BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

KÓRVERKUR FRÁ MELAHEIÐI 5

05.05.2019

Var ég spenntur fyrir leik HK og Breiðabliks laugardaginn 4. maí? Við getum orðað það svo að ég var mættur í miðasöluna í Kórnum fimm mínútum eftir að hún var opnuð þann 1. maí. Þegar hin langþráða stund rann upp stilltu Blikar upp kunnuglegu liði: Gunnleifur í markinu, Elfar Freyr og Damir í hjarta varnarinnar, Jonathan að vísu í vinstri bakverði og Viktor í hægri. Andri Rafn, Alexander og Guðjón Pétur á miðjunni, Aron, Höskuldur og Thomas frammi. Bekkurinn leit líka vel út. Umgjörð HK-inga var frábær, stemmning innanhúss og utan, hamborgarar á grillinu og allt klárt.

Úrslit.net   KSÍ Leikskýrsla

Og þarna sátum við mágarnir spenntir hlið við hlið í stúkunni, tveir öfgasinnaðir Kópavogsbúar. Hann spáði fjögur til fimm núll, ég sagðist vera ánægður með 1-0. Hann var meðal stofnenda HK árið 1970, ég á stofnfundi ÍK sex árum síðar en það ágæta félag rann sem kunnugt er síðar inn í HK. Yngsti sonur minn stóð heiðursvörð meðal Blikadrengja þegar liðin gengu inn á völlinn, sá elsti var þverröndóttur HK-megin í stúkunni. (Miðjudrengurinn brá sér í hlutverk Svía, lýsti yfir hlutleysi og sat heima.) Í stúkunni voru fleiri klofnar fjölskyldur.

Samtvinnuð örlög

Á vellinum höfðu ýmsir leikið beggja vegna víglínunnar. Frægastir vitaskuld Arnþór Ari sem kvaddi okkur Blika í vetur og hélt upp í efri byggðir og Gunnleifur og Damir léku með HK í síðasta deildarleik liðanna sem fram fór fyrir ellefu árum. Þá fóru þeir með sigur af hólmi. Og Viktor var lánsmaður hjá HK árið 2014. Það er því óhætt að segja að örlög liðanna hafa tvinnast saman í gegnum árin.

Þegar flautað var til leiks byrjaði ballið. HK-ingar pressuðu okkar menn af mikilli hörku. Ég hef punktað hjá mér gróft brot á Damir á fyrstu mínútu, Alexander missti boltann á hættulegum stað á þeirri þriðju eftir augljóst brot og á þeirri fjórðu var Höskuldur rifinn fólskulega niður í efnilegri skyndisókn. Leikmenn annars liðsins mættu með öðrum orðum grimmir til leiks. Hinir virtust slegnir út af laginu – eða voru enn ringlaðir eftir öll þessi hringtorg á leiðinni úr Smáranum í Kórinn.

Viðvörunarljós
Viðbrögð okkar manna voru þau að reyna langa bolta fram sem engu skiluðu.

Ég hafði heyrt fyrir leik úr herbúðum HK-manna að ættu þeir að lifa sumarið af yrðu þeir að berjast af krafti í Kórnum, helst hafa teppið skraufþurrt og skrúfa upp í kyndingunni – og gera sér mat úr föstum leikatriðum. Það hefði því ekkert átt að koma Blikum á óvart þetta fallega laugardagssíðdegi þar sem sól skein á Kórinn.

Á 12. mínútu varði Gulli meistaralega skalla – eftir hornspyrnu HK-manna. Þarna hefði hann ekki mátt vera degi yngri. Á 34. mínútu skapaðist aftur stórhætta upp úr horni HK-manna og hefði þá átt að vera farið að loga á öllum viðvörunarljósum. Á 40. mínútu tók Guðjón Pétur eina af sínum frábæru aukaspyrnum sem rataði á kollinn á Höskuldi eftir mistök markvarðar heimamanna en bjargað var á línu. Og undir lok hálfleiksins áttu okkar menn fína sókn sem endaði með því að Höskuldur hitti boltann illa.

