BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kominn tími á breytingar!

15.09.2013

Blikar mæta Frömurum á Kópavogsvelli á morgun mánudag 16. September kl.17.15.

Uppkera síðustu umferða hefur verið frekar rýr og nú verða drengirnir okkar að girða sig í brók. Einkum þegar horft er til þess að árangur okkar gegn Safamýrarpiltum undanfarin á hefur verið mjög slakur.  Við höfum ekki unnið Fram í efstu deild síðan 2008! Já, síðan 2008 þegar við unnum þá á Kópavogsvelli 3:0 með tveimur mörkum frá Marel Baldvinssyni og einu frá Alfreði Finnbogasyni.

Í undanförnum þrettán viðureignum hafa Framarar sigrað okkur sex sinnum, sex sinnum hefur orðið jafntefli og aðeins einu sinni höfum við farið með sigur af hólmi, eins og áður sagði. Fyrri leikurinn í ár endaði með jafntefli þar sem Olgeir Sigurgeirsson jafnaði metin á lokamínútunum. Svo má ekki gleyma hinu svekkjandi tapi í undanúrslitum bikarkeppninnar.

Þetta eru auðvitað ekki ásættanleg úrslit og við vitum að Blikastrákarnir eru sammála því.

Við endurheimtum þá Finn Orra, Rohde, Þórð Steinar og Renee úr banni  þannig að Ólafur þjálfari getur teflt fram okkar sterkasta liði.

Stuðningur áhorfendur hefur dalað í takt við árangurinn úti á vellinum en við megum ekki láta deigan síga.

Enn er möguleiki að við getum tryggt okkur Evrópusæti en það tekst ekki nema með sameiginlegu átaki leikmanna, þjálfara, forráðamanna og áhorfenda. Það er því ekki úr vegi að láta lokaorðin úr lýsingu OWK á síðasta leik verða okkur innblástur fyrir þenna leik;

 “Næsti leikur er á mánudag gegn Fram og hefst kl. 17:15 og ég skal hundur heita og roð éta ef menn mæta til leiks gegn Fram eina ferðina enn án þess að ná úrslitum. 3 stig og ekkert minna. Við erum nefnilega ekki búin að gefa upp alla von og höfum enn trú á að okkar menn geti blandað sér í baráttu um sæti 2-3. En það er til lítils fyrir okkur vesæla að trúa ef leikmennirnir trúa ekki sjálfir. Þetta byrjar og endar hjá þeim.”

-AP

Til baka