BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kalli Steingríms fallinn frá

19.03.2024 image

Í dag er fyrrum leikmaður og formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, Karl Steingrímsson, borinn til hinstu hvílu. Karl, eða Kalli Steingríms eins og hann var oftast kallaður, gekk til liðs við okkur Blika sem leikmaður árið 1971 frá uppeldisfélaginu sínu KR. Hann lék tólf leiki með okkur næstu þrjú árin. En það var ekki fyrr en tæpum tíu árum síðar sem Karl setti svip sinn á deildina af alvöru þegar hann tók við sem formaður knattspyrnudeildar árið 1982.

Karl innleiddi töluvert af breytingum í stjórnunarstíl deildarinnar og má segja að knattspyrnudeildin hafi stigið stór skref inn í framtíðina í rekstri. Margir öflugir einstaklingar tóku sæti í stjórninni og má færa rök fyrir því að deildin búi enn að þeirri fagmennsku sem Karl lagði grunninn að með formennsku sinni. Þrátt fyrir að Karl hafi bara gegn formennsku í eitt ár þá var hann viðloðandi rekstur deildarinnar næstu árin.

Hann var til dæmis mikill stuðningsmaður knattspyrnu fyrir konur og tók meðal annars þátt í því að koma Símamótinu á legg, sem þá hét Gull og Silfurmótið. 

Mynd: Karl var formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1982 þegar meistaraflokkur kvenna vann öll mót sem liðið tók þátt í bæði hérlendis sem erlendis.

Þrátt fyrir að hafa ekki komið oft á völlinn hin síðari ár þá fylgdist hann ætlið vel með gengi Blikaliðsins og var mjög stoltur þegar Breiðablikskonur og karlar unnu Íslands- og bikarmeistaratitla.

Blikar.is senda fjölskyldu Karls og vinum innilegar samúðarkveðjur vegna fráfalls þessa snjalla knattspyrnumanns. Karl átti sinn þátt í því að gera Breiðablik að því stórveldi sem það er í dag.

Útför Karls fer fram í Hallgrímskirkju í dag, þriðjudag, kl.13:00. 

Til baka