Meistaradeild UEFA 2025/26: Breiðablik – FK Egnatia 15. júlí kl.19:00!
13.07.2025
Seinni leikur Blika í einvíginu við FK Egnatia frá Albaníu í undankeppni Meistaradeildar UEFA 2025/26 verður á Kópavogsvelli á þriðjudaginn kl.19.00.
Fyrri leiknum í Albaníu lauk með eins marks tapi:


„Blikar urðu að sætta sig við það súra epli að tapa 0:1 fyrir Egnatia frá Albaníu í fyrri leik liðanna í undankeppni Evrópukeppni meistaraliða í Albaníu í gær. Tapið var nokkuð svekkjandi því sigurmark Albanana kom í uppbótartíma leiksins. En þrátt fyrir úrslitin eru Blikar í dauðafæri að komast áfram því heimaleikurinn er eftir og þar spilum við helmingi lægra hitastig en var í útileiknum og þar að auki bætist gervigrasið við útreikninginn.“ skrifar tíðindamaður blikar.is í umfjöllun um leikinn.
Flautað verður til leiks í seinni leiknum á Kópavogsvelli á þriðjudaginn kl.19:00! Leikurinn verður sýndur í beinni á Sýn Sport - útsending hefst kl.18:50!
Almenn- og VIP miðasala á leikinn er á Stubb
Byrjunarlið Breiðabliks í fyrri leiknum gegn FK Egnatia á Arena Egnatia í Albaníu.
Aftari röð f.v.: Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði, Ásgeir Helgi Orrason, Tobias Thomsen, Anton Logi Lúðvíksson, Viktor Örn Margeirsson og Anton Ari Einarsson. Fremri röð f.v.: Valgeir Valgeirsson, Viktor Karl Einarsson, Kristinn Steindórsson, Kristinn Jónsson og Aron Bjarnason.
Margir uppaldir
Sjö uppaldir Blikar byrjuðu leikinn út í Albaníu: Höskuldur Gunlaugsson fyrirliði, Ásgeir Helgi Orrason, Anton Logi Lúðvíksson, Viktor Örn Margeirsson, Viktor Karl Margeirsson, Kristinn Steindórsson og Kristinn Jónsson en þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur hans síðan hann meiddist í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í lok október í fyrra. Alls níu uppaldir Blikar tóku þátt í leiknum því leikmennirnir Ágúst Orri Þorsteinsson, sem er uppalinn hjá félaginu, kom inná fyrir Kristinn Steindósrsson á 63´og okkar maður Gabríel Snær Hallsson kom inná fyrir Anton Loga Lúðvíksson á 85'.
Evrópuleikir núverandi leikmannahóps með Breiðabliki.
Þrír leikmenn í núverandi leikmannahópi tóku þátt í fyrsta Evrópueinvígi karlaliðs Breiðabliks fyrir nákvæmlega 15 árum síðan í leik gegn skoska liðinu Motherwell á Fir Park 15.júlí árið 2010 (nánar). Þetta eru leikmennirnir Andri Rafn Yeoman, Kristinn Steindórsson og Kristinn Jónsson. Höskuldur Gunnlaugsson hefur verið duglegar að skora mörk í Evrópuleikjum, en markahrókurinn Kristinn Steindórsson var fyrstur núverandi leikmanna að skora mark fyrir karlalið Breiðabliks í Evrópukeppni þegar hann skoraði seinna markið í 2:0 sigri á Rosenborg (nánar) í undankeppni Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli 20. júlí 2011.
Tíðindamaður blikar.is hafði samband við Halldór Árnason þjálfara og spurði hann út í standið á hópnum og hvaða væntingar við stuðningsmenn getum gert okkur um að næsta einvígi verði í Meistaradeildinni gegn Lech Poznan. Dóri hafði þetta að segja:
"Hópurinn er bara á þokkalegum stað. Það er bara svipuð staða á liðinu meiðslalega séð og hefur verið í sumar. Lykilmenn frá, meiddir eða tæpir. En við settum saman virkilega öflugan og spennandi hóp fyrir tímabilið og það verða 11 frábærir leikmenn sem byrja leikinn gegn Egnatia á þriðjudaginn.
