BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Leikmannakynning 2014: Elfar Freyr Helgason

19.03.2014

“Hver er maðurinn?” Kynning á leikmönnum meistarflokks karla fyrir keppnistímabilið 2014.

Nafn: Elfar Freyr Helgason

Fullt nafn: Ölfar

Fæðingardagur og sár: 27.07 - 24 ára – lítið sár á vinstri löppinni

Staður: Kópavogur

Staða á velli: Varnarmaður og varamaður í platvinnumennskunni

Nr: 5.

Gælunafn: Kalla mig Nöttz á bland.is - deili þeim aðgangi með Hildi vinkonu minni og manninum hennar. Siglum lygnan sjó.

Hjúskapastatus: Kærastan heitir Harpa Sif og saman eigum við tvíburana Finn Orra Elfarsson (14 ára) og Gísla Pál Elfarsson (27 ára) sem nema nú um stundir viðskiptafræði við Háskólan í Reykjavík. Uppeldið hefur heppnast mjög vel og eru þessir kraftmiklu tvíburar að standa sig vel.

Börn: Eftir að hafa komið tveimur börnum á legg ákvað ég að farsælast væri að fara í ófrjósemisaðgerð og lét því taka mig úr sambandi í ágúst í fyrra, aðgerðin heppnaðist vel og móðir og barni heilsast vel.

Bíll: Renault Megane, Hann er svartari en nóttin og kaffið hans Big Nóra þannig að ég er bara mjög sáttur með að hafa fundið hann í flórunni…

 

Uppáhalds….

Hlið í enska: Ég veit ekki hver með flottasta hliðið en Manchester United er uppáhalds liðið mitt.

Fótboltamaður: Mata, Matri, Marta og Matar (Jobe Nesta)

Matur: Já sorrý, gleymdi honum, hann á að vera þarna líka…

Tónlist: Mestmegnis Rapp en einnig er ég líka mikið að hlusta á Ripp og Rupp sem eru ólíkar stefnur sem eru svona meira á jaðrinum og kannski meira það sem koma skal með tíð og tíma.

Leikmaður í mfl.kvk: Þær eru allar að standa sig vel.

Frægasti vinur þinn: Alfreð er frægur

Staður í Kópavogi: Fífan eftir að nýja grasið kom, takk fyrir mig.

 

Hver í mfl er…..

Fyndnastur: Hermann Ármansson (21) (geymdur en ekki gleymdur) og Elvar Páll Sigurðsson (22) eru fyndir.

Æstastur: Elfar Árni er mjög æstur.

Rólegastir: Guðmundur Friðriksson & Ellert Hreinsson

Mesta kvennagullið: Davíð

Heldur mest með HK: Eftir að VU (21), Steindór (19) og Viktor Orri Margeirsson (20) (hálfbróðir Finns Orra Elfarssonar (14) (sammæðra)) fóru í HK þá erum við allir komnir á þann vagn og munum styðja við þessi eðalmenni!

Líklegur í að vinna gettu betur: Hinn þenkjandi Stefán Pálsson (19) er hér lang líklegastur, hann er ennþá í menntaskóla og hefur vitsmunalegan blæ á sér sem aðrir hefa ekki náð að leika eftir.

Lengst í pottinum: Húsvíkingurinn Ellert Hreinsson (26) og arkitektinn Elfar Árni (23) eru hér fremstir í flokki ásamt Guðjóni Lýðssyni sem fer reyndar bara í pottinn ef að kynjahlutföllin eru 3:1 konum í hag.

Með verstu klippinguna: Það er uppi orðrómur um að enginn annar en þingmaðurinn Helgi Hjörvar (43) hafi klippt þá feðga Guðjón Lýðsson (26) og Viggó Kristjánsson (22) og ekki nóg með það heldur segir sagan einnig að hann hafi gert það með vinstri! Vil ég fyrir hönd allra í meistaraflokki koma á framfæri þakklæti til hans og óska honum á sama tíma góðs gengis á þinginu.

Bestur á æfingu: Andri Yeoman

Að lokum, hvað er Breiðablik: Gata í Vestmannaeyjum.....

Til baka