BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

„Nú kem eg eigi leingur fyrir mig því kvæði“

16.09.2018

Laugardalurinn skartaði sínu fegursta að morgni dags þegar bikarúrslitaleikur KSÍ fór fram á þjóðarleikvangi Íslands. Eftir því sem leið á daginn versnaði veðrið aftur á móti, það bætti í vind sem að vísu var af óákveðinni vindátt og þegar lið Breiðabliks og Stjörnunnar gengu inn á völlinn kl. 19.15 má segja að veðrið hafi verið orðið vont. Og svo versnaði það eftir því sem leið á leikinn. Hér finnst mér að KSÍ verði að athuga sinn gang. Daginn fyrir og eftir leik er prýðisveður og þeir velja daginn á milli!

Það var mikið fjölmenni á vellinum og létu Blikar ekki sitt eftir liggja, mikil stemmning í stúkunni; henni var vandlega skipt í norður og suður, sem skýrir væntanlega af hverju Stjörnumenn skörtuðu fánum í norður-kóreanskri stærð.

Kunnuglegt lið – önnur ásýnd

Blikar stilltu upp kunnuglegu liði en þó ekki. Gulli var að sjálfsögðu í markinu, léttklæddur að vanda. Fyrir framan hann voru Damir, Viktor og Elfar Freyr í þriggja manna vörn en Hendrickx og Davíð vængbakverðir. Andri Rafn, Oliver og Willum á miðjunni. Gísli og Thomas Mikkelsen voru síðan þar fyrir framan.

Byrjunarlið og atvik hér.

Þessi liðsuppstilling virkaði vel, Stjörnumönnum gekk illa að skapa sér færi og Blikar voru hættulegri ef eitthvað var í jöfnum fyrri hálfleik. Þessi þriggja manna vörn var afar traust – á meðan hennar naut við. Stjarnan reyndi að riðla skipulaginu með því að senda boltann aftur fyrir vængbakverðina en af því skapaðist sjaldnast mikil hætta.

Minni, gleymska og skjálfandi útlendingur

Hér þarf að koma fram að minni manna er brigðult, kannski þess vegna sem tíðindamaður Blikar.is gaf út nýverið skáldverkið Handbók um minni og gleymsku eftir Ragnar Helga Ólafsson. Því er hér mjög stuðst við minnispunkta sem skrifaðir voru við erfiðar aðstæður í stúkunni; það rigndi eldi og brennisteini, það var rok, það var kalt og fleira mætti nefna. Ég hef til dæmis punktað hjá mér að í upphafi seinni hálfleiks settist erlendur maður, líklega af suður-evrópsku bergi brotinn, mögulega njósnari, fyrir framan mig, glænepjulega klæddur og hóf að skjálfa sér til hita. Hann hélt á kaffibolla sem nötraði þannig að hætta skapaðist í nærliggjandi sætum. Eiginkonan hafði miklar áhyggjur af heilsufari mannsins.

Að kveikja í IKEA-geitinni

Og fyrst farið er að nefna minni og gleymsku þá man ég svo langt að mér gekk erfiðlega að hætta að tala um Garðahrepp þegar þessi ræma, sem er næsti nágranni Hafnfirðinga, var prómóteruð í kaupstað og kölluð Garðabær.  Ég minnist þess aftur á móti ekki að mikið sé fjallað um þessa rönd í bókmenntum þótt eitthvað hafi vænkast hagur þeirra eftir að hafa innlimað Álftanes og þar með Bessastaði. Ég get þó nefnt að í skáldsögunni Kópavogskrónikan eftir Kamillu Einarsdóttur sem út kemur í október (afsakið plöggið) er vikið að þessu ágæta sveitarfélagi og það meira að segja nokkuð vinsamlega: „Þegar ég fékk snappið frá henni, í rokinu í Garðabæ að kveikja í IKEA-geitinni ...“

Fjöldi færa

En aftur að minnispunktunum. Ég hef nóterað hjá mér fjölda færa hjá okkar mönnum í fyrri hálfleik: Gísli með skot yfir eftir 6 mínútur og 34 sekúndur, Thomas með hættulega fyrirgjöf sem bjargað var naumlega í horn, Gísli fór illa með varnarmann Stjörnunnar, komst einn í gegn en Haraldur bjargaði í markinu. Reyndar verður að nefna að á sömu mínútu skapaðist stórhætta við mark Blika þannig að þetta var ekki alveg einstefna, svo allrar sanngirni sé gætt, sem er aðall þessa pistils. Þegar leið á hálfleikinn jafnaðist sem sagt leikurinn. Það voru sóknir á báða bóga, þótt menn tækju ekki mikla áhættu. Á 26. mínútu áttu Blikar snilldarsókn með fallegu og hröðu spili en síðan þurfti dómarinn að eyðileggja það með því að dæma rangstöðu. Og mínútu síðar var hætta við mark okkar manna.

Með takkana á undan sér

Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína – sem rétt er – að Stjörnumenn skirrast ekki við að vera „grimmir og grófir“, eins og þeir reyndar sögðu sjálfir í fjölmiðlum eftir leik liðanna á Kópavogsvelli í sumar (ég þurfti ekki að fletta þessu upp). Á 34. mínútu var Þorsteinn Már Ragnarsson réttilega dæmdur rangstæður þegar hann var að sleppa einn í gegn en lét sig þó ekki muna um að þruma sér með takkana á undan í Gulla. Hann fékk gult spjald en það hefði alveg getað verið rautt. Gulli lét þetta ekki á sig fá heldur svaraði fyrir sig með því að verja glæsilega á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Stuðningsmenn Blika fóru nokkuð brattir í hléið, hef ég skrifað hjá mér.

