Kveðja frá Knattspyrnudeild
28.07.2011
Góður félagi, þjálfari og samstarfsmaður knattpyrnudeildar Breiðabliks til margra ára, Guðmundur Helgason lést s.l. fimmtudag.
Guðmundur þjálfaði yngri flokka félagsins á níunda áratug síðustu aldar og gerði m.a. 3ja flokk karla að Íslands- og bikarmeisturum árið 1988. Guðmundur tók svo við þjálfun meistaraflokks karla ásamt Sigurði Þorsteinssyni og þjálfaði meistaraflokkinn keppnistímabilið 1989. Guðmundur Helgason var ekki þjálfari af þeirri tegundinni sem leiðbeinir með hávaða og látum og beitti ekki hárþurrkuaðferðinni margfrægu í sinni þjálfun. Hann nálgaðist hlutina þvert á móti með ró og yfirvegun og taldi hlutina komast betur til skila þannig.
Eftir að Guðmundur hætti þjálfun og hóf eigin atvinnurekstur með rekstri efnalaugarinnar Hreint og Klárt hófst á ný samstarf hans og knattspyrnudeildarinnar. Það samstarf var reyndar með allt öðru sniði en fyrr því nú tóku Guðmundur og hans fólk að sér að sjá um þrif á keppnisbúningum elstu flokka deildarinnar og sáu um það allt þar til félagið gat sjálft farið að sjá um þann þátt starfseminnar. En fram til þess og æ síðan átti deildin svo sannarlega hauk í horni þar sem Guðmundur var.
Útför Guðmundar fer fram frá Kópavogskirkju föstudaginn 29. júlí kl.13:00.
Blessuð sé minning Guðmundar Helgasonar. Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar honum samfylgdina og sendir fjölskyldu hans og vinum innilegar samúðarkveðjur.