BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggt gegn Leikni!

13.02.2021 image

Blikar lögðu Leikni örugglega 4:0 í fyrsta leik Lengjubikarsins árið 2021. Mörkin urðu tvö í hvorum hálfleik og hefðu hæglega geta orðið fleiri því við áttum tvær spyrnur í þverslá auk nokkurra nokkuð góðra færa sem við ekki nýttum.  Þrátt fyrir hávaðarok reyndu bæði lið að spila knettinum og úr varð hinn ágætasti knattspyrnuleikur. Mörk Blika settu Höskuldur Gunnlaugsson og Thomas Mikkelsen í fyrri hálfleik og Davíð Ingvarsson og Viktor Karl Ingvarsson í þeim síðari.

image

Breiðhyltingar börðust vel framan af leik en smám saman tóku okkar piltar öll völd á vellinum. Höskuldur skoraði ágætt mark á 26 .mínútu og danska dýnamítið Thomas Mikkelsen bætti við marki skömmu fyrir leikhlé.  Davíð nýtti sér aðstoð Kára og setti knöttinn í netið beint úr hornspyrnu. Fallega gert hjá  bakverðinum snjalla! Ekki var markið hjá Viktori Erni síðra. Hann skildi bakvörð Leiknis eftir í reykmekki og negldi knettinum undir Smit markvörð. Frábært mark! Þar með var öruggur 4:0 sigur staðreynd.

Mörkin úr leiknum í boði BlikarTV:

Greinilegt er að sigurinn í Fótbolta.net mótinu var engin tilviljun. Blikaliðið er vel þjálfað og það virðist ekki skipta máli þótt byrjunarliðinu sé nánast skipt út af. Hópurinn er öflugur og verður gaman að sjá hvernig þetta þróast næstu vikur.

Næsti leikur okkar í Lengjubikarnum er gegn Þrótturum í Laugardalnum á föstudaginn kemur. Ekki er vitað hvort eitthvað verður búið að slaka á sóttvarnarkröfum þá en vonandi förum við að geta fylgst með leikjum í raunheimum fljótlega.

-AP

Óskum Guðjóni Pétri Lýðssyni til hamingju með 150. mótsleikinn með Breiðabliki!

image

Til baka