BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Klúður

04.07.2016

Leikur Blika Gegn ÍBV í 8 – liða úrslitum Borgunarbikarsins fór fram í kyrrþey í gær.
Það voru fínar aðstæður í dalnum, norðvestan gola og sól skein í heiði. Hiti c.a. 14 °C og völlurinn sallafínn.
Áhorfendur sorglega fáir og Kópacabana sveitin sem auglýst var eftir um daginn er víst í Frakklandi að hvetja landsliðið og var því illa fjarri sem fyrr.

Blikar gerðu fjórar breytingar frá leiknum gegn FK Jelgava í vikunni.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Sveinn Aðalsteinsson(F) - Viktor Örn Margeirsson - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Ellert Hreinsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Daniel Bamberg - Sólon Breki Leifsson
Varamenn:
Aron Snær Friðriksson (M) - Arnþór Ari Atlason - Damir Muminovic - Óskar Jónsson - Alfons Sampsted - Ágúst Eðvald Hlynsson - Jonathan Glenn

Sjúkralisti: Atli Sigurjónsson - Guðmundur Atli Steinþórsson - Höskuldur Gunnlaugsson
Leikbann: Enginn

Þetta var einkennilegur leikur svo ekki sé meira sagt. Blikar réðu algerlega gangi leiksins fyrstu 45 mínútur og það er satt að segja langt síðan ég hef séð lið liggja jafn mikið til baka og ÍBV gerði í fyrri hálfleik. Það var kannski 4 sinnum sem þeir sóttu á okkar mark en úr þessum 4 sóknum fengu þeir samt 2 mjög góð færi sem fóru forgörðum. Við vorum hinsvegar með boltann 80% en áttum aðeins 2 góð færi áður en Gísli Eyjólfsson skoraði frábært mark undir lok fyrri hálfleiks.

En staðan í hálfleik semsagt 1-0 fyrir Blika og ekki hægt að segja að það væri ósanngjarnt.

Í hálfleik var aðallega rætt um markið hans Gísla enda var það sannkallað augnakonfekt og svo var það marg endursýnt í sjónvarpinu á meðan pöpullinn skolaði snúðunum niður með kaffi og djús.

Og svona u.þ.b. 90 sekúndum eftir að síðari hálfleikur fór í gang voru Blikar komnir í 2-0 eftir ágæta sókn þar sem boltinn barst að lokum á Arnór Svein sem tók knöttinn af yfirvegun og lyfti honum upp í þaknetið. Vel gert og Blikar komnir í vænlega stöðu.
En þessi Adam var ekki lengi í Paradís því nú tók við níu mínútna kafli þar sem Blikar klúðruðu þessum leik á óskiljanlegan hátt. Fyrst gáfum við óþarfa horn þegar 3 Blikar voru um knöttinn en töluðu ekki saman. Úr horninu kom svipað mark og fyrsta mark Lettanna um daginn. Óvaldaður maður á fjærstöng. Mark númer tvö var ekki skárra. Misheppnuð spyrna frá Gulla beint á leikmann ÍBV. Varnarmenn okkar ekki tilbúnir og í markinu lá boltinn. Spyrnan var vissulega misheppnuð en sama er, þessu áttum við að geta varist enda 4 varnarmenn okkar á móti 4 leikmönnum gestanna. Og það var ekki búið því örskömmu síðar komust gestirnir inn í teig hjá okkur og einn gestann komst í gott færi með einfaldri gabbhreyfingu og þrumaði boltanum í nærhornið. Staðan skyndilega orðin 2-3 og nú var á brattan að sækja.

Og það var nú þannig í gær að Blikar voru ekki líklegir til að ná marki eftir þetta. Aldrei. Virtust missa hausinn algerlega og gerðu sig seka um fjölda pirringsbrota og þá er yfirleitt lítið um árangurríkan fótbolta. Enda fór það svo að gestirnir sigldu þessu heim átakalítið þó enn væru 30 mínútur eftir af leiknum. 30 mínútur, segi og skrifa.
Þetta er ekki ásættanlegt og verður að laga. Hvað veldur að menn missa hausinn svona gersamlega tvö leiki í röð?

Á sama tíma og liðið verður að þola harða gagnrýni er mikilvægt að menn fari ekki á taugum Nú verða menn að halda hausnum köldum og líta í eigin barm, hvort sem það eru leikmenn, þjálfarar eða aðrir sem koma nálægt liðinu og finna hvað veldur, í sameiningu. Menn verða að taka ábyrgð. Annars eru tóm leiðindi framundan og við erum ekki í þessu fyrir þau.

Það er óhætt að segja að þessi leikur hafi fallið algerlega í skuggann af Íslands gegn Frökkum í 8 liða úrslitum á EM og það er ljóst að PEPSI deildin og Borgunarbikarinn 2016 hafa verið rækilega gengisfelld af KSÍ með því að halda þessum leikjum til streitu mitt í öllu EM fárinu. Það er enginn áhugi á þessum leikjum og engin mæting og það sem verra er að mikill fjöldi þeirra stuðningsmanna sem alla jafna mætir á leiki hér heima, að ekki sé talað um sjálfboðaliðana, eru fjarverandi að fylgjast með okkar mönnum á EM. Og ég lái þeim ekki. Ísland í fyrsta sinn á stórmóti og KSÍ ákveður bara að dagskráin haldi áfram hér heima, eins og ekkert sé. Þetta er náttúrulega alveg galið.
Hver ber fjárhagslegan skaða af fjarveru áhorfenda og stuðningsmanna?

Næsti leikur okkar manna er útileikur gegn FK Jelgava í Evrópudeildinni n.k. fimmtudag. Ég er nú svoddan bjartsýnismaður að ég hef fulla trú á að okkar menn þjappi sér saman og snúi nú dæminu við og nái góðum úrslitum ytra. Hvort það muni svo duga til áframhalds kemur í ljós en það er ekki eftir neinu að bíða.

Áfram Breiðablik!

OWK

Umfjallanir annarra netmiðla

Til baka