BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kaflaskipt gegn ÍBV

23.06.2019

10. umferð Pepsi Max deildarinnar hófst í dag þegar Eyjamenn sóttu okkur Blika heim í einmuna blíðu. Hiti var svo sem ekki til vandræða, en slagaði þó hátt í 12 °C,  í glaða sólskini og hægri norðvestan golu. Gengi liðanna hefur verið gjörólíkt í deildinni til þessa. Blikar í 2. sæti með 19 stig fyrir leikinn en Eyjamenn í botnsætinu með 5 stig. En Eyjamenn eru ávallt hættulegir, sama hvar þeir eru í deildinni. Það vita fáir betur en við Blikar.
Stúkan var óvenju þunnskipuð í dag og skv. opinberum tölum náði áhorfendatalan ekki yfir 800. Ef mér skjöplast ekki er það rétt rúmlega helmingur þess sem verið hefur að meðaltali í sumar. En kannski var samkomubresturinn ekki svo óvæntur þegar litið er til leiktímans. Laugardagar eru almennt ekki góðir leikdagar um hásumar.

Leikskýrsla KSÍ        Af úrslit.net

Blikar með þrjár breytingar á byrjunarliði frá leiknum gegn Stjörnunni. Davíð Ingvarsson kom inn í bakvörðinn fyrir meiddan Arnar Svein, Alexander Helgi kom inn fyrir Guðjón Pétur, sem var í banni og Aron kom inn í stað Höskuldar. Stjörnusigurinn s.l. þriðjudag enn í fersku minni Blika sem hafa brosað samfellt síðan. En það tók fríska Eyjamenn ekki nema 6 mínútur að þurrka mesta glottið af okkur og reyndar má segja, þegar maður fer betur yfir það, að frá fyrstu mínútu hafi angistin verið í fyrirrúmi stuðningsmanna Blika og fylgifiskur hennar, ónotahrollurinn, hríslaðist um búkinn án afláts. Eyjamenn tóku leikinn strax í sínar hendur og réðust eins og gammar á okkar menn. Innan við mínútu frá upphafsspyrnu voru þeir búnir að fá hornspyrnu og heimtuðu svo vítaspyrnu eftir klafs í teignum. Ekki gott að segja hvað gerðist, en hvað svo sem það var þá hefði undirritaður aldrei dæmt víti. Skömmu síðar munaði minnstu að Blikar næðu að skora eftir mistök markvarðar gestanna, sem bara missti boltann eins og blautt sápustykki, úr höndunum, en Eyjamenn náðu að bjarga. Á næstu mínútu lá boltinn svo í netinu hjá Gulla og enn var það eftir svaðaleg mistök okkar manna. Þetta var svona eins og í Fylkisleiknum, menn náðu engum takti og voru stundum að reyna að fara erfiðu leiðina inn í leikinn í stað þess að spila einfalt og halda gestunum frá markinu. Aðdragandinn var í stuttu máli sá að boltanum var spyrnt upp að vítateigshorni okkar manna og þar mætti Elfar Freyr til að hreinsa upp. Í stað þess að koma boltanum bara í burtu, reyndi hann, undir pressu, erfiða sendingu inn á miðjuna á Alexander Helga. Sendingin mistókst og þó Alexander næði að krafsa aðeins í boltann var það eyjamaður sem hirti hann og sá lét bara vaða á markið af 30-35 metra færi og boltinn steinlá í netinu. Sennilega óverjandi fyrir Gulla. Staðan orðin 0-1 fyrir gestina og þetta kom alls ekki á óvart því Blikar virkuðu mjög óöruggir og utan við sig. Eyjamönnum óx ásmegin við þetta, þjörmuðu hressilega að okkar mönnum og létu finna vel fyrir sér. Þeir unnu flest öll návígi og sérstaklega vorum við slappir í loftbardögunum. Töpuðum þeim iðulega. Það sem eftir lifði hálfleiksins var fátt um fína drætti lengst af. Blikar fengu þó gott færi þegar Aron slapp inn fyrir vörnina en hann féll við og náði svo ekki almennilegu skoti þegar hann komst aftur á fætur. Engu að síður góð tilraun. Gestirnir komust upp með nokkur ljót brot og m.a. svaðalega tveggja fóta tæklingu á Kolbein sem dómarinn lét alveg afskiptalausa. Magnað. Kolbeinn var draghaltur eftir þetta en hélt þó áfram eftir aðhlynningu. Barningurinn hélt áfram og liðin skiptust á að taka horn og fríspörk en það var fátt sem benti til þess að það væri mark í kortunum fyrir leikhlé. En þegar síst varði urðu gestunum á afdrifarík mistök rétt fyrir lok hálfleiksins. Markvörður þeirra hugðist hreinsa frá en