BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

,,Noregur góður stökkpallur“ segir Blikinn Árni Vilhjálmsson hjá Lilleström

20.05.2016

Blikinn Árni Vilhjálmsson spilar nú sem atvinnumaður með norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström.  Árni er fæddur árið 1994 og er nýorðinn 22 ára. Hann var lykilmaður í Blikaliðinu áður en hann hélt til Noregs. Hann skoraði meðal annars 10 mörk í Pepsí-deildinni árið 2014. Árni á að baki 29 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Útsendari blikar.is hitti Árna í Osló fyrir skömmu og spurði hann spjörunum úr um atvinnumennskuna og lífið í Noregi. Fyrsta spurningin sem Blikinn knái svaraði var hvernig væri að búa í Lilleström. ,,Það er fínt,“ sagði Árni. ,,Lilleström er lítill og huggulegur bær í útjaðri Osló. Það  tekur aðeins um 10 mínútur að ferðast með lest til miðborgar Osló. Íbúar hér eru um 14 þúsund og knattspyrnuliðið er stolt bæjarfélagsins. Mikill áhugi er á knattspyrnu í bænum og á leikdegi snýst bæjarbragurinn allur um leikinn.“

Lilleström er fornfrægt lið í norskri knattspyrnu. Engin klúbbur hefur verið jafn lengi í efstu deild og þar að auki hefur liðið fimm sinnum orðið norskur meistari (síðast 1987). Þar að auki hefur félagið fimm sinnum orðið bikarmeistari (síðast 2007). Margir íslenskir leikmenn hafa spilað með Lilleström þar á meðal Stefán Gíslason, núverandi þjálfari 2. flokks Blika, Finnur Orri Margeirsson, Rúnar Kristinsson og Heiðar Helguson. Þess má einnig geta að núverandi þjálfarar liðsins eru Íslendingarnir Rúnar Kristinsson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

Mjög góð æfingaaðstaða

Útsendari blikar.is getur staðfest að Árni er þekktur í bænum því þegar gengið var um miðbæinn þá voru margir sem snéru sér við til að spjalla við Árna. Þegar sest var niður á kaffihúsi þurfti flestir þjónarnir að ræða aðeins við Blikann knáa um tilvonandi leiki. ,,,Það hafa flestir íbúar Lilleström sterkar skoðanir á gengi liðsins,“ sagði Árni kankvís. ,,Þegar okkur gengur vel vilja allir tala við okkur og við höfum nóg að gera að gefa eiginhandaráritanir og gefa ,,high-five“. En þegar illa gengur þá horfir fólk nánast í gegnum okkur og við fáum illt auga frá ótrúlega mörgum. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á svona mikilli ,,passion“ hjá fólki í Noregi,“ bætir hann við hlæjandi.

Æfinga- og keppnisaðstaða klúbbsins er mjög góð. Leikvangurinn sem tekur rúmlega 14 þúsund mann  er í hjarta bæjarins. Í kringum leikvanginn hafa verið byggðar íbúðir og á jarðhæð eru verslanir. Samt sem áður virðist vanta meiri heildarsvip á vallarumhverfið. Knattspyrnuvöllurinn sjálfur er hins vegar fínn og áhorfendur sitja nálægt vellinum sjálfum. Meðalaðsókn á leiki er í kringum 10 þúsund manns og selja þeir um sex þúsund árskort. Æfingasvæðið er skammt þar frá en þar er meðal annars yfirbyggður gervigrasvöllur svipaður Kórnum.  ,,Við getum því ekki kvartað enda eru fá lið í Noregi með jafn góða æfingaaðstöðu og við,“ segir Árni.

Blikinn spilaði töluvert á síðasta keppnistímabili en á þessu ári hefur Kópavogsbúinn þurft að sætta sig við töluverða bekkjasetu. Hvernig tilfinning er það? ,,Þetta er auðvitað alveg hundfúlt því ég tel mig nógu góðan til að vera í liðinu,“ segir Árni ákveðið enda vita þeir sem þekkja piltinn að hann er mikill keppnismaður. ,,En þjálfararnir ráða þessu og ég verð bara að leggja mig meira fram bæði á æfingum og í leikjum til að sýna að ég eigi heima í byrjunarliðinu. Markahæsti leikmaðurinn okkar verður að öllum líkindum seldur í sumar og það ætti að opna fleiri möguleika fyrir mig að spila.“

Mörg norsk lið hafa lent í fjárhagsvandræðum á undanförnum árum og er Lilleström eitt þeirra. Verður Árni var við þessa erfiðleika. ,,Nei, í raun og veru ekki.  Þetta er eitthvað sem við lesum bara um í fjölmiðlum. Við leikmennirnir fáum til dæmis alltaf borgað á réttum tíma og það er allt til alls hjá klúbbnum. Í tíð fyrri stjórnar lenti klúbburinn í örðugleikum en núverandi stjórn hefur smám saman verið að vinna sig út úr þeim erfiðleikum. En því er ekki að leyna að það er aðhald í öllu en það er allt í lagi,“ segir Árni.

Norska deildin sterkari en sú íslenska

Norska deildin er skör hærra en íslenska deildin segir Blikinn. ,,Hér eru fleiri betri leikmenn og líkamlega eru menn betur á sig komnir. Samt sem áður gætu bestu íslensku liðin eins og Blikar, FH og KR sjálfsagt plummað sig ágætlega í deildinni þrátt fyrir að þau myndu varla vera í efri hluta deildarinnar.“

Árni segist hafa aðlagast lífinu í Noregi nokkuð vel. Norskan sé öll að koma og síðan muni heilmikið um að kærastan hans, Ástrós Traustadóttir, hefur dvalið með honum undanfarna mánuði. Fyrir áhugafólk um ættfræði þá er gaman að geta þess að pabbi Ástrósar er Trausti Ómarsson sem gerði garðinn frægan með Blikaliðinu á síðustu öld. Hægt er að lesa um feril Trausta hér.