Blautar tuskur
Í hálfleik var áhyggjusvipur á stuðningsmönnum Blika en menn voru sannfærðir um að nú myndi liðið gyrða sig í brók, bretta upp ermar, jafnvel hífa upp sokka og mæta til leiks. Þetta hlyti allt að vera að koma.

Leikmenn HK-voru á öðru máli. Þeir skoruðu á fyrstu mínútu seinni hálfleiks – úr föstu leikatriði. Langt innkast, laus bolti í teignum, skot í varnarmann og boltinn lá í netinu. Síminn pípti hjá mér. Skilaboð frá frumburðinum: „Obbobobb!“

Fjórum mínútum síðar kom annað mark – úr horni. Og aftur pípti síminn – nú þumall upp. Aftur liðu fjórar mínútur og þá björguðu Blikar á línu – eftir aukaspyrnu. Og mínútu síðar frír skalli – eftir hornspyrnu HK-manna.

Nú var Ágústi Gylfasyni þjálfara nóg boðið og hann fór að hræra í liðinu. Kolbeinn ungi kom inn fyrir Höskuld og Arnar Sveinn fyrir Aron. Við þetta færðist heldur meira líf í okkar menn, Elfar Freyr tók góða rispu upp völlinn, Jonathan átti skot yfir og aftur geystist Elfar Freyr upp völlinn en skaut framhjá úr efnilegri sókn. Á 63. mínútu var stuggað við Thomasi við vítateiginn og féll hann við með allnokkrum tilþrifum. Alexander skaut naumlega yfir úr aukaspyrnunni.

Stefndi í annan Fjölnisleik?
Það var því farið að færast meira líf í okkar menn. Það var jafnvel eins og þeir væru ekki alveg til í að bíða lægri hlut fyrir heimamönnum. HK-ingar voru á annarri skoðun. Tóku sér góðan tíma í öll innköst, aukaspyrnur – svo maður tali nú ekki um útspörk markmannsins sem fór jafnvel í kaffipásu í miðju tilhlaupi. Þetta fór nokkuð í taugarnar á okkar mönnum sem kostaði gult spjald þegar Jonathan skeytti skapi sínu á boltastrák.

En leikur liðsins var sama marki brenndur og áður – mikið um langar sendingar úr vörninni. Satt að segja minnti þetta mjög á annan leik okkar manna í deildinni þann 8. maí fyrir tveimur árum. Þá töpuðu Blikar fyrir Fjölni í Grafarvoginum eftir að hafa dúndrað boltum úr öftustu víglínu á framherjana í algjöru hugmyndaleysi – en heimamenn skoruðu eina markið. Stefndi í annan slíkan hrylling?

Haltur á báðum
Þegar tíu mínútur voru eftir á klukkunni heyrði ég fyrir aftan mig í stúkunni: „Þetta er svo flatt og leiðinlegt.“ Ekki gat ég andmælt því. Um það leyti kom Brynjólfur Darri inn fyrir Andra Rafn. Þá var eins og meiri ákefð kæmi í okkar menn. Nú virtust þeir hafa áttað sig á því að öllu er afmörkuð stund og leikurinn að verða búinn. En þá var Alexander allt í einu orðinn haltur á báðum, sá sem hafði barist hvað mest af okkar mönnum, stöðvað fjölmargar sóknir HK-manna og dreift spilinu vel. Allar skiptingar voru búnar og ekki um annað að ræða en að klára leikinn. 

Einhvern veginn gat Alexander engu að síður skakklappast inn í teig þegar Arnar Sveinn tók langt innkast á 89. mínútu. Boltinn barst til þess tvíhalta og hann skallaði á Thomas sem skoraði algjörlega fumlaust.

