BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

La la í Lautinni….

08.05.2015

La la í Lautinni....

Blikar lögðu á brattann í kvöld og skeiðuðu rakleitt upp í Selás og upp fyrir snjólínu. Þar leynist í grænni lautu grasi vaxinn fótboltavöllur í fullri stærð og duggunarhugguleg nýbyggð stúka þeirra Fylkismanna sem veitti ágætt skjól gegn nöprum norðaustan belgingi sem herjar á okkur þessa dagana. Megi hann aldrei þrífast. Innan girðingar var þetta samt sallafínt lengstum, soldið um gras en blessunarlega lítið um sprautunálar þó orðrómur og samsæriskenningar segðu annað.
Lofthiti af skornum skammti og náði ekki upp fyrir 5°C en dró verulega úr þegar leið á leik. Stífur vindur eftir endilöngum vellinum í fyrri hálfleik en í þeim síðari lægði heldur.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Arnþór Ari Atlason - Andri R. Yeoman - Gunnlaugur Hlynur Birgisson - Davíð Kristján Ólafssson - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Guðjón Pétur Lýðsson
Olgeir Sigurgeirsson
Isman Tandir
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson
Viktor Örn Margeirsson

Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson
Leikbann: Ósvald Jarl Traustason

Leikskýrsla.

Leikurinn fór rólega af stað og ljóst að liðin höfðu ekki í hyggju að opna leikinn upp á gátt með einhverjum hálfkæringi. Lítið var um samleik og aðaláherslan á að loka svæðum og koma boltanum burt af hættusvæðum. Eftir því sem leið á hálfleikinn fór þetta svo í kunnuglegt far. Við héldum bolta betur en andstæðingarnir lágu eilítið til baka og reyndu síðan að sækja hratt þegar okkar mönnum varð á í messunni. Það gekk hinsvegar lítið hjá hjá þeim og skyndisóknir þeirra voru flestar frekar máttlitlar. Við náðum heldur ekki að opna þá að ráði eða skapa okkur teljandi færi og markverðir beggja liða áttu náðugan tíma lengst af. Lítið í gangi þar til á 38 mínútu að við misstum boltann klaufalega á miðjunn og Fylkismenn komust upp hægri kantinn þar var boltanum bombað fyrir markið en þar náði enginn til boltans sem barst yfir á vinstri kantinn og eftir barning þar náði Fylkismaður fastri fyrirgjöf inn á markterigshornið nær. Þar kom á fullri ferð Albert Brynjar Ingason og hann afgreiddi boltann snyrtilega í fjærhornið, stöngin inn. Óverjandi fyrir Gunnleif. Fylkismenn þar með komnir yfir, svona um það bil sem okkar menn voru að ná þokkalegum tökum. Svekkjandi. Mínúturnar sem eftir lifðu liðu tíðindalitlar og Blikar náðu ekki að svara fyrir sig áður en ágætur dómari leiksins flautðai til hálfleiks. Staðan í hálfleik því 1-0 Fylki í vil og það verður að segjast að það var ekki verðskuldað.

Stuðningsmenn Blika voru nú ekkert að missa sig í neitt þunglyndi í hálfleiknum. Spáðu flestir betri síðari hálfleik. Allt of margir okkar manna of aðgerðalitlir í fyrri hálfleik og eins og vantaði smá neista til að kveikja í þessu. Afar lítið að gerast fram á við.

Blikar gerðu eina breytinga á liðinu í hálfleik, Arnþór Ari fór af velli og Guðjón Pétur kom í hans stað. Ekki er okkur kunnugt um hvort þetta var taktísk skipting eða vegna meiðsla. En hvort sem var þá var Arnþór ólíkur sjálfum sér og hefur oftast verið atkvæðameiri.

Seinni hálfleikur hófst með látum hjá okkar mönnum og áður en menn voru sestir með kaffið voru okkar menn búnir að valda usla hvað eftir annað og krækja í víti. Blikar þjörmu vel að heimamönnum og náðu boltanum við vítateigshornið og Davíð skundaði inn í teig þar sem einn heimamanna kom og straujaði hann flatan með dyggri aðstoð félaga síns. Klárt víti og úr þvi skoraði Guðjón Pétur af fádæma öryggi. Staðan orðin 1-1 og nú færðist heldur fjör í leikinn. Okkar menn hvergi bangnir og héldu áfram að pressa, fyrirgjafir og horn frá hægri og vinstri og eftir eina hornspyrnu skallaði Höskuldur í slá. Þar munaði mjóu, en þó nógu. Adam var hinsvegar ekki lengi í Paradís og þegar minnst varði var búið að dæma víti á Blika, þegar Gunnlaugur Hlynur hljóp aftan í fyrrnefndan Albert Brynjar. Jafn ósmekklega og það hljómar, þá er varla hægt að mótmæla dómnum. Til þess voru myndatökumenn einfaldlega of vel staðsettir. En Gunnleifur gerði sér lítið fyrir og varði vítið og frákastið í kjölfarið, og Blikar náðu svo að bægja hættunni frá. Vel gert hjá Gunnleifi og hann sýndi í kvöld að hann er í fantaformi.
Gunnlaugi Hlyni til hróss, sem við erum annars allajafna afar sparir á til einstaklinga, skal segja það hér og nú að hann vaknaði til lífsins þegar vítið var dæmt á hann og átti prýðilegan leik það sem eftir lifði leiks. Síðasti hálftími þessa leiks fer hinsvegar ekki sögubækurnar, nema fyrir það að Olli bætti enn leikjametið í meistaraflokki (311) þegar hann kom inn á fyrir Davíð, og liðin sættust að lokum á skiptan hlut.

1 stig kom í hlut Blika í kvöld og það má segja að það hafi verið sanngjörn niðurstaða þó bæði lið hefðu getað stolið þessu eins og leikurinn þróaðist. En mótið er farið af stað og nú ætti mesti skjálftinn að vera farinn úr leikmönnum og því ekki eftir neinu að bíða fyrir þá að fara að búa sig undir að bjóða KR-inga ,,velkomna“ í Kópavogsdalinn n.k mánudag. Ég verð illa svikinn ef það verður ekki meira fjör en í kvöld.
Þá sést úr hverju menn eru gerðir.

Áfram Breiðablik !

OWK

p.s.
Vallaraðstæður voru hinar bestu að sögn leikmanna og má segja að KSÍ hafi fallið á prófinu að láta gráta út þessa frestun. Hverskonar taugaveiklun er það og hvað ætli komi næst? Sveiþví...

Til baka