BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Markalaus spjaldasúpa í Krikanum

25.07.2022 image

Það andaði heldur köldu af vestnorðvestri með rúmlega 10 stiga hita (má teljast viðunandi ef ekki rignir) þegar sá er þetta ritar brá sér bæjarleið úr Kópavogi og í hinn hýra Hafnarfjörð á hjólhesti sínum í kvöld til að fylgjast með viðureign Blika við þá svarthvítu í Kaplakrika. Sennilega muna einhverjir að annað orð fyrir hest er Kapall og í, Kaplakrika, búa FH-ingar og þar er nú besti knattspyrnuvöllur landsins án nokkurs vafa og allt til alls fyrir afreksíþróttalið. En aðstaðan er ekki allt og það hefur verið brekka hjá heimamönnum í sumar í Bestu deildinni og uppskeran rýr á mælikvarða heimamanna sem frá byrjun þessarar aldar hafa réttilega getað kallað sig stórveldi í íslenskri knattspyrnu. Viðureignir Blika og FH hafa undanfarna 2 áratugi eða svo hafa einatt verið miklir markaleikir. 4-1, 4-3, 3-3, eru kunnuglegar tölur frá fyrri viðureignum og því var maður búinn undir slímusetu við lyklaborðið að lýsa markasúpu kvöldsins. Eftir að hafa hjólað fram hjá ljótasta og svo næstljótasta íþróttamannvirki á landinu renndi ég í hlað um það bil sem leikurinn hófst og var tjáð að ég hefði ekki misst af neinu markverðu. Það breyttist nú fljótt.

Byrjunarlið Blika var svona:

image

Blikar með 3 breytingar frá leiknum við Svartfellingana á fimmtudaginn. Oliver var í banni og Ísak og Damir á bekknum. Kristinn, Mikkel og Anton Logi komu inn í þeirra stað.

Það var fátt tíðinda í þessum leik fyrr en á 9. mínútu þegar laus bolti lak í átt að hliðarlínunn vinstra megin hjá Blikum, Davíð Ingvars ákvað að henda sér í tæklingu við FH-ing sem kom aðvífandi og þó Davíð ynni boltann varð úr þessu hvellur sem lauk með því að Davíð fékk að sjá rauða spjaldið hjá slökum dómara þessa leiks eftir að sá hafði ráðfært sig við aðstoðardómarann sem var nær meintu broti.

image

Mynd: Fótbolti.net: Jóhannes Long

Rautt spjald var rosalega harður dómur og alveg óhætt að segja eftir að hafa séð í sjónvarpi að hann hafi verið rangur.

Þetta var síður en svo ofsafengin tækling, Davíð var ekki á mikilli ferð, ekki hátt með fótinn og því er þetta illskiljanleg ákvörðun. En henni varð ekki breytt og Blikar því orðnir 10 gegn 11. En hafi Blikar lært eitthvað í leiknum við þá svartfellsku þá er það þetta; að missa mann útaf þýðir ekki tapaður leikur, eitt og sér. Að vísu má segja að heimamenn hafi lungann af því sem eftir lifði hálfleiksins haft undirtökin inni á vellinum og skapað sér heldur fleiri færi en okkar strákar en við fengum líka fín færi og hefðum með örlítilli heppni getað náð forystunni. 

image

Anton Ari sá hins vegar til þess að heimamenn komust hvorki lönd né strönd og varði glæsilega í þrígang að minnsta kosti. Dómarinn var ekki hættur tók við að spjalda leikmenn beggja liða sitt á hvað fyrir óttalegan tittlingaskít oft á tíðum og ekkert samræmi var í hans athöfnum það sem eftir lifði leiks. Og er það rannsóknarefni hvernig og hvers vegna þessi annars prúðmannlega leikni leikur 2ja góðra liða sem fyrst og fremst reyndu að spila góðan fótbolta gaf tilefni til 8 gulra spjalda ( og þar hallaði á hvorugt liðið) að ekki sé talað um þetta rauða. Kannski einhver hjá KSÍ skoði það… og fari yfir það með viðkomandi dómara. Vonandi.

