BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Lásar og berserkir

08.08.2019

Sól skein í heiði þegar KA-menn komu í heimsókn í Kópavogsdalinn í kvöld. Það var hægur andvari, völlurinn iðagrænn (sem var kannski ekki óvænt) og aðstæður eins og þær gerast bestar. Ef eitthvað var hefði þetta átt að gagnast gestunum frá Akureyri fremur en heimamönnum en á þeirra slóðum er sólskin og logn lungann úr sumrinu – ef heimamenn eru spurðir.

Alfons snýr aftur

Í pistlum sem þessi tíðindamaður Blikar.is skrifaði á liðnu sumri var gjarnan vikið að því að byrjunarliðið hefði verið kunnuglegt. Því hefur aftur á móti ekki verið að heilsa í sumar. Og í kvöld var engin breyting þar á, þótt liðið væri að mestu það sama og laut í gerfigras í Víkinni fyrir skemmstu.

Gunnleifur fyrirliði stóð í markinu, Davíð var vinstri bakvörður, Elfar Freyr og Viktor Örn í hjarta varnarinnar (Damir í banni) en í hægri bakverði var Alfons Sampsted í sínum fyrsta leik eftir endurkomuna í Smárann. Alexander og Guðjón Pétur voru á miðjunni og Gísli Eyjólfs í holunni. Höskuldur og Viktor Karl á köntunum og Thomas frammi.

KSÍ leikskýrsla     Úrslit.net skýrsla

Silfurleikarnir

Manni hefur fundist liðið í undanförnum leikjum hafa farið undan í flæmingi þegar færi hafa gefist til að nálgast KR, eins og menn hafi verið feimnir við að fylgja eftir frábærri byrjun. Að vísu eru tveir byrjunarliðsmenn bókstaflega farnir til Flæmingjalands og sá þriðji fór í „Oldsmóbílnum Ungverjans“ að njóta dásemda Bjarmalands. Gústa Gylfa hefur því verið nokkur vorkunn.

Það var mikið undir í kvöld. KA-menn í fallsæti og þurftu sárlega á stigum að halda. Blikar voru hins vegar enn í öðru sæti þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið í slöku meðallagi undanfarnar vikur. Sigrarnir hafa látið á sér standa og fá stig safnast. Í raun var þetta spurning um að taka afgerandi forystu á silfurleikum mótsins eða hleypa næstu sjö liðum inn í þá baráttu.

Okkar menn hófu leikinn með látum. Gísli átti bylmingsskot  fyrir utan teig á upphafsmínútunum sem var varið í horn. Gestirnir voru aftur á móti rólegri í tíðinni. Tóku sér tíma í allt, eins og þeir væru sáttir með stigið. Þeir áttu þó gott skot á sjöundu mínútu sem fór í varnarmann og  fengu að minnsta kosti þrjár hornspyrnur á fyrstu tíu mínútum leiksins.  Þó virtist aldrei vera hætta á ferðum.

Stutt spil ...

Blikar spiluðu vel úti á vellinum, léku vörn KA-manna t.d. grátt á 17. mínútu en lokasendingin endaði hjá markmanninum. Alfons virkaði ryðgaður á þessum mínútum en átti sannarlega eftir að hrista það af sér.

Þremur mínútum síðar dró til tíðinda. Höskuldur átti fallega stungu upp að endamörkum á Davíð. Hann sendi boltann með jörðinni fyrir á Thomas sem átti ekki í vandræðum með að skora fyrsta mark leiksins. Einfalt kerfi: stutt spil – fallegt mark.

Voru okkar menn aftur komnir á beinu brautina? Eða myndu KA-menn svara á sömu mínútu eins og gjarnan hefur brunnið við í sögu Blika?

Blikar völdu Thomas Mikkelsen leikmann leiksins enda var hann sívinnandi og skoraði hann 2 mörk. Hér fagnar hann fyrra markinu með Davíð Ingvarsyni sem átti stoðsendinguna. Seinna markið skoraði Thomas í síðari hálfleik eftir glæsilega stoðsendinu frá Guðjóni Pétri Lýðssyni. 

Stöngin inn

Litlu síðar vann Thomas boltann á vallarhelmingi KA, skyndilega voru okkar menn tveir á móti einum en niðurstaðan varð hornspyrna. Á 33. mínútu sendi Davíð inn á Thomas sem rétt missti af boltanum. Þar sem ég var að punkta þetta hjá mér voru KA-menn allt í einu komnir í færi hinum megin en Gulli varði. Og mínútu síðar átti Viktor Karl stórkostlega sendingu með miklum snúningi á Gísla sem var að koma sér í vænlega stöðu fyrir utan teig gestanna en var sparkaður niður. KA-fanturinn fékk gult en það var álit allra sanngjarnra manna í stúkunni að spjaldið hefði átt að vera rautt. Það má því segja að réttlætið hafi sigrað með því að Alexander skaut í stöngina og inn úr aukaspyrnunni. Algjörlega óverjandi.

Undir lok hálfleiksins lá nokkuð á okkar mönnum, þeir virtust slaka á og var engu líkara en að þá munaði í veitingarnar í hléi en þó sköpuðu gestirnir sér engin færi.

