BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Magnaður sigur á Akureyri!

01.05.2019

Blikar unnu ótrúlega stóran 1:10 sigur á Magna í fyrsta leik liðsins í Mjólkurbikarkeppni KSÍ á þessu keppnistímabili. Þeir grænklæddu byrjuðu leikinn með miklum látum og eftir tæplega fimm mínútna leik var staðan orðin 0:2 fyrir okkar drengi. Grenvíkingar misstu mann af velli og gestirnir létu kné fylgja kviði og níu marka stórsigur staðreynd eftir 90 mínútna leik.

Hrósa verður þjálfurum Blikaliðsins að vanmeta ekki andstæðingana. Þeir stilltu upp mjög sterku byrjunarliði og strax frá fyrstu mínútu kom getumunurinn liðanna berlega í ljós. Heimapiltar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar snöggir og léttleikandi miðju-og kantmenn Kópavogsliðsins dönsuðu kringum þá eins og Muhammed Ali í bardaganum gegn Sonny Liston árið 1964. Meira>

Leikskýrsla KSÍ     Úrslit.net

Mörg lið hafa lent í vandræðum með andstæðinga úr neðri deildum eins og sannaðist í þessari umferð. Bæði Víkingur og Fylkir rétt náðu að merja lið úr neðri deildum. En ekki Blikar, sei, sei og nei!

Blikaliðið gaf andstæðingum sínum engin grið og mörkin voru orðin fjögur fyrir leikhlé. Að vísu sýndum við smá gestrisni og gáfum þeim eitt stykki vítaspyrnu þannig að staðan var 1:4 í leikhléi.

Í síðari hálfleik opnuðust flestar flóðgáttir norðan Hellisheiðar. Grenvíkingarnir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og sóknirnar buldu á vörninni. Þar voru fremstir meðal jafningja Thomas Mikkelsen og Höskuldur Gunnlaugsson "Krulli Krull" setti þrjú kvikindi og er greinilega búinn að finna leikgleðin á nýjan leik sem frændur okkur í Svíaríki voru búnir að stela frá honum.

 

 

Danska dýnamítið Thomas kom tuðrunni fjórum sinnum í netið. Þess má geta að Thomas hefur nú leikið 21 leik með Blikum og skorað 20 mörk. Það er ótrúleg tölfræði. Lokaniðurstaða varð síðan 1:10 fyrir Blika og eru ár og aldir síðan við unnum leik með slíkum mun. Þriðja mark danans var stórkoslegt! Brynjólfur með sendingu inn fyrir vörn Magnamanna sem Thomas eltir og skorar "sporðdrekamark" með hælnum. Hér má sjá markið. 

Gaman að sjá að Þórir Guðjónsson kom inn á sem varamaður og skoraði strax tvö mörk með stuttu millibili. Það er því orðnir margir sem geta skorað fyrir okkur í sumar. En það má ekki gleyma vörninni sem stóð sig með sóma.

Alexander Helgi og Arnar Sveinn eiga við smávægileg meiðsli að stríða og spiluðu ekki í dag. En þeir ættu að vera tilbúnir í slaginn gegn HK á laugardaginn. Það verður erfitt fyrir þjálfarana að velja byrjunarliðið í þeim leik. Liðið lék fantavel i dag og lofar þetta góðu fyrir framhaldið.

Kópavogsslagurinn mikli í Kórnum á laugardaginn verður því eitthvað. Vinir okkar í efri byggðum Kópavogs unnu góðan 5:1 sigur í dag þannig að það má búast við hörkuleik á laugardaginn.

-AP

Nánar um leikinn og umfjallanir netmiðla.


 

Til baka