 ,,Í fyrra var ég töluvert með Finni Orra en eins og Blikar muna spilaði hann með liðinu í fyrra. Ég lenti í leiðinlegum meiðslum i fyrra og þá var gott að geta leitað aðstoðar hjá jafn traustum félaga og honum. Það er sjónarsviptir af Finni Orra en svona er knattspyrnan stundum.“

Árni segist þurfa að vinna betur í sínum málum. ,,Ég þarf að ná meiri stöðugleika þegar ég spila. Einnig þarf ég að styrkja mig betur líkamlega enda er norski fótboltinn mun meira líkamlega krefjandi en sá íslenski. Ég er bjartsýnn á framhaldið hjá okkur. Við erum núna um miðja deild en ég hef fulla trú á því að við endum ofar. Við duttum því miður út úr bikarkeppninni en við verðum þá bara að einbeita okkur að deildinni.“

Lilleströmliðið æfir yfirleitt á hverjum degi. Æfingar hefjast kl.10.00 og svo borða leikmenn saman hádegismat á leikvanginum. Eftir hádegi eru stundum aukaæfingar eða menn fara í sjúkraþjálfun. ,,Þetta er auðvitað draumalíf fyrir knattspyrnumann,“ segir Árni. ,,Maður fær að gera það sem manni finnst skemmtilegast í heiminum þ.e. að spila knattspyrnu.“

Missa ekki sjónar af drauminum sínum

Þegar við biðjum Árna að bera saman aðstöðuna og knattspyrnuna í Noregi og Íslandi hugsar hann sig aðeins um en svarar svo. ,,Maður sér þegar maður kemur hingað út hve aðstaðan hjá Blikum er ótrúlega góð. Þótt maður hafi ekki yfir neinu að kvarta hér hjá Lilleström þá er klefaaðstaðan á Kópavogsvelli betri.  Æfingaaðstæður eru svipaðar en Lilleström hefur það fram yfir Blikana að engin hlaupabraut er í kringum völlinn og áhorfendur því mun nær leiknum sjálfum. Það munar töluvert um það og ég þrífst á því að vera í nánum tengslum við stuðningsmennina. Maður fær svo sannarlega að heyra það úr stúkunni ef maður klúðrar til dæmis sendingu, hvað þá marktækifæri! En á móti kemur fær maður frábæra svörun ef maður skorar mark „

Þegar Árni ber beðin um ráð til ungra Blika sem vilja ná langt segir hann..Hafið trú á ykkur! Það koma alltaf hæðir og lægðir í boltanum en menn mega aldrei missa sjónar af draumnum sínum.“

Árni segist fylgjast vel með íslenska boltanum og þá sérstaklega Blikaliðinu. ,,Þarna eru vinir mínir og ég er næstum því jafn spenntur að bíða eftir Blikaleikjunum eins og Lilleströmleikjunum. Ég horfði til dæmis á Fylkisleikinn beint og var mjög ánægður að við skyldum landa þar þremur stigum. Þrátt fyrir að Blikaliðinu hafi ekki gengið neitt sérstaklega á undirbúningstímabilinu þá hef ég fulla trú á því að þetta verði gott sumar hjá okkur Blikum. Við munum toppa á réttum tíma og berjast um dolluna í haust.“

Eins og flestir Íslendingar fylgist Árni spenntur með EM-undirbúningi íslenska landsliðsins. ,,Ég gladdist gríðarlega  þegar ljóst var að vinur minn Sverrir Ingi fékk náð fyrir augum landsliðsþjálfarana. Hann á þetta svo sannarlega skilið enda frábær leikmaður og mikill leiðtogi á velli. Á sama tíma skil ég ekki af hverju Gulli var ekki valinn í hópinn. Í mínum huga er Gulli amk næst besti markvörður Íslands. Það  þýðir hins vegar ekkert að velta sér upp úr þessu. Það er þó lán í óláni að Gulli getur einbeitt sér að Blikaliðinu enda er hann óumdeildur leiðtogi liðsins og heldur uppi klefanum. Ég er fullviss að Gulli hristir þessi vonbrigði af sér enda hefur hann glímt við stærri þrautir en þessa!“

Þegar Árni er spurður hvar hann sjái sig eftir 3-5 ár hugsar hann sig vel um. ,,Ég á 1 ½ ár eftir af samningi mínum hér hjá Lilleström. Ég þarf því fyrst og fremst að einbeita mér að því að bæta mig sem leikmaður hér í Noregi og tryggja mér fast sæti í liðinu. Þá get ég farið að hugsa næstu skref. En auðvitað á maður sér þann draum að spila í stærri deild. Ég gæti alveg hugsað mér að spila í Hollandi eða jafnvel á Ítalíu ef allt gengur upp! Maður verður að þora að hugsa stórt og stefna hærra. Noregur hefur sýnt sig sem góður stökkpallur fyrir íslenska leikmenn en þetta stendur og fellur fyrst og fremst með sjálfum mér“ segir Árni Vilhjálmsson Bliki og núverandi leikmaður Lilleström í Noregi.

Styttri útgáfa greinarinnar birtist á sama tíma í Kópavogsblaðinu.

-AP

Til baka