BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kolbeinn líklega til Belgíu

29.07.2019

Viðræður hafa staðið yfir í töluverðan tíma á milli belgíska 1. deildarliðsins Lommel og Breiðabliks um kaup fyrrnefnda liðsina á miðjumanninum öfluga Kolbeini Þórðarsyni.

Breiðablik hefur nú heimilað Lommel að ræða við leikmanninn og mun koma í ljós á næstu dögum hvort af vistaskiptum verður.

Leikmaðurinn heldur nú yfir hafið til skrafs og ráðagerða við forráðamenn liðsins.

Eins og flestir vita hefur Lommel nýlega ráðið Íslendinginn Stefán Gíslason sem þjálfara og einnig hefur það nýlega fengið til sín bakvörðinn snjalla Jonathan Hendrickx frá okkur Blikum. Þess á einnig geta að Stefán þjálfaði Kolbein hjá 2. flokki Breiðabliks og þekkir því hæfileika þessa baráttuglaða miðjumanns.

Niðurlönd hafa reynst mörgum Blikum góður stökkpallur til frekari afreka á knattspyrnusviðinu. Þar má nefna frábæra leikmenn eins og Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finbogason og Arnar Grétarsson sem allir hófu atvinnumannaferil sinn í þeim löndum.

Til baka