BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Leikur hinna glötuðu tækifæra!

10.07.2017

Enn einn leikinn náum við Blikar ekki að halda forystu í leik og þurftum við því að sætta okkur við 1:1 jafntefli við Eyjamenn á útivelli.

Svona fyrirfram hefðum við ef til vill getað sætt okkur við eitt stig á eyjunni grænu en miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá eru þetta grábölvuð úrslit. Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik og hefðum átt að skora að minnsta kosti einu marki meira. En heimamenn voru mun sterkari í síðari hálfleik og þegar upp var staðið getum við verið sáttir við stigið.

Við byrjuðum leikinn miklu betur og á tuttugustu mínútu skallaði Höskuldur gullskalli knöttinn í net heimamanna eftir frábæra sendingu Davíðs Kristjáns. Eyjamenn voru eins og statistar í fyrri hálfleik og lékum við okkur að þeim eins og köttur að mús. En okkur virðist vera fyrirmunað nýta öll þau færi sem við fáum í leikjum og það átti eftir að verða okkur dýrt.

Ekki er vitað hvað sett var í tevatnið  í leikhléi en það voru tvo gjörólík lið sem kom út á völlinn í síðari hálfleik. Heimadrengir komu fullir eldmóðs en okkar drengir virtust vera fastir í einhverri eldfjallamóðu.

Samt sem áður virtist Blikaliðið ætla að standa af sér sóknarþunga þeirra hvítklæddu. En því miður þá varð enn eitt fast leikatriði okkur að falli.

Við náðum ekki að hreina frá hornspyrnu Eyjamanna og elsti Eyjapeyinn á vellinum skallaði knöttinn í netið. Þetta var skelfilegt því skömmu áður hafði Tokic átt dauðafæri sem elstu húsmæður í Herjólfsdal hefðu nýtt.

Þegar Eyjamenn jöfnuðu voru bæði Gísli og Andri Rafn farnir út af og virtist það eitthvað slá okkur út af laginu. Sérstaklega hafði Andri Rafn verið sprækur en hann fékk þrumuskot í höfuðið og þurfti því að fara af velli.

Gaman var að sjá hve Aron Bjarnason stóð sig vel í sínum fyrsta byrjunarliðsleik en hann leysti hægri bakvarðarstöðuna með sóma. Vörnin hafði staðið sig eins og Heimaklettur en andartaks andvaraleysi kostaði okkur tvö stig.

Það þýðir hins vegar ekkert að leggjast í eitthvað þunglyndi út af þessum úrslitum. Það eru ekki mörg lið sem ná í stig í Eyjum og þegar upp verður staðið í haust getur þetta eina stig skipt miklu máli.

Blikaliðið fær nú tveggja vikna pásu því við höfum þegar klárað FH-leikinn úr elleftu umferð. Næsti leikur er gegn KA mönnum á Akureyri sunnudaginn 23. júlí kl.17.00.  Þar sem nú gengur í garð hásumarleyfistími þá hvetjum við alla Blika til að streyma norður þessa helgi því Blikaliðið þarf á öllum þeim stuðningi að halda sem mögulegur er.

Auglýst er eftir ungu fersku stuðningsfólki á öllum aldri sem þorir að mæta og sýna stuðning sinn verki!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Umfjallanir netmiðla.

Til baka