BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Meistarar eftir kaflaskiptan leik

04.02.2015
Blikaliðið stóð uppi sem sigurvegari á fotbolti.net mótinu í meistaraflokki karla eftir 2:1 sigur á Íslandsmeisturum Stjörnunnar. Leikurinn var bráðfjörugur en nokkuð kaflaskiptur. Blikar voru mun betri í fyrri hálfleik og náðu forystu með góðu skallamarki Arnþórs Ara Atlasonar eftir góða fyrirgjöf Guðmundar Friðrikssonar. Stjarnan var betri í síðari hálfleik og náði Veigar Páll að jafna fyrir þá bláklæddu fljótlega eftir leikhlé. En Arnór Aðalsteinsson tryggði okkur sigur úr vítaspyrnu (annarri tilraun!)  eftir að varnarmenn Stjörnunnar höfðu brotið á Kára Ársælssyni innan vítateigs.
 
Blikaliðið spilaði flottan bolta í fyrri hálfleik. Elfar Freyr og Damír voru eins og klettar í miðju varnarinnar, Oliver stjórnaði miðjuspilinu eins og herforingi og Höskuldur og Davíð voru ógnandi á köntunum. Síðan var Gunnleifur betri en engin í markinu og var í raun besti maður Blikaliðsins þegar á heildina er litið. Með smá heppni hefðum við getað verið með meira en eins marks forskot í hálfleik. Davíð átti meðal annars skot í marksúluna beint úr aukaspyrnu og markvörður Stjörnunnar varði í tvígang vel frá Höskuldi og Ellerti.
 
Við gáfum hins vegar töluvert eftir í síðari hálfleik. Stjörnumenn fengu mun meiri tíma til að athafna sig og við dekkuðum ekki nægjanleg vel. Íslandsmeistararnir gengu á lagið og sóttu stíft á markið í hálfleiknum. Við náðum lítið að spila boltanum og vorum mikið í því að kýla boltann fram í fálmkenndri varnarvinnu. En sem betur var Gunnleifur í hörkuformi og varði flest það sem á markið kom. Blikaliðið náði að sigla titlinum í höfn og fagnaði ungt Blikaliðið vel í leikslok.
 
Arnar og Kristófer þjálfarar geta verið sáttir með þennan fyrsta titil liðsins undir þeirra stjórn. Blikaliðið sýndi frábæran leik í fyrri hálfleik og ungir leikmenn liðsins voru mun betri en Íslandsmeistarar Stjörnunnar. Við eigum leikmenn eins og Kristinn Jónsson, Guðjón Pétur, Olgeir, Stefán Gíslason, Pál Olgeir, Elvar Pál, Elfar Aðalsteinsson, Gunnlaug Hlyn, Ósvald Jarl Traustason og fleiri inni þannig að baráttan um sæti í liðinu verður mjög hörð á komandi tímabili! Þetta kallar maður lúxusvandamál!
 
Sjá mörkin á SportTV
 
Leikskýrsla KSÍ
 
Næsta verkefni meistaraflokksins er Lengjubikarinn. Við hefjum leik annan laugardag (14. febrúar) með því að spila við Víking Ó í Fífunni kl.12.00.  Nánar er að hægt að sjá leikina hér; 
 
-AP

Til baka