Stympingar og gul spjöld
Nú gat ég ekki betur séð en allt Blikaliðið væri loksins komið í gang. En markmaður HK var ekki á því að það lægi á að hefja leik að nýju og varnaði því að okkar menn gætu komið boltanum á miðjupunktinn. Urðu allnokkrar stympingar í netinu og gul spjöld fóru á loft. Þarna var komið fram á 90. mínútu og allt á suðupunkti. HK-menn mjólkuðu öll tækifæri til að tefja. Hnigu niður örendir – að því er virtist – en spruttu síðan alheilir á fætur skömmu síðar. Brotið var á heimamanni úti á miðjum velli. Bliki reyndi að styðja hann á fætur eins og miskunnsömum Samverja sæmir en þá birtist annar HK-ingur sem reyndi að toga félaga sinn aftur niður.

Okkar menn voru hins vegar staðráðnir í því að láta ekki HK-mönnum eftir montréttinn í griðlandi barna og blóma og uppskáru jöfnunarmark á lokasekúndu uppbótartíma og var Viktor þar að verki. 

Eftir leik var nokkur hiti í mönnum en samkvæmt dagbók lögreglunnar urðu engin frekari eftirmál af því. Liðin deildu þannig með sér stigunum í þessum kaflaskipta leik þar sem annað liðið fór ekki í gang fyrr en á um það bil 80. mínútu.

Óþolandi yngri systkini
Hvað skildi liðin að? Ég tel – sem rétt er – að þar beri sálmatónskáldið góða Þorkell Sigurbjörnsson nokkra ábyrgð.

Í árdaga ÍK á Heiðarvelli var hann nýfluttur í kastala sem hann byggði á Melaheiði 5. Nokkrum árum síðar pantaði Dómkórinn í Reykjavík verk hjá honum og samdi hann þá perluna Áminningu við texta úr Fyrra almenna bréfi Péturs (5:8-11). Kannski datt hann niður á þennan texta þar sem hann horfði á okkur leika þann sambabolta sem við ÍK-ingar áttunda áratugarins vorum þekktir fyrir. Verkið hefst á þessari hvatningu: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“

Í þessu tilviki er djöfullinn vitaskuld andvaraleysið. Og ég held að andvaraleysið hafi orðið okkar mönnum að falli (eða jafntefli) á laugardaginn. Það læðist að manni sú tilfinning að stóri bróðir hafi litið svo á að litla systir yrði ekki mikil hindrun. En eins og kunnugir hafa sagt mér geta yngri systkini verið gjörsamlega óþolandi. (Þar sem ég á sjálfur engin yngri systkini set ég ákveðinn fyrirvara við þessa kenningu).

„Styrkja og öfluga gjöra“
Þorkell hefur séð út um gluggann úr kastalanum að þegar menn eru ekki tilbúnir í slaginn á heimavelli ÍK getur farið illa, djöfullinn sjálfur gleypt heilu liðin. Andi verksins hefur smitast yfir á Heiðarvöll 20. aldar og þaðan flust alla leið til HK upp í Kór 21. aldarinnar. Í lok Áminningar birtist aftur á móti vonin. Eftir að hafa þjáðst mun Guð – í þessu tilviki baráttuandinn og sigurviljinn – „fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra.“

Næsti leikur Blika í deildinni er við Víking – hvar svo sem sú ágæta viðureign kann að fara fram. Þá er brýnt að okkar menn hafi fest sér boðskap sálmatónskáldsins á Melaheiði 5 í minni, verði algáðir og vakandi, kórverkið verði mönnum ofarlega í sinni – þeir verði ekki með Kórverk – og mæti á fyrstu mínútu til leiks en ekki á þeirri 81. Og enn mikilvægara verður að hefna þessara ófara í bikarleiknum gegn HK nú í lok maí.

Þess ber að geta að við feðgar deildum ekki bíl á leiðinni heim.

PMÓ

Inná vellinum - samantekt frá BlikarTV

Til baka