BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Núll - núll gegn Grindavík

22.07.2019

Breiðablik tók á móti Grindavík í 13. umferð Pepsi Max deild karla á dásamlegu mánudagskvöldi á Kópavogsvelli. Veðrið var fullkomið til knattspyrnuiðkunar, Leó Snær vallarstjóri var búinn að rennbleyta völlinn og hið mikla gervigraslið Breiðablik átti að eiga ljúft kvöld í vændum gegn varkárum Grindvíkingum sem elska ekkert meira (fyrir utan sjómennsku og Lýsi) en að halda hreinu á knattspyrnuvellinum.

Fyrir leik fékk Andri Rafn Yeoman viðurkenningu frá Orra Hlöðverssyni og Olgeiri Sigurgeirssyni fyrir að vera orðinn leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi. Olgeir var handhafi þess heiðurs, með 321 mótsleiki, þar til Andri Rafn sló metið hans í leik 11. júlí 2019.

Eftir vonbrigðin í Liechtenstein átti maður von á að liðið myndi hysja buxurnar langt upp fyrir nafla og bretta upp ermar með því. Ágúst Gylfason stillti upp í 4-2-3-1, gárungarnir spurðu síðar hvort ekki hefði hreinlega verið hægt að hafa bara einn miðjumann í djúpinu þar sem gestirnir væru sennilega ekki að fara spila mikinn sóknarleik.

Leikskýrsla KSÍ     Úrslit.net skýrsla

Byrjunarlið Blika var svo skipað:

Það var alveg ljóst að Grindvíkingar voru komnir til að verja markið sitt og um leið stigið sem þeir fengu fyrir það eitt að mæta. Varnarleikur liðsins var ógnarþéttur og ráðalausir leikmenn Breiðabliks komust hvorki lönd né strönd gegn ofboðslega vel skipulögðu liði Túfa.

Á 7. mínútu leiksins kom besta færi leiksins þegar Kolbeinn komst einn gegn markmanni eftir sjaldséð mistök Josip Zeba í vörn gestann. Kolbeinn var hins vegar of lengi að munda skotfótinn og annar varnarmaður komst fyrir skotið.

Næstbesta færi leiksins leit dagsins ljós þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum og þá var það Thomas sem sneri á mann inni í vítateig Grindvíkinga en Djogatovic náði að blaka boltann í stöngina.

Hálfleikur og staðan 0-0

Menn höfðu það á orði í hálfleiknum að við hlytum að gera einhverjar breytingar í hálfleiknum, ekki endilega á leikmönnum heldur leikskipulagi. Það er alveg óþarfi að vera með 2 varnarsinnaða miðjumenn gegn liði sem sækir á 2 mönnum og verst með allt liðið inni í eigin vítateig.
Í síðari hálfleik voru það hins vegar Grindvíkingar sem byrjuðu betur og voru að ógna meira fyrsta korterið eða svo en eftir það hófst gamanleikurinn (í kaldhæðni). Blikar sóttu án afláts og fengu um það bil 10 hornspyrnur á 30 mínútum en ekki ein þeirra var líkleg til að valda usla í teignum. Blikar gerðu þrjár breytingar á liðin sínu og inn komu Gísli fyrir Kolbein, Brynjólfur fyrir Höskuld og Þórir fyrir Davíð. Þó ekki allir í einu. Grindvíkingar vörðust nánast allir inni í sínum teig og buðu Blikum í dans sem heitir “viltu koma í skallaleikinn” þann dans kunna Grindvíkingar ákaflega vel en Blikar ekki svo vel.

Myndaveisla í boði BlikarTV

Boltanum var dælt inn í boxið linnulaust en gestirnir komu öllu í burtu og þannig kláraðist leikurinn og lítið um að segja nema hvað að Breiðablik á ekki að bomba boltanum fram. Það er ekki stíll sem hentar liðinu neitt sérstaklega vel. Leikurinn endaði með 0-0 jafntefli og enn og aftur er sóknarleikur liðsins ákaflega máttlítill. Hugmyndaleysi og hægt tempó er búið að einkenna leik liðsins í undanförnum leikjum.

Bestu leikmenn Blika í leiknum voru Davíð Ingvarsson sem átti mjög góða spretti og fyrirgjafir í fyrri hálfleiknum sérstaklega og Andri Rafn Yeoman sem hljóp eins og brjálæðingur um allan völlinn og vann marga bolta. Þá var Höskuldur mjög frískur í fyrri hálfleiknum.

Síðan að Jonathan Hendrickx fór hafa Blikar ekki enn unnið leik og skorað 2 mörk í 5 leikjum. Þá komu þessi 2 mörk í uppbótartíma í tveimur leikjum sem voru svo gott sem tapaðir.

Það er alveg ljóst að liðinu bíður ærið verkefni eftir viku þegar við förum í heimsókn í Víkina. Ef við ætlum okkur að beita taktínni “negla fram og vona það besta” getum við alveg eins sleppt þvi að mæta nema að í liðið mæti Jóhann Risi og Hafþór Júlíus þvi varnarmenn Víkinga elska ekkert meira en að skalla boltann í burtu.

Eins og deildin er að spilast erum við kannski stálheppnir að vera enn í öðru sæti og enn með möguleika á Íslandsmeistaratitlinum og að sjálfsögðu Bikarnum líka.

Nú þurfa allir að gíra sig upp fyrir alvöru baráttu og fara að spila af sama krafti og stuðningsmenn vita að Blikaliðið getur gert.

GMS

Umfjallanir annarra netmiðla.

Til baka