BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mikilvægt mark en magurt stig!

28.09.2025 image

Blikar og FH skildu jöfn 1:1 í efri hluta Bestu deildar á Kaplakrikavelli í dag. Blikaliðið náði sér ekki á strik í þessum leik frekar en flestum leikjum undanfarna tvo mánuði. Það var aðeins í lok leiksins sem liðið hrökk í gang og Guðmundur Magnússon náði að jafna leikinn á 88 mínútu með flottu skallamarki. Þetta var fyrsta mark Guðmundar fyrir Blikaliðið. Það var mikilvægt fyrir sálartetrið að jafna leikinn en því miður gerir þetta stig lítið fyrir okkur í baráttu um Evrópusæti á næsta keppnistímabili.

Það hefur verið eitthvað slen yfir Blikaliðinu undanfarin misseri og þessi þoka hélt áfram í þessum leik. Strax á upphafsmínútunum svaf vörnin okkar illa á verðinum tvisvar sinnum og getum við þakkað lukkudísunum að hafa ekki þá lent undir í leiknum. Við áttum þokkaleg færi í fyrri hálfleik en náðum ekki að nýta þau m.a. góðan skalla frá Damir sem markvörður FH varði mjög vel.

En því miður varð slakur varnarleikur í síðari hálfleik þess valdandi að heimapiltar náðu forystunni um miðjan seinni hálfleikinn. Sem betur heppnuðust innáskiptingar Blikaliðsins vel undir lok leiksins. Anton Logi kom inn á sínum fyrsta leik í meira en tvo mánuði og sýndi strax hve góður leikmaður hann er. Einnig var ánægjulegt að sjá Þorleif Úlfarsson koma inn á en hann hefur glímt við erfið meiðsli í marga mánuði. Svo má ekki gleyma þætti Guðmundar Magnússonar. Hann átti fína innkomu, vann nokkra skallabolta og skoraði glæsilegt mark eftir góða fyrirgjöf Kristins Jónssonar.

Það var mikilvægt andlega fyrir liðið að jafna undir lok leiksins.

Næsti leikur er nefnilega gegn svissneska liðinu Lausanna á útivelli á fimmtudaginn. Þar gefst Blikaliðinu tækifæri að hrista af sér slyðruorðið og spila af fullri getu. Það býr miklu meira í liðinu okkar en það hefur náð að sýna að undanförnu. Smá blanda af leikgleði, baráttu og einhverri upphristingu í leikskipulagi gæti snúið genginu við. Leikmenn og stuðningsmenn eiga það skilið að fá Blikasigur í næstu leikjum!

-AP

Til baka