BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Naumt tap í fyrsta leik ársins

14.01.2018

Það var óvenju vel mætt af áhorfendum í Kórnum þegar Breiðablik lék sinn fyrsta leik 2018 á laugardaginn. Andstæðingarnir voru góðkunningjar okkar og samherjar í Ungmennasambandi Kjalarnesþings, Stjarnan úr Garðabæ. Þetta var fyrsti leikur liðanna í fotbolti.net mótinu þetta árið sem er kannski ekki sögufrægasta knattspyrnumótið sem haldið er. Það er hinsvegar kærkomið undirbúningsverkefni fyrir átök sumarsins og leikurinn bar þess merki. Þetta var stöðubarátta lengst af og liðin skiptust á að sækja í fyrri hálfleik. Í þeim síðari sótti Stjarnan öllu meira og eina mark leiksins skoruðu þeir eftir markmannsmistök sem eiga ekki að sjást - en gott að þau koma þá í leik eins og þessum. Í síðari hálfleik skiptust liðin á að sækja og Tokic hefði getað jafnað leikinn korteri fyrir leikslok en frumleg vippa hans endaði í slánni og þar við sat. Ágúst þjálfari notaði leikinn vel til að leyfa ungum og ferskum fætum að spreyta sig og það var gaman að sjá leikmenn eins og Brynjólf Willumsson nýta tækifærið og sýna frumkvæði og áræðni, nokkuð sem skorti töluvert upp á hjá okkur á síðasta ári. Bestir hjá Blikum voru Andri Rafn Yeoman og Jonathan Hendrickx og það er gríðarlegur fengur af liðsstyrk hans.  Sumir eiga reyndar í erfiðleikum með framburðinn á nafni Belgans knáa en Guðmundur Oddsson, sagnfræðikennarinn mikli sem er lærimeistari margra Blika er með lausnina. Hann kallar Jonathan ávallt "Jimi Hendrix", enda af 68 kynslóðinni.  

Það voru töluverðar breytingar á liðunum frá því við sigruðum Stjörnuna í úrslitum í "BOSE" mótinu fyrir mánuði siðan 2 - 0.  Leikir í þvi móti eru ekki skráðir og í síðustu 4 leikjum gegn Garðbæingum í opinberum mótum höfum við tapað 3 en gert 1 jafntefli. Þetta er lið sem við höfum haft á góð tök undanfarin ár og þessu þarf að kippa í liðinn. Stjarnan kom með Guðjón Baldvinsson, Jóhann Laxdal til leiks ásamt fleirum og munar um minna. Í okkar lið vantaði bæði Gísla Eyjólfsson, Arnþór Ara og Aron Bjarnason þannig að flæðið á miðjunni var ekki alveg eins og við erum vanir að sjá. Það voru einmitt þeir sem gerðu mörkin í sigri okkar gegn Stjörnunni í BOSE mótinu.

Þeir verða vonandi mættir í slaginn í næsta leik þegar við mætum ÍBV á laugardaginn 20. janúar en sá leikur verður á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Við ætlum okkur sigur þar. 

Nánar um leikinn hér. 

Hákon Gunnarsson  

Til baka