BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Loksins sigur!

21.08.2025 image

Blikar unnu mikilvægan 2:1 sigur gegn Virtus frá San Marinó í fyrri umspilsleik liðanna um sæti í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag. Reyndar var með ólíkindum að við skyldum ekki skora að minnsta kosti 4-5 mörk á móti þessu liði sem er eitt hið slakasta sem Breiðablik hefur spilað á móti í  Evrópukeppni frá upphafi. En sigur er sigur og nú þurfa strákarnir okkar bara að nýta færin betur í leiknum úti til að komast í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Veðrið lék við hvurn sinn fingur og var ágætlega mætt á völlinn. Rúmlega 1100 manns sáu Blikaliðið hefja leikinn með fítonskrafti og hver sóknin á fætur annarri skall á Virtus vörninni. En inn vildi boltinn ekki og eins og stundum gerist þá fáum við kalda vatnsgusu í andlitið. Gestirnir ná hraðri sókn og Viktor Örn dæmdur brotlegur og víta dæmt. Allt í einu var staðan orðin 0:1 algjörlega gegn gangi leiksins.

Það var eins og okkar piltar væru aðeins slegnir út af laginu með þessu marki en við héldum samt áfram að sækja af nokkrum krafti. En uppspilið var of hægt og fyrirsjáanlegt og gestirnir náðu að verjast nokkuð vel. Sendingar utan af kanti inn í teiginn voru annað hvort ekki nógu nákvæmar eða að sóknarmenn okkar voru víðsfjarri þegar boltinn kom á góðan stað í teignum. Það var ekki fyrr en Kristinn Jónsson náði að hrista af sér varnarmann San Marinó og senda góða sendingu út í teiginn að við náðum loksins að jafna. Valgeir Valgeirsson, sem var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Blika í dag, kom aðvífandi og sendi knöttinn í netið með viðkomu í tveimur varnarmönnum gestanna.  Þannig var staðan í leikhléi.

image image

Stuðningsmenn Blikar stormuðu yfir í tengibygginguna til að gæða sér á veitingum í boði Arnars Örlygssonar og Blikaklúbbsins. Þar var nú ekki töluð vitleysan og voru menn sannfærðir að við myndum valta yfir þessa Virtusardrengi. En því miður varð það ekki raunin. Reyndar fiskaði Valgeir Valgeirsson vítaspyrnu fljótlega eftir leikhléið og Tobias Thomsen skoraði örugglega. En svo skellti Virtus í lás og við fundum ekki leiðina gegnum þéttan varnarvegg liðsins. Reyndar skoraði Guðmundur Magnússon mark skömmu fyrir leikslok en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Virtus þýðir dyggð á íslensku en leikmenn liðsins voru engir dyggðarpiltar. Þeir brutu oft á Blikum og fengu þrjú gul spjöld á sig. Smá snerting dugði til að þeir veltust um í grasinu eins og hauslausar hænur. Þeir notuðu hvert tækifæri til að hægja á leiknum og voru ótrúlega lengi að taka innköst, horn, aukaspyrnur og aðrar knattspyrnu. Danski dómarinn var allt of undanlátssamur við þá og hefði hann átt að spjalda mun fleiri af þessum dyggðapiltum fyrir leikaraskap.

En við unnum leikinn og það er fyrir öllu! Hrósa verður Kópacabanadrengjunum fyrir góðan stuðnings í stúkunni allan leikinn og skiptir þetta miklu máli yfir framhaldið. Við höfum verið í brekku að undanförnu og vonandi var þessi sigur fyrsta skrefið upp á við í okkar vegferð út keppnistímabilið.

Góðar kveðjur fylgja nú strákunum í leikinn úti í San Marinó næsta fimmtudag. Við fáum langþráða pásu því búið er að fresta ÍA leiknum sem átti að vera um helgina. Vonandi getur Blikaliðið hlaðið á geymana og sýnir þessum Virtusdrengum hvernig alvöru dyggðapiltar spila knattspyrnu!

Áfram Blikar- alla leið!

AP

Til baka