuninn

29.03.2015

Blikar mættu lærisveinum Heimis Guðjónssonar í 6. umferð Lengjubikarsins í Fífunni í dag. Fyrirfram bjuggust margir við hnífjöfnum og hádramatískum leik í kjölfar meints fjölmiðlafárs. Veðrið í Fífunni var með allra besta móti og slatti af áhorfendum mættu á svæðið og voru bara hressir flestir. Hlerinn mættur í annað sinn í Fífuna eftir aðgerðina á dögunum og var í góðum fíling.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M).
Arnór Aðalsteinsson (F) -Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason  - Kristinn Jónsson.
Höskuldur Gunnlaugsson - Arnþór Ari Atlason - Guðjón Pétur Lýðsson - Gunnlaugur Hlynur Birgisson - Davíð Kristján Ólafssson.
Ellert Hreinsson.

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Oliver Sigurjónsson
Olgeir Sigurgeirsson
Isman Tandir
Kári Ársælsson
Ósvald Jarl Traustason
Viktor Örn Margeirsson

Sjúkralisti: Ekki vitað
Leikbann: Enginn

Myndir: Varnarmaðurinn sér sitt óvænna og leggur Ellert flatann. Og nú fór rauða spjaldið réttilega á loft og vítaspyrna dæmd. Myndataka: Helgi Viðar Hilmarsson

Blikar hófu þennan leik með þokkalegum látum og gáfu gestunum lítinn frið og voru á tánum um allan völl. Það reyndist heillaráð því áður en klukkan var fjórðung gengin í eitt voru okkar menn búnir að setj´ann í netið. Þar var Davíð að verki þegar hann setti boltann snyrtilega í netið eftir sendingu Guðjóns Péturs. Þarna voru þeir fljótir að hugsa og gerðu sér góðan mat úr hratt tekinni aukaspyrnu að sögn viðstaddra. Þetta var strax á 7. mínútu og nú fóru hlutirnir að gerast. Blikar þjörmuðu vel að gestunum og pressuðu og djöfluðust í þeim á milli þess sem þeir léku lipurlega á milli  sin og komu sér í vænlegar stöður. M.a. komst Ellert í gegnum vörn gestanna og inn í teig og var greinilega felldur án þess að dómarinn gæfi nokkuð fyrir það og þótti oss það súrt. Þarna sluppu gestirnir við víti og rautt spjald og önduðu léttar. En það reyndist skammgóður vermir, eða rétt eins og að míga í vettlinginn þegar kuldinn er að trylla kvikasilfrið, eins og sungið er í þekktum dægurlagatexta, því skömmu síðar fipaðist varnarmaður gestanna við knattgælur og Ellert stökk af stað og gerði leifturárás, hirti knöttinn og áður en nokkuð var við ráðið geystist hann inn í teig. Þar sá varnarmaðurinn sitt óvænna og lagði Ellert flatann í föðurættina. Og nú fór rauða spjaldið réttilega á loft og vítaspyrna skyldi það vera. Úr henni skoraði Arnór af öryggi og staðan orðin 2-0 okkar mönnum í vil. Verðskuldað.

Nú gerði vart við sig nokkur ólund hjá gestunum og eftir því sem hún óx líktust þeir meira sjálfum sér. Gerðust brotlegir og fóru að röfla í dómaranum alveg út í eitt. Ekkert höfðu þeir upp úr því annað en gul spjöld. En óneitanlega lífgaði þetta upp á leikinn og ekki laust við að hitnaði í kolunum. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði hálfleiks og fátt bar til tíðinda annað annað en einn úr hvoru liði, og okkar megin var það Gunnlaugur Hlynur, þurftu að yfirgefa völlinn eftir harkalegt samstuð. Vonandi ekki alvarlegt en sennilega smá saumaskapur hjá báðum. Viktor Örn kom þá inn í miðvarðarstöðuna og Damir tók stöðu Gunnlaugs á miðjunni. Staðan í hálfleik því 2-0 Blikum í vil.

Seinni hálfleikur var ölllu tilþrifaminni og bar fátt til tíðinda lengi vel. Blikar héldu sjó og gestirnir freistuðu þess að minnka muninn og voru á köflum meira með boltann en sköpuðu sér lítið af færum. Fengu nokkur horn og aukaspyrnur en okkar menn áttu allskostar við þá í varnarleiknum almennt og sér í lagi í háloftabardögum. Hæðin á liðinu er allgóð og ætti ekki að vera vandamál  í sumar. Bosníumaðurinn Ismir kom inn á um miðjan hálfleik og Oliver skömmu síðar og Blikum öx heldur ásmegin þegar líða tók á. Voru þó stundum að klappa boltanum óþarflega mikið og tóku of langan tíma í hlutina og náðu ekki að bæta við marki fyrr en skammt var til leiksloka er brotið var á Arnþóri innan vítateigs eftir laglega sókn og enn var það Arnór sem skoraði, og nú með föstu skoti í hornið. Staðan orðin 3-0 og öruggur sigur Blika þar með í höfn. Olgeir kom inn þegar skammt var til leiksloka og Blikar fengu svo eitt gott færi í blálokin sem ekki nýttist.

Þessi leikur var ágætur af hálfu Blika og sigurinn verðskuldaður, en mun sosum ekki gera neitt fyrir liðið í sumar. Hinsvegar sýnir hann að liðið er á ágætu róli og með vinnusemi og dugnaði er því ýmsir vegir færir. Ný kynslóð leikmanna er nú að láta til sín taka af alvöru og það verður spennandi að sjá hvernig Arnari og Kristófer tekst að móta þann leir. Og svo verður líka  spennandi að sjá hvaða leikmenn koma til með að bætast í hópinn fyrir mót.
Það er góður vani að vinna leiki þó menn séu einum fleiri megnið af leiknum og það ber að hafa í huga, sem reyndist okkur oft erfitt í fyrra, og eins og Kristján Guðmundsson, útgerðarmaður úr Bolungarvík vestra, benti réttilega á að leik loknum og hafði eftir L. v. Gaal, að það þýðir ekkert að ætla að fara að hreyfa sig hægar og klappa boltanum meira þó andstæðingurinn missi manna út af. Þvert á móti á þá að láta kné fylgja kviði. Annars getur farið illa.


Áfram Breiðablik !

OWK

p.s.
það var sérstaklega gaman að sjá Kristinn Jónsson klára 90 mínútur í dag.

Til baka