BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öflugur sigur á nýja grasinu!

22.05.2023 image

Blikar unnu frábæran 2:0 sigur gegn KA-mönnum á heimavelli í kvöld. Þrátt fyrir að gestirnir hafi pressað nokkuð á okkur í fyrri hálfleik var sigurinn fyllilega sanngjarn. Hetja leiksins var Gísli Eyjólfsson sem skoraði stórkostlegt mark í leiknum en áður hafði hann náð í víti sem Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði nýtti fullkomlega.

Eins og undanfarna daga var veðrið ekki beint að laða áhorfendur á völlinn. Sunnanstrekkingur, 10 metrar á sekúndu með regnskúrum á köflum. Inn á millli birti hins vegar til þannig að leikmenn gátu spilað ágæta knattspyrnu megnið af tímanum. Það voru því rúmlega 800 manns sem mættu til að berja leikinn augun og skemmtu sér nokkuð vel. Margir hafa spurt sig hvort þessari hörmungatíð í veðrinu fari ekki bráðum að linna. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, hefur lofað betri tíð í sumar en höfum fleyga ljóðlínu hins ágæta Blika, Sigtryggs Baldurssonar alias Bogomil Font, í huga þegar hann söng svo eftirminnilega um árið ,,veðurfræðingar ljúga“!

En snúum okkur þá að leiknum sjálfum. KA menn mættu ákveðnir til leiks og pressuðu okkur framarlega á vellinum. Við vorum í nokkrum erfiðleikum að spila okkur út úr pressunni enda vorum við með sterkan vindinn í fangið. Varnarlína Blikaliðsins með 200 leikjamanninn, Viktor Örn Margeirsson, þar fremstan í flokki spilaði hins vegar nánast óaðfinnanlega. 

Damir, Andri Rafn, Viktor Örn og Höskuldur hentu öllu til baka sem Norðanmenn létu á okkur dynja vel studdir af öflugum miðju og sóknarmönnum okkar. Í þau örfáu skipti sem boltinn komst í gegnum varnarlínu þá varði Anton Ari allt sem á markið rataði. Staðan því 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhléi.

Blikaklúbbsmeðlimir létu sig hafa það að labba yfir í tengibygginguna til að fá kaffisopa enda frekar svalt í lofti. Þar var nú ekki nein vitleysa sögð frekar en fyrri daginn. Gömlu 4. flokks Íslandsmeistarararnir frá 1974, Svenni Ottós og Biggi Teits,  voru nokkuð sáttir með fyrri hálfleikinn. ,,Við tökum yfir seinni hálfleikinn með vindinn í bakið,“ sagði Sveinn ákveðið og voru flestir fylgisveinar hans sammála þeirri greiningu.

Það kom snemma í ljós að Sveinn hafði verið sannspár. Blikar mættu með miklum krafti í seinni hálfleik og strax á annari mínútu hálfleiksins stal Gísli knettinum af varnarmanni KA, komst inn í vítateiginn þar sem Stubbur markvörður felldi Blikann knáa og víti dæmt. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði, steig á punktinn og skoraði af af fádæma öryggi.

Eftir þetta var í raun bara eitt lið á vellinum. Á 54. mínútu sýndi Gísli aftur snilli sína. Hann klobbaði sóknarmann þeirra gulklæddu út á miðjum vellinum, sótti svo hratt að markinu og margspjaldaðir KA menn hrökluðust undan í ofboði. Blikinn lét því vaða af um 30 metra færi og boltinn söng í slánni og inn með smá viðkomu í varnarmanni KA. Eitt af mörkum tímabilsins ekki spurning!

Blikaliðið sigldi leiknum örugglega í höfn eftir þetta mark. Gestirnir gerðu lítið annað það sem eftir lifði leiks en að reyna vonlausar langspyrnur fram á völlinn sem Blikar áttu í litlum erfiðleikum með að stöðva. Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir þennan leik. Gott jafnvægi var á milli varnar, miðju og sóknar. Liðið hélt haus þegar á móti blés í fyrri hálfleik en skipti um gír í síðari hálfleik þegar tækifærið og veðrið leyfði. Svo virðist sem þjálfarateymið sé að finna réttu blönduna eftir töluverðar mannabreytingar í fyrstu leikjunum. En við fáum aðra alvöru prófraun á fimmtudaginn þegar drengirnir hans séra Friðriks mæta á Kópavogsvöll. Það er leikur úr 13. umferð sem var færður vegna Evrópuleikja Blika. Valsmenn hafa verið að hiksta í síðustu leikjum og koma því dýrvitlausir til leiks. En ef Blikaliðið mætir jafn vel stemmt á fimmtudaginn og það gerði gegn KA þá eru okkur allir vegir færir.

-AP

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

image

Til baka