BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Módel ´94 kláruðu leikinn!

16.09.2016

Blikar sýndu það og sönnuðu með 0:3 sigri á Valsmönnum að á góðum degi standast fá lið okkur snúning. Árni Vilhjálmsson fór á kostum, skoraði tvö flott mörk og átti þar að auki stoðsendingu á félaga sinn og jafnaldra Gísla Eyjólfsson sem setti eitt mark með laglegri kollspyrnu. Til viðbótar fleygði hann einum rauðklæddum varnarmanni út af þegar sá reyndi að stöðva Árna á lúalegan hátt í skyndisókn okkar Blika. Það má því segja að árgangur 1994 hafi klárað leikinn í gær!

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru frábærar í gær. Hægur andvari, nokkuð hafði rignt fyrr um daginn þannig að rennisléttur gervigrasvöllurinn var hæfilega rakur fyrir nokkrar góðar skriðtæklingar. Og það kom okkur Blikum til góða síðar í leiknum. Aðstaðan hjá KFUM-drengjunum er frábær og er synd að ekki fleiri skuli mæta á völlinn hjá klúbbnum. Áhorfendur í gær voru ekki nema rúmlega 800 og meirihluti þeirra á bandi okkar Blika. Samt hafa Valsmenn flogið með himinskautum í leikjum sínum að undanförnu. En við skulum vona þegar Brynjar og félagar hafa byggt upp í topp á ,,neyðarbrautinni“ á Reykjavíkurflugvellinum þá muni áhorfendum fjölga 

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti í gær og sóttu stíft fyrstu mínúturnar. Greinilegt að Blikadraugurinn herjar sterkt á þá rauðklæddu og þeir trúa því statt og stöðugt að þeir geti ekki unnið okkur í knattspyrnuleik. Það er gott mál! En við náðum ekki að koma tuðrunni í netið þrátt fyrir nokkur þokkaleg færi. Smám sama hökti Valsvélin í gang og fóru þeir að ógna okkur með þeim töktum sem hafa hrifið knattspyrnuáhugamenn í undanförnum leikjum. Vörnin okkar var frekar ólík sjálfri sér og var eitthvað hikandi í aðgerðum sínum. En sóknarleikur okkar var hins vegar fyrsta flokks og á 37. mínútu átti Andri Rafn góða háa sendingu á Árna Vill inn fyrir Valsvörnina. Senterinn okkar sýndi heimsklassatilburði þegar hann tók knöttinn á bringuna og skaut svo bylmingsskoti sem markvörður heimamanna réð ekki við.  Gömlu meistaraflokkslegendin Vignir Baldursson, Helgi ,,Basli“ Helgason og Hákon Gunnarsson í stúkunni áttu vart orð til að lýsa hrifningu sinni á þessum tilþrifum!

En þá gerðist næstum því það sama og FH leiknum í síðustu umferð. Eitthvað óöryggi hljóp í liðið okkar og hættum við að þora að halda boltanum og spila rólega frá vörninni.  Valsmenn gengu á lagið og pressuðu stíft og virkuðu varnar- og miðjumenn okkar óskaplega taugaslappir. ,,Lady luck“ gekk hins vegar í lið með okkur og allt í einu var Árni Vill kominn í blússandi sókn. Varnamaður Vals greip þá til ráðs að brjóta fruntalega á okkar mann og var auðvitað umsvifalaust rekinn í bað. Elfar Helgason rifjaði upp nokkra velvalda frasa úr slagsmálum í frímínútum í Kársnesskóla og fékk að líta gula spjaldið hjá annars ágætum dómara leiksins. Þótt það sé gott að verja samherja sína þá var þetta óþarfa æsingur hjá miðverðinum okkar enda búið að sýna heimadrengnum rauða litinn.

Valsmenn komu af krafti inn í síðari hálfleikinn og greinilegt að Óli Jóh ætlaði að fá öll stigin í leiknum þrátt fyrir að vera manni færri. Heimamenn spiluðu með þriggja manna varnarlínu og var þeim refsað grimmilega strax á 52 mínútu. Eftir hraða sókn okkar upp hægri kantinn sendi rakettan Alfons Sampsted góða sendingu fyrir Valsmarkið. Þar reis Árni Vill hæst og nikkaði knettinum inn í miðjan markteiginn. Þar var Gísli einn og óvaldaður og stýrði knettinum listilega í markið.  Segja má að þarna hafi úrslitin ráðist í leiknum. En heimamenn lögðu samt ekki árar í bát og héldum áfram að sækja. Eins og áður sagði var varnarlínan okkar eitthvað óörugg í gær og gerðu nokkrum sinnum sjaldséð mistök. En sem betur fer sáu markstöngin, marksláin og Gulli til þess að við fengum ekki mark á okkur í leiknum. Það skal tekið fram að Gulli var mjög góður í leiknum og varði í nokkur skipti frábærlega!

Blússandi sóknarleikur okkar skilaði síðan þriðja markinu á 66. mínútu. Daníel Bamberg fékk boltann á miðjunni renndi snilldarsendingu inn á Árna sem kláraði verkið með ekta sentersbrag. Þar með rann leikurinn á vissan hátt út í sandinn. Við höfðum ekki greddu til að skora fleiri mörk þrátt fyrir enn einn ’94 drengurinn Höskuldur Gunnlaugsson kæmi inn á og sýndi góða takta í lokin.

Við getum verið mjög sátt með þessi úrslit. Þetta var stærsti sigurinn okkar í sumar og við sýndum loksins blússandi sóknarbolta. Vörnin átti reyndar ekki sinn besta dag en það kom ekki að sök. Við erum komin í ágæta stöðu varðandi Evrópusætið en það má ekki slaka á klónni. Við mætum særðum Eyjamönnum á mánudag á Kópavogsvelli á þeim heillandi tíma 16.45! Stuðningsmenn Blika eiga vonandi einhverja sumarfrísdaga inni þannig að þeir geti mætt til að styðja liðið til sigurs.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Umfjallanir annarra netmiðla

Til baka