BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Magni ekki mótstaða fyrir Blika

25.02.2018
Goðafræðiliðin tvö Breiðablik og Magni mættust í Lengjubikar karla í knattspyrnu í Fífunni í gær. Magnamenn sem verða nýliðar í 1. deildinni í sumar hafa komið skemmtilega á óvart í leikjum í vetur og náðu meðal annars jafntefli við KR í þessari keppni. En þrátt fyrir góða baráttu áttu Norðanmenn ekki möguleika gegn sterku liði Baldurs hins hvíta. Blikar létu reyndar duga að skora þrjú mörk en yfirburðir okkar voru miklir í leiknum.
 
Það voru þeir Elfar Freyr Helgason, Andri Rafn Yoeman og Aron Bjarnason sem sáu um markaskorunina að þessu sinni. En það verður að hrósa Grenvíkinginum fyrir mikla baráttu og verður gaman að fylgjast með þeim næsta sumar í Inkasso-deildinni.
 
Liðsskipan og skiptingar í boði úrslit.net
 
Þrátt fyrir að þessi tvö lið hafi ekki mæst mjög oft á knattspyrnuvellinum þá eru Ásatrúaritengslin sem binda liðin saman. Magni (og bróðir hans Móði) voru synir Þórs þrumuguðs og Sifjar konu hans. Þeim til heiðurs voru einnig gígarnir tveir sem mynduðust á Fimmvörðuhálsi eftir eldgosið árið 2010 skýrðir Magni og Móði. Breiðablik var hins vegar, eins og allir Blikar vita, heimii Baldurs. Baldur var sonur Óðins og Friggjar og sá þeirra sem þau elskuðu hvað mest. Hann var mjög fagur sýnum og jafnvel það fagur að það lýsti af honum hvert sem hann fór. Hann var jafnframt friðsamur og vitrastur ásanna. Þetta er mikilvægt fyrir okkur Blika að vita!
 
Breiðablik og Magni hafa aðeins tvisvar sinnum mæst áður í formlegri keppni. Likt og Færeyingar telja að 1:0 sigur sinn gegn Austurríkismönnum í undankeppni HM árið 1990 og Licteinsteinar dreymir enn fallega um 3:0 sigur liðs síns gegn Íslendingum í undankeppni EM árið 2007 þá telja Grenvíkingar að hápunkti knattspyrnunnar í sögu þessa tæplega 400 manna byggðalags hafi verið náð árið 1979 þegar þeir lögðu okkur Blika 1:2 á Kópavogsvelli í næst-efstu deild. Við höfðum rústað þeim 1:8 á Grenivík fyrr um sumarið og töldum að seinni leikurinn yrði nánast formsatriði. En þá sannaðist að aldrei má vanmeta neinn andstæðing. Magnamenn vörðust eins og engin væri morgundagurinn. Þeir komust yfir 1:0 með marki úr vítaspyrnu en Sigurður Grétarsson jafnaði leikinn úr annarri vítaspyrnu í síðari hálfleik. Kættust nú grænklæddir í stúkunni og ekki síður þegar við fengum aðra vítaspyrnu skömmu síðar. En þá gerði Björgólfur Jóhannsson, núverandi forstjóri Icelandair og þáverandi markvörður Magna, sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Sigurðar. Þess má geta að þetta var fyrsta vítaspyrna sem Siggi Grétars misnotaði í keppnisleik á ferlinum! Til að bæta gráu ofan á svart skoruðu Norðanmenn sigurmarkið eftir skyndisókn skömmu fyrir leikslok! Þrátt fyrir þessi úrslit fóru Blikar upp í efstu deild þetta árið en Grenvíkingar féllu um deild.
 
En þá nóg af sagnfræðinni. Blikaliðið heldur áfram góðri siglingu í vetrarmótunum. Markatalan í Lengjubikarnum 16:0 lofar góðu en róðurinn verður erfiðari í næsta leik. Þá höldum við norður í Eyfjafjörðinn og mætum KA-mönnum í Boganum sunnudaginn 11. mars kl.17.00.
 
Væri ekki gráupplagt fyrir stuðningsmenn Blika að reima á sig skíðaskóna og renna norður? Enda svo skemmtilega norðanferð með því að styðja strákana okkar gegn gulklæddum KA-mönnum!
 
Uppfært 6.3.2018: Eins og dyggir lesendur síðunnar hafa oft rekið sig á þá látum við ekki endilega staðreyndir skemma góða frásögn! En okkur hefur verið bent á að markvörður Magna í þessum fræga leik í Kópavogi hafi verið Einar Kristjánsson en ekki Björgólfur Jóhannsson. Biðjum við forláts á þessum mistökum.  Einnig var þetta víst fyrri leikur liðanna á Íslandsmótinu. En ljóst er að sigur Magnamanna var mjög óvæntur og nánast víst að Blikar vanmátu andstæðingana að norðan. Hefndin var hins vegar grimmileg í seinni leiknum. Þess má einnig geta að Blikar unnu alla leiki sína á útivelli þetta keppnistímabilið en töpuðu nokkrum stigum óvænt á heimavelli. Kóttur úti í mýri, setti á sig stýri úti er ævintýri!
 
Myndaveisla, leikurinn í heild, mörkin og umfjallanir netmiðla. Myndaveisla, leikurinn í heild, mörkin og umfjallanir netmiðla.
 
-AP

Til baka