Það var virkilega gaman að sjá níu uppalda leikmenn spila úti í Albaníu og mega Blikar vera stoltir af þessum frábæru leikmönnum sem í þessum leik eru fæddir á árunum 1990-2007. Af þeim 10 útileikmönnum sem hófu leik í Albaníu eru 7 uppaldir hjá félaginu sem er auðvitað einsdæmi í Evrópukeppni. Í hinum tveimur íslensku liðunum sem léku í Evrópukeppninni í vikunni er ekki einn uppalinn leikmaður sem byrjaði inná, í hvorugu liðinu. Og þá er ég ekki á nokkurn hátt að setja útá þau frábæru lið, heldur eingöngu minna á að það eru algjör forréttindi að halda með Breiðabliki.
Við vorum að mörgu leyti ánægðir með leikinn í Albaníu og fannst við eiga góða möguleika á að vinna leikinn. En staðan er þrátt fyrir það ágæt og við erum mjög bjartsýnir á að vinna þá á heimavelli. Og setjum markið auðvitað ekki lægra en það.
Við gerum ráð fyrir öðruvísi leik en úti. Þeir koma vafalítið í 5 manna vörn og reyna að hægja á leiknum. Við þurfum að spila vel, vera aggressívir en um leið þolinmóðir. Við treystum á fulla stúku og frábæran stuðning á þriðjudaginn, og saman ætlum við ekki að eiga frábæra frammistöðu."
Evrópusaga Breiðabliks
Karlalið Breiðabliks lék sinn fyrsta Evrópuleik 15. júlí 2010. Síðan þá hefur Breiðablik tekið þátt í Evrópukeppnum í 11 ár af 15 mögulegum - þar af 7 síðustu ár í röð. Leikurinn við FK Egnatia á Kópavogsvelli á þriðjudaginn verður 49. Evrópuleikur karlaliðs Breiðabliks frá upphafi - sem var einmitt 15. júlí 2010 fyrir 15 árum síðan.
Þátttaka Breiðabliks í Evrópumótum til þessa:
- Meistaradeild: 2025, 2023, 2011.
- Evrópudeild: 2023, 2020, 2019, 2016, 2013, 2010.
- Sambandsdeild: 2024, 2023, 2022, 2021.
Andstæðingar Blika í Evrópukeppnum frá upphafi:
2025 – FK Egnatia.
2024 - Drita - Tikvesh.
2023 - KAA Gent, Zorya Luhansk, Maccabi Tel Aviv, FC Struga - Zrinjski Mostar, FC Copenhagen, Shamrock Rovers, Buducnost Podgorica, Tre Penne.
2022 - Istanbul Basaksehir, Buducnost Podgorica, UE Santa Coloma.
2021 - Aberdeen, Austria Wien, Racing Union.
2020 - Rosenborg.
2019 - Vaduz.
2016 - Jelgava.
2013 - Aktobe, Sturm Graz, FC Santa Coloma.
2011 - Rosenborg.
2010 - Motherwell.
Samtals 48 leikir, 18 sigrar, 5 jafnteli og 25 töp. Stigaárangur 43%
Um FK Egnatia
FK Egnatia Rrogozhinë er knattspyrnulið frá Albaníu sem hefur verið að gera sig gildandi á alþjóðavettvangi undanfarið. Hér eru nokkur lykilatriði um félagið. Uppruni og staðsetning: Liðið er staðsett í Rrogozhinë, litlum bæ í vesturhluta Albaníu. Félagið heitir formlega KF Egnatia og spilar heimaleiki sína á Stadiumi Egnatia, sem tekur um 4.000 áhorfendur. Frammistaða og árangur: Egnatia hefur verið að styrkja stöðu sína í efstu deild Albaníu, Kategoria Superiore. Á tímabilinu 2024–2025 tryggði liðið sér meistaratitilinn í úrslitaleik og komst þar með í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið hefur tekið þátt í Evrópukeppnum áður, m.a. gegn Reykjavíkur Víkingum árið 2024. Liðsbreytingar og þróun: Egnatia hefur endurnýjað leikmannahópinn verulega og virðist vera að byggja upp metnaðarfullt lið með alþjóðleg markmið. Mynd: Byrjunarlið FK Egnatia í fyrri leiknum.
Yfirlit Evrópuleikja FK Egnatia fyrir leikina gegn Breiðabliki:
Dagskrá
Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:00 á þriðjudaginn. Leikurinn verður sýndur í beinni á Sýn Sport. Útsending hefst kl.18:50!
Almenn- og VIP miðasala á leikinn er á Stubb
Dómarar eru frá Skotlandi. Aðaldómari er David Dickinson . Aðstoðardómarar eru: Francis Connor og Jonathan Bell . Fjórði dómari er Lloyd Wilson . Myndbandsherbergi: Kevin Clancy og Greg Aitken
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