BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Markaþurrð á útivelli

08.07.2018

Annan leikinn í röð tókst okkar piltum ekki að skora og þurfum við að sætta okkur við markalaust jafntefli gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir markaleysið vantaði ekki færin í leikinn. Markverðirnir tveir áttu stórleik og þar að auki mistókst okkur að skora út víti á lokamínútunum leiksins. En það jákvæða við leikinn er að við héldum hreinu annan leikinn í röð og vorum að ógna marki andstæðinganna betur en í KA-leiknum. Blikaliðið hefur einungis fengið á sig 6 deildarmörk og er það langfæst mörk af öllum liðunum í deildinni. En við verðum að skora mörk til að geta keppt í toppbaráttu og það hlýtur að koma í síðari umferðinni.

Byrjunarliðin

Að vanda blés nokkuð hressilega í Eyjum. Vindmælar á Stórhöfða sýndu 9 metra á sekúndu en Kári var eitthvað rólegri inn í Herjólfsdal. Eyjamenn fögnuðu goslokahátíð þannig að slangur af áhorfendum lét sjá sig á leiknum þrátt fyrir Tvíhöfða á HM í sjónvarpinu.  Og menn fengu svo sannarlega töluvert fyrir peninginn því leikurinn fer örugglega í sögubækurnar sem mest spennandi markalausi leikur sem spilaður hefur verið í efstu deild í langan, langan tíma.

Því þrátt fyrir markaleysið var mikið fjör í leiknum. Bæði lið börðust vel og í raun og veru var ótrúlegt að ekkert mark væri skorað í leiknum. Markverðir liðanna Halldór Páll og Gunnleifur voru besti mennirnir á vellinum og vörðu þeir oft frábærlega. Gunnleifur sýndi það og sannaði enn einu sinni að aldur er bara hugarfar!

En við Blikar getum samt nagað okkur í handarbökin að hafa ekki klárað þennan leik. Við fengum svo sannarlega tækifæri til að klára þennan leik. En það þýðir ekkert að gráta þessi úrslit. Við fengu eitt stig og það getur skipt miklu máli þegar talið verður upp úr kössunum í haust. 

Næsti leikur Blika er gegn Fjölni á Kópavogsvelli mánudaginn 16. júlí. Þá verður Daninn Thomas Mikkelsen orðinn löglegur með Blikaliðinu og verður áhugavert að sjá hvernig þjálfararnir stilla upp byrjunarliðinu í þeim leik.

Þrátt fyrir þessi tvö jafntefli í síðustu leikjum erum við í þriðja sæti í deildinni og erum ekki langt frá toppliðunum tveimur. Það þýðir því ekkert að örvænta heldur safna liði. Nú mætum við öll með tölu á næsta leik og hvetjum Blikaliðið til sigurs!

-AP

Umfjallanir netmiðla

Til baka