Fyrri hálfleikur leið sem sagt án þess að liðin næðu að set´jann.
Í hálfleik voru langar raðir í kaffið en stuttar í bjórinn. Í 10 stiga hita og á hjóli langar mann bara í kaffi en nennir hins vegar ekki að bíða í korter eftir afgreiðslu og því fór kaffisopinn fyrir litið. Blikar settu Damir og Ísak inn í hálfleik  í stað Antons og Kristins.
Einhver nefndi reyndar í hálfleiksspjallinu að Blikar myndu vera undan vindi og nið´rí móti í seinni og það gæti gefið möguleika. Ekkert veit ég um það en hitt veit ég að ef þetta meinta nið´rí móti hefði verið aðeins meira uppímóti þá hefði bylmingsskot Viktors Karls af 20 metra færi, eftir laglegt spil í upphafi síðari hálfleiks verið sláin inn en ekki sláin út.

image

Mynd: Fótbolti.net: Jóhannes Long

Þar munaði sannarlega litlu og Blikar gáfu tóninn inn í síðari hálfleik. Sækja af krafti á milli þess sem menn beittu skipulögðu undanhaldi. Þetta gafst bara ljómandi vel og á löngum köflum áttu okkar menn í fullu tré við heimamenn og gott betur. Lokuðu vel á heimamenn og spilið ljómandi gott á köflum. Feilsendingar kannski óþarflega margar og oft undir lítilli pressu. Ólíkt okkar mönnum. Baráttan hinsvegar alveg upp á 10 og nokkrir leikmenn hlupu mjög mjög mikið í kvöld, og af ákafa. Blikar fengu nokkur tækifæri til að klára leikinn, s.s. þegar þeir komust 3 á móti 2 en sending Viktors Karls á Höskuld sem kom í vel tímasettu utanáhlaupi rataði beint í fætur FH-ings. Æææ….. og svo aftur þegar Blikar komu með flott tilbrigði við aukaspyrnu sem lauk með sendingu fyrir mark þar var Viktor Örn í góðu færi en skot hans fór yfir mark af stuttu færi. Ef, sé og mundi og allur sá pakki. Heimamenn áttu svo sem líka sín augnablik en þau voru færri en í fyrri hálfleik og ég man ekki til þess að Anton Ari hafi þurft að taka á honum stóra sínum, en í tví- eða þrígang mátti litlu muna að þeir kæmust í almennileg færi. Blikar settu Omar inn fyrir Jason Daða og undir lok leiks kom Andri Rafn inn fyrir Gísla en hvorugu liði tókst að skapa sér alvöru marktækifæri síðustu 10 mínúturnar.

Niðurstaðan því markalaust jafntefli og sennilega verða það að teljast sanngjörn úrslit ef allt er talið. Blikar mega að sumu leyti una vel við að hafa haldið markinu hreinu í fyrri hálfleik en geta á sama tíma nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki nýtt 3-4 úrvals tækifæri sem þeir fengu til að klára þennan leik.

Það verður að hrósa liðinu fyrir gríðarlega baráttu og það að hafa þorað að spila boltanum og reyna að halda honum manni færri. Það er alltaf freistandi að fara í kýlingar, nauðvörn og tafabolta þegar lið missa mann útaf en því fór fjarri hjá okkar mönnum í kvöld. Þeir reyndu sannarlega að ná í öll 3 stigin. Vel gert.

Næsti leikur okkar manna er í Svartfjallalandi n.k. fimmtudag. Það verður krefjandi verkefni en við höfum bullandi trú á að okkar menn klári þetta verkefni og láti ekki hótanir og djöfulgang slá sig útaf laginu. Við erum betri en þeir í fótbolta og það saman við gríðarlega vinnusemi er góð blanda. Baráttukveðjur fylgja þeim á þeirri för.

Þessir voru mættir á Kópavogsvöll á fimmtudaginn var og verða örugglega í móttökunefndinni á Gradski Stadion á fimmtudaginn kemur:

Næsti heimaleikur er hins ráðgerður þriðjudaginn 2. ágúst kl. 19:15 og þá koma gulir og glaðir Skagamenn í heimsókn í 15. umferð Bestu deildarinnar. Þessi dagsetning er þó með fyrirvara um breytingu vegna leikja í Evrópukeppninni. Nánar um það síðar ef þörf krefur.

Við mætum allavega öll þegar kallið kemur.

OWK

Áfram Breiðablik!

Til baka