BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lengjubikarinn 2024: Breiðablik - Keflavík

07.03.2024 image

Fimmti og síðasti leikur okkar manna í riðlakeppni Lengjubikarsins 2024 er heimaleikur gegn Keflvíkingum. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.19:00 á fimmtudaginn. 

Staðan í riðlinum er þannig eftir 4 leiki að Keflvíkingar eru með 8 stig og Breiðablik 7 stig.

Sigurlið leiksins á fimmtudaginn vinnur riðilinn og fer því í undanúrslit gegn efsta liði 3. riðils miðvikudaginn 13. mars. 

image

Innbyrðis vorleikir liðanna

Í gagnagrunni blikar.is kemur fram að innbyrðis vorleikir Breiðabliks og Keflvíkinga eru 51 í þremur keppnum - fyrst árið 1965:

37 leikir í Litlu bikarkeppnnni (Litla bikarnum) frá 1965 til 1995:

8 leikir í Deildabikar KSÍ / Lengjubikarnum 1996 til 2023:

6 leikir í Fótbolta.net mótinu 2011 til 2021:

Blikasigar í vorleikjum eru 20 gegn 22 og jafnteflin eru 9. Samtals 51 leikir. 
 

Um Litlu bikarkeppnina 1961 - 1995

Fyrstu fjögur ár Litlu bikarkeppninnar voru það Akurnesingar, Keflvíkingar og Hafnfirðingar (KRH eða ÍBH) sem tóku þátt í keppninni sem leikin var á vorin, áður en Íslandsmótið hófst. Albert Guðmundsson var aðalhvatamaður að stofnum mótsins. Albert gaf farandbikar til keppninnar. Mótið var hugsað sem æfingamót fyrir "utanbæjarliðin" áður en Íslandsmótið hæfist, til mótvægis við Reykjavíkurmótið. Breiðablik bættist svo í hópinn árið 1965. Árið 1971 verða liðin 5 þegar þegar Hafnarfjarðarliðin hættu að senda sameiginlegt úrvalslið til keppninnar. Fyrirkomulagið næstu árin þar á eftir var þannig að Haukar og FH spiluðu til skiptis fyrir Hafnfirðinga. Til dæmis voru það FH-ingar sem léku leiki Hafnarfjarðar í fyrri umferðinni árið 1971 en Haukar léku seinni leiki umaferðarinnar. Frá 1976 léku FH og Haukar bæði í keppninni og þátttökuliðin því orðin fimm talsins. Árið 1987 eru liðin 8 þegar Selfyssingar, Stjörnumenn og Víðismenn bætast í liða-hópinn. Þá er tekin er upp einföld umferð og riðlaskipting til að einfalda fyrirkomulagið. Árið 1993 eru liðin orðin 12 þegar Grindavík, ÍBV, HK og Grótta bætast í hópinn. Árið 1995 voru þáttökuliðn orðin 16: Afturelding, Breiðablik, FH, Grindavík, Grótta, Haukar, HK, ÍA, ÍBK, ÍBV, Reynir, Selfoss, Skallagrímur, Stjarnan, Víðir og Ægir. Leikin var tvöföld umferð á mótinu frá 1961 til 1987, með einhverjum undantekningum, og skiptust félögin á um að sjá um framkvæmd mótsins. Skoruð voru 1658 mörk í 850 leikjum í Litla bikarnum frá árinu 1961 til ársins 1995. Skagamenn unnu keppnina 17 sinnum, Keflvíkingar unnu 15 sinnum. Haukar, Stjarnan og FH með einn sigur hvert félag.

image

Breiðablik fór á kostum í Litla-bikarnum árið 1976. Í þessum leik unnu þeir Íslandsmeistara Skagamanna, 3:2. Áður höfu þeir unnið bikarmeistara Keflavíkur. Á myndinni sést Heiðar Breiðfjörð reyna eitt af þremur markskotum sínum í sömu sókninni - Skagamenn björguðu á línu. Vignir Baldursson fylgist með. Mynd: GSP

Viðtalið

Tíðindamaður blikar.is hafði samband við Helga Guðfinnsson stryrktarþjálfara meistaraflokks karla og lagði fyrir hann nokkrar spurningar:

Hvernig leggst leikurinn við Keflvíkinga í þig?

Hann leggst bara vel í mig. Veit að við eigum eftir að spila miklu betur heldur en við gerðum á móti Vestra

Hvað er það sem stendur uppúr hjá þér þessa fyrstu mánuði sem styrktarþjálfari meistaraflokks karla?

Ég myndi segja að það væri tvennt: Dugnaður leikmanna og frábær umgjörð í kringum liðið

Hverjar eru þínar aðal áherslur í styrktarþjálfun?

Ég vinn mikið út frá kraft-hraða feril (e. Force-velocity curve) til þess að hámark getu íþróttamannsins.

Segðu okkur aðeins frá íþróttaferlinum þínum.

Sem unglingur þá var ég í fótbolta á sumrinn og körfubolta á veturna. Ég valdi svo körfuna þegar ég var 15 ára. Spilaði fyrsta tímabilið mitt með mfl þegar ég var 16 ára. Ég ákvað að skella mér í high school USA í eitt ár til USA í en megin markmiðið var auðvita að spila körfu. Eftir það spilaði ég þrjú ár með mfl og á þeim tíma varð ég 1x Íslandsmeistari, 1x bikarmeistari og 1x deildarmeistari. Fór erlendis til þess að spila árið 1998 og lá leiðin til Hollands, eftir eitt ár þar þá fór ég til Belgíu og spilaði tvö ár þar. Fyrr árið mitt var ég Belgíumeistari og bikarmeistari með Antwerpen. Kom aftur heim 2001 þar sem liðið sem ég spilaði fyrir varð gjaldþrota. Ákvað að leggja skóna á hilluna 2006 en tók svo eitt tímabil 2008-2009. Það má kannski taka það fram að sumarið 2002 ákvað ég að breyta til og fékk að æfa fótbolta með mfl Grindavíkur og á ég því 9 leiki í efstu deild

Hver er Helgi Guðfinnsson?

Ég er fæddur 18. apríl 1976 á Neskaupsstað. Bjó þar til 11 ára aldurs en þá flutti ég til Grindavíkur og hef búið þar síðan. Ég er giftur Arnfríði Kristinsdóttir og eigum við tvö börn Arnór Tristan (2006) og Anítu Rut (2008).

Dagskrá

Flautað verður til leiks gegn Keflavík á Kópavogsvelli kl.19:00 fimmtudaginn 7. mars.

Áfram Blikar!  Alltaf - alls staðar!

-PÓÁ

Til baka