BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Markaþurrð hjá Blikum

30.01.2016

Blikar lutu í gras 0:1 gegn Íslandsmeisturum FH í leik um 5. sætið á fotbolti.net mótinu í Fífunni í dag. Leikurinn var reyndar í járnum allan tímann, leikmenn tókust vel á og stundum var harkan jafnvel full mikil.  En munurinn var sá að FH-ingar voru beittari fram á við og mark Lennon fljótlega eftir leikhlé skildi liðin að.

Okkar drengir byrjuðu reyndar betur og voru mun sterkari fyrstu 10-15 mínúturnar. Meðal annars átti Höskuldur dauðafæri sem hann hefði átt að nýta betur. Fljótlega náðu þó gestirnir völdum á miðjunni og stjórnuðu leiknum að mestu leyti fram að leikhléi. Samt sem áður sköpuðu þeir sér fá færi enda áttu Elfar Freyr og Damir í fullu tré við sóknarmennina. Fyrir aftan þá stóð Hlynur Örn Hlöðversson í markinu og stóð sig vel.

Eins og stundum áður í vetur voru menn ekki mættir almennilega eftir tepásuna. Þeir hvítklæddu sóttu hratt og náðu að troða knettinum í netið strax á annari mínútu hálfleiksins. Nokkur harka hljóp í leikinn eftir þetta og beittu gestirnir oft lúalegum brögðum til að stöðva okkar drengi. Dómarinn var hins vegar mjög línur og fór ekki að spjalda FH-inga fyrr en undir lok leiksins. Elfar Freyr tók því eina af sínum frægu groddalegu tæklingum og uppskar verðskuldað gult spjald. Í kjölfarið missti afmælisbarnið Guðmann Þórisson kúlið og ætlaði að hjóla í Elvar. Þá var fallegt að sjá prúðmennið Dúmbía róa Guðmann niður og minna hann á náungakærleikann. Reyndar var Guðmann heppinn að vera ekki kominn með rautt eftir að hafa barið Glenn niður í fyrri hálfleik. En dómarinn vildi greinilega gefa Guðmanni afmælisgjöf og sleppti honum í það skiptið. En spjaldið fór upp á hafsentinn bráðláta í  kjölfarið á þessu látum.

Blikaliðið saknar greinilega Olivers mikið en hann á við nárameiðsli að stríða. Einnig vantaði Arnór sem einnig á við meiðsli að stríða. Strákarnir okkar tala ekki nógu mikið saman á vellinum og sá maður strax mun þegar ,,nestorinn" Kári Ársælsson kom inn á. Þá strax varð meiri talandi inn á vellinum. Það er ekki nóg að vera bara góður í fótbolta á vellinum, menn verða að kalla hvorn annan upp á meðan á leiknum stendur.

Glenn var áberandi í fyrri háfleik og réð Dúmbía litið við hann líkamlega. En hann fékk ekki úr mörgum sendingum að moða og því kom ekkert mark. Óskar Jónsson kom inn á síðari hálfleik og stóð sig vel. Gríðarlega klókur leikmaður þar á ferðinni! Einnig var búið að minnast á góða frammistöðu Hlyns í markinuu sem m.a. varði frábærlega frá sóknarmanni FH um miðjan seinni hálfleikinn í opnu færi.

Næsti leikur Blika er í Lengjubikarnum gegn Fylki laugardaginn 13. febrúar í Fífunni kl.11.15.​

-AP

Til baka