BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lýst eftir lafði Lukku!

04.07.2017

Það gengur hvorki né rekur hjá strákunum okkar núna. Þrátt fyrir að spila fína knattspyrnu þá höfum við tapaði stigum í undanförnum leikjum. Það sama var upp á teningnum í leiknum gegn FH í gær. Fyrir utan fyrstu 15 mínútur leiksins þá vorum við samt betri aðilinn inn á vellinum. En á meðan við ekki nýtum þau færi sem við fáum þá vinnum við ekki leiki.  Hins vegar er ljóst að með þessari spilamennsku hlýtur að styttast í næsta sigurleik enda ekki eðililegt hve fá stig hafa komið í hús í undanförnum fjórum leikjum. Þar að auki má ekki gleyma því að við höfum verið að spila við efstu liðin í deildinni. Lafði Lukka hlýtur því að ganga í lið með okkur í næstu leikjum!

Gestirnir úr Hafnarfirði pressuðu okkur mjög framarlega og það virtist slá okkur nokkuð út af laginu í byrjun leiks. Einungis vegna mjög góðar frammistöðu Gulla í markinu þá náðu þeir hvítklæddu ekki að skora. En eitthvað hlaut að gefa eftir og það kom því ekki á óvart þegar FH komst yfir eftir tæplega korters leik. En þá var eins og okkar drengir vöknuðu af værum draum. Boltinn fór að ganga betur og menn þorðu að halda boltanum og spila gegn Íslandsmeisturunum. Pressan jókst upp við mark gestanna og að minnsta kosti einu sinni í vorum við rændir vítaspyrnu. En inn vildi tuðran ekki og því fórum við marki undir inn í leikhléið.

Þröngt var á þingi í Blikakaffinu. Guðni formaður KSÍ og Þorgrímur Þráinsson höfðu á orði að Blikaliðið væri að spila fanta fína knattspyrnu en það vantaði broddinn fram á við. Bæði Ási málari og Bjössi ljósameistari voru hins vegar ánægðir með spilamennsku liðsins og voru bjartsýnir að gæfan myndi ganga í lið með okkur í síðari hálfleik. Menn kjömsuðu því á vínarbrauðinu og ræddu við Óla Sigtryggs að kaffið væri einkar ljúffengt hjá þeim systrum Birnu og Önnu að þessu sinni. Það var því hugur í Blikafólki þegar Jarlinn flautaði til síðari hálfleiks.

Greinilegt var að Milos hafi lesið vel fyrir hausamótunum á strákunum því við tókum strax öll völd á vellinum. Öflugar sóknarlotur buldu á FH-vörninni en því var ekki að leyna að skyndisóknir Hafnfirðinga voru hættulegar. Eftir góðan skalla Tokic og nokkur hálf-færi þá hamraði Gísli knöttinn í netið með hörkuskoti af um 30 metra færi. Það þarf enga smá spyrnu til að sigra landsliðsmarkvörð Færeyinga og það gerði miðjumaðurinn okkar snjalli svo sannarlega. En því miður fylgdum við þessu góða skoti ekki eftir og var okkar refsað grimmilega nokkrum mínútum síðar. Úr nánast eina færi FH-inga fram að þeim tíma skallaði næstum því fyrri leikmaður Blika knöttinn í netið. Þetta sló okkar drengi okkar nokkuð út af laginu og náðum við ekki að jafna leikinn. Þung voru því skrefin inn í klefa eftir leikinn því við áttum svo sannarlega skilið eitthvað út úr þessum leik. En knattspyrnan er miskunnarlaus og getum við ekkert annað gert en að koma grimmir eins og ljón í næsta leik sem er gegn ÍBV í Eyjum á sunnudaginn.

Blikaliðið spilaði á margan hátt frábæran bolta í leiknum. Menn þorðu að láta knöttinn ganga en því miður var sóknarlína þeirra hvítklæddu beitt í dag. Bakverðirnir okkar áttu reyndar erfiðan dag og fengu ekki heldur nægjanlegan stuðning frá kantmönnunum okkar gegn sterkum sóknarmönnum FH. Þetta hlýtur Milos að laga fyrir næsta leik. Það var ánægjulegt að sjá Oliver mæta aftur til leiks og lofar það góðu fyrir næstu leiki. Að vísu spilaði Effete sinn síðasta leik fyrir Blika og er sjónarsviptir af honum. En við eigum von á Elfari Frey inn í hópinn um miðjan mánuðinn og Viktor Örn er ná sér af meiðslum. Vonandi fara líka Kópacabana drengirnir að láta sjá sig þannig að við getum komið sterkir inn í síðari umferðina. Deildin hefur verið að spilast þannig að allir hafa verið að týna stig af öllum. Þrátt fyrir að fyrri umferðin hafi ekki alveg spilast með okkur þá getur það breyst á skömmum tíma. Við þurfum því að halda haus og koma fullir sjálfstrausts í næstu leiki.

Umfjallanir annarra netmiðla.

-AP

Til baka