BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Myndi bara eyða tímanum í Play-station eða einhverja svoleiðis vitleysu

18.04.2012

Knattspyrnumaðurinn snjalli úr Kópavogi, Steinþór Freyr Þorsteinsson, spilar nú með norska úrvalsdeildarliðinu Sandnes Ulf. Liðið er nýliði í efstu deildinni og eins og við mátti búast hefur byrjunina verið nokkuð erfið. Þegar þessar línur eru ritaðar er liðið í næst neðsta sætinu í deildinni eftir tvö jafntefli og tvö  töp.   En Blikinn er ekki svartsýnn á framhaldið ; ,,Við höfum verið að spila ágætlega en úrslitin hafa ekki alveg dottið með okkur. Þetta hlýtur að fara að koma,“ segir Steinþór hress að vanda.

Sandnes Ulf var stofnað árið 1911 en þetta er  samt í fyrsta skipti sem liðið spilar í efstu deild í Noregi. Blómatími félagsins var í kringum 1940 og svo í byrjun sjötta áratugarins. Þá voru Úlfarnir nálægt því að komast upp í efstu deild. En síðan hófst erfitt tímabil í sögu klúbbsins og spilaði liðið oftast í 3. deild.  Árangur félagsins árið 2011 var ævintýralegur. Liðið var í fallhættu framanaf tímabili  en tók sig síðan á og vann  12 af síðustu 13 leikjum í deildinni. Í síðasta leik tímabilsins lögðu þeir Löv-Ham 6:0 og tryggðu sér sæti meðal þeirra bestu.

Sandnes er bær rétt hjá Stavanger.  Þar búa rétt rúmlega 70 þúsund manns og er helsti atvinnuvegur í bænum ýmis konar iðnaður. Bærinn er sá sem vex einn örast af öllum þéttbýliskjörnum í Noregi og má að hluta til þakka það olíuiðnaðinum. Bærinn er með nokkuð öflugt íþróttalíf þótt knattspyrnan sé sterkust.

Steinþór samdi við liðið í mars 2011 eftir að gamla liðið hans, Örgtyte í Svíþjóð, lenti í verulegum fjárhagsvandræðum. Þess má geta að markahæsti leikmaður Íslandsmótsins árið 2010, Gilles Ondo, kom líka til liðs við Ulf Sandnes á síðasta ári eftir að Stabæk þurfti að skera niður í leikmannahópi sínum. Að sögn Blikans snaggaralega líður honum vel hjá félaginu. ,,Liðið spilar hálf-gerðan Stjörnubolta. Mikið tempó og hraði og fæ ég nokkuð mikið sjálfdæmi á vellinum. Við pressum yfirleitt framarlega en erum fljótir að falla í vörn. Síðan reynum við að beita skyndisóknum. Þetta gekk vel í 1. deildinni í fyrra en hefur ekki alveg gengið upp í ár.“

Steinþór býr ásamt konu sinni Sunnu Friðþjófsdóttur grunnskólakennara og syni þeirra Emil Atla, þriggja ára, á ágætum stað í bænum. Æfingar eru á morgnana og er þjálfarinn af gamla skólanum; ,,við hlaupum mikið og liðið er í góðu formi.  Það hentar mér ágætlega enda kann ég vel við mikla keyrslu,“. Steinþór lauk B.S. prófi í verkfræði áður en hann hélt í atvinnumennsku og var meira segja byrjaður á M.S. námi. Það er nú í biðstöðu enda erfitt að halda slíku áfram meðfram fullri atvinnumennsku.

En þeir sem þekkja knattspyrnumanninn knáa vita að hann er mjög virkur einstaklingur.  Það kemur því ekki á óvart að Steinþór vinnur  samhliða knattspyrnuiðkun sinni sem verkefnastjóri hjá meðalstóru iðnaðarfyriræki sem þjónustar  olíuiðnaðinn. ,,Ég vildi reyna að fá vinnu þar sem verkfræðimenntun mín nýttist. Ég talaði því við umboðsmann minn um möguleika á því að fá að vinna með knattspyrnunni. Hann hélt að ég væri galinn þegar ég  bar þetta upp enda eru ekki margir atvinnumenn sem biðja um slíkt,“ sagði Steinþór kíminn á svip.

En forráðamenn Ulf Sandnes tóku vel í þessar hugmyndir og redduðu Kópavogsbúanum áhugaverðri vinnu. Hann er með sveigjanlegan vinnutíma og er að skila  í kringum 60-70% vinnu á viku. ,,Ég myndi bara vera að eyða tímanum í Play-station eða einhverja slíka vitleysu. Alveg eins gott að fá góða vinnureynslu á ferilskrána mína,“ sagði Steinþór Freyr Þorsteinsson hlæjandi  í samtali við Blikar.is

Andrés Pétursson

Til baka