Kolbeinn ungi

Okkar menn hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Sóttu djarflega en vörðust líka drengilega. Fljótlega í hálfleiknum voru Stjörnumenn í nauðvörn í þrígang á sömu mínútunni. Skömmu síðar tætti Gísli vörn andstæðinganna í sundur, sendi á Thomas en hann skallaði framhjá í erfiðu færi.

Á 60. mínútu tók að kvarnast úr liði Blika og það átti bara eftir að versna. Elfar Freyr haltraði af velli og Kolbeinn ungi kom inn á og skipt var í fjögurra manna vörn. Kolbeinn hóf leik liðanna í Smáranum í sumar og Stjörnumenn tóku vel á móti honum af því tilefni, svo vel að pilturinn stórefnilegi spilaði ekki um nokkra hríð eftir trakteringar Garðhreppinga. „Þeir hafa saknað Kolbeins!“ hef ég skrifað á þessi velktu blöð mín því að mínútu síðar var hann sparkaður fólskulega niður og Stjörnumaðurinn fékk réttilega gult.

Skömmu síðar varð Andri Rafn að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og Arnþór Ari kom inn á. Í kjölfarið tók Gulli útspark, Thomas slapp einn í gegn en Haraldur varði. Gísli komst svo í gegn en missti boltann of langt frá sér.

Stjarnan hættuleg við bæði mörkin

Nú fór að líða að lokum leiks og punktarnir farnir að bera þess merki að það hafði bætt í rigningu og vind, skriftin orðin ólæsilegri. Og áhyggjur eiginkonunnar af útlendingnum með kaffið jukust í samræmi við það. Pappamálið var enn nánast fullt, enda gat hann lítið drukkið sökum handskjálfta.

Ég sé á sneplunum að Gulli varði tvívegis frábærlega þegar lítið var eftir, á 89. mínútu skoruðu Stjörnumenn aftur á móti næstum því sjálfsmark (og hefðu alveg mátt gera það), í uppbótartíma skaut Gísli framhjá úr þröngu færi og litlu síðar skoraði Stjarnan en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Þaðan sem ég sat í stúkunni hinum megin á vellinum var það augljóst. Og á lokamínútunni varði Gulli aftur stórkostlega. Það var því ljóst að bæði lið reyndu allt hvað þau gátu að skora í lokin – Stjarnan meira að segja báðum megin – en framlenging varð niðurstaðan.

Á sitthvorri löppinni

Nú sá maður að okkar menn voru farnir að haltra ískyggilega mikið út um allan völl. Hendrickx og Viktor virtust spila á sitthvorum fætinum, enda fóru þeir báðir út af. Inn á komu Guðmundur B. Guðjónsson fyrir Viktor, eftir að hann hafði klárað sig í viðureign við Guðjón Baldvinsson, og Arnór Gauti fyrir Belgann knáa sem skömmu áður hafði fengið aukaspyrnu rétt fyrir utan teig eftir ljótt brot Stjörnumanns. Það er því óhætt að segja að lítið hafi verið orðið eftir af vörninni sem hóf leikinn.

Arnór slapp einn í gegn undir lokin en Haraldur varði, Baldur Sigurðsson þrumaði boltanum niður í Sundahöfn af markteig þegar 120 mínútur voru komnar á klukkuna og rétt áður en lokaflaut dómarans gall við varði Gulli enn og aftur meistaralega. Og vítaspyrnukeppni framundan. Mér fannst það reyndar algjör óþarfi,enda er mér málið skylt. Fyrir viku biðu sonur minn og félagar hans í D-liði 5. flokki Breiðabliks lægri hlut fyrir Stjörnumönnum í úrslitum Íslandsmótsins í vítakeppni. Það var alveg komið nóg af slíku.

Allt rennur saman

En nú fer að versna í því. Þegar þarna var komið sögu var eiginlega ekki lengur hægt að punkta neitt hjá sér sökum bleytu. Ég hef þó náð að skrifa að Thomas skoraði úr fyrsta víti okkar manna. Stjörnumenn tóku næstu tvær spyrnur og brást þeim ekki bogalistin. Mér sýnist ég svo hafa skrifað að Oliver hafi næstur skokkað að vítapunktinum; ég les úr blekklessunni að hann hafi virkað mjög stífur. Eftir það rennur allt saman á blöðunum og er ég því ekki til frásagnar um framhaldið. Ég man þó að ég rölti með eiginkonu, syni og vini hans út af vellinum í fylgd hnípinna Blika en finnst eins og ég hafi heyrt fagnaðarlæti Stjörnumegin  í stúkunni.

Svona getur minnið svikið mann og ekki gott þegar það sem punktað er niður lekur saman á þvældum blöðum í slagviðri haustsins.

Örkumla og haltir

Ég sé á punktunum að leikurinn var hin besta skemmtun, spenna frá upphafi til enda, þriggja manna vörnin hélt vel á meðan hennar naut við, vissulega fengu Stjörnumenn færi en okkar menn voru ekki síður hættulegir og spiluðu feykilega vel. Jafntefli var því sanngjörn niðurstaða leiksins eftir glæsta frammistöðu beggja markmanna. Hvað fór fram í þessum viðauka eftir að framlengingu lauk? Hér verð ég að vitna í Þormóð Kolbrúnarskáld í lok Gerplu við Ólaf digra Haraldsson: „Nú kem eg eigi leingur fyrir mig því kvæði.“Hafi Stjörnumenn lyft bikar er sjálfsagt að óska þeim til hamingju með það.

Fyrir höndum er endasprettur Íslandsmótsins. Næsti leikur okkar manna er við Fylki á miðvikudaginn í Árbænum og þá er bara að vona að þeir sem gengu örkumla og haltir af velli í Laugardalnum verði komnir til heilsu á ný!

PMÓ

Umfjallanir netmiðla

Til baka