Lygn streymir Don

Kvöldsólin yljaði í hálfleik, ekki síður en staðan í leiknum. Heimamenn voru fullir bjartsýni en þeir KA-menn sem undirritaður spjallaði við – og eru þeir bæði réttsýnir og sanngjarnir – sögðu gestina arfaslaka, það væri bókstaflega ekkert að gerast hjá þeim.

Síðari hálfleikur hófst með stórsókn okkar manna. Þar fóru Thomas og Davíð fremstir í flokki. Engin mörk komu þó út úr því og smám saman var eins og Blikar væru orðnir saddir, þetta væri komið, næstu 25-30 mínútur þyrftu bara að streyma lygnar hjá eins og fljótið Don. KA-menn gengu á lagið, fengu hornspyrnur, innköst og aukaspyrnur án þess þó að raunveruleg hætta skapaðist við mark Blika.

#GPL10 leiðist þófið

Á 74. mínútu fengu gestirnir aukaspyrnu á sama stað og Alexander skoraði úr sinni í fyrri hálfleik en Gulli varði þægilegt skotið. Þarna kristallaðist kannski munurinn á liðunum. Okkar menn voru beinskeyttir á meðan Akureyringarnir virtust enga trú hafa á því að þeir ættu möguleika á stigi eða stigum.

Þegar leið á seinni hálfleikinn fór heldur betur að færast fjör í leikinn. Andri Rafn kom inn á fyrir Alexander, sem hafði átt frábæran leik, og litlu síðar fór Gísli út af fyrir Brynjólf Darra. Tveimur mínútum síðar leiddist Guðjóni Pétri þófið. Fékk boltann rétt fyrir framan miðju, brunaði fram og renndi knettinum inn fyrir þar sem Thomas kom á góðu skriði og skoraði sitt annað mark. 3-0. Eftir það var Dananum góða skipt út af fyrir Karl Friðleif.

Kveikt í stuðningsmönnum

Stemmningin hafði verið með daufara móti í stúkunni. Svo mjög raunar að á 85. mínútu sá Gústi Gylfa ástæðu til að grípa í taumana. Hann bókstaflega kveikti í stuðningsmönnum Blika, gerðist forsöngvari í hvatningarópum (ég var löglega afsakaður af því að ég var svo mikið að punkta hjá mér) en þetta skilaði sér líklega best í því að Brynjólfur Darri skoraði fjórða markið til að innsigla glæstan sigur okkar manna.

Fyrsta mark Brynjólfs Darra í efstu deild eftir stoðsendingu Alfons.

Grettir sterki skellir í lás

Ég nefndi áðan að mér hefði fundist að það væri eins og okkar menn hefðu farið undan í flæmingi undanfarnar vikur þegar færi hafa gefist til að stríða toppliðinu. Að fara undan í flæmingi hefur tvenns konar merkingu: Annars vegar þýðir það að gefa loðin svör. Svör okkar manna að undanförnu hafa sannarlega verið loðin og óljós. Frammistaðan svo sem verið að mörgu leyti fín en árangurinn ekki upp á marga fiska, menn hafa gengið vonsviknir af velli, vitandi að það býr miklu meira í liðinu.

Hins hins vegar merkir að fara undan í flæmingi að hopa á hæli en gefast ekki upp. Í Grettis sögu segir til dæmis frá því er berserkir réðust að Gretti: „Hann fór undan í flæmingi og er þeim var minnst von hljóp hann út úr húsinu og greip í hespuna og rekur aftur húsið og setur lás fyrir.“ Leikirnir á liðnum vikum hafa verið hálfgert undanhald samkvæmt áætlun. Okkur hefur tekist að hanga á sætinu en minna verið í því að safna stigum. Nú sýnist mér að undanhaldi sé lokið og sóknin framundan. Menn ráku lás fyrir markið í kvöld líkt og Grettir forðum og gáfu fá ef nokkur færi á sér. En voru aftur á móti eins og berserkir fram á við eins og markatalan sýnir.

Yfirburðir

Yfirburðir Blika voru algjörir á öllum sviðum í kvöld og var hvergi veikan hlekk að finna. Sérstaklega var gaman að sjá Alfons aftur í Blikabúningnum. Þá var ekki síður gleðilegt að fylgjast með framgöngu Davíðs í vinstri bakverðinum, að ógleymdum danska stormsenternum. Raunar væri hægt að  halda svona áfram stöðu fyrir stöðu – þetta var einfaldlega flottur leikur hjá okkar mönnum. Og ekki saknaði maður löngu sendinganna úr öftustu vörn á fremstu menn sem litlu hafa skilað undanfarnar vikur. Nú var spilað upp kanta og í gegnum miðjuna eins og léttleikandi Blika á að vera siður.

Myndaveisla í boði BlikarTV

Fyrirliðinn virkar mjög ánægður með sigurinn. Liðið hans skorar 4 mörk og hann heldur búrinu hreinu. Það gerist varla betra.

Næsti leikur er við ÍA á sunnudaginn. Skyndilega er spútniklið Skagamanna komið niður í fimmta sæti – þótt það muni aðeins fjórum stigum á þeim og Blikum – og er ljóst að þeir verða erfiðir heim að sækja. En ef okkar menn spila eins og í kvöld verða piltarnir af Langasandi engin fyrirstaða.

PMÓ

Umfjallanir annarra netmiðla

Mörk og atvik í leiknum í boði BlikarTV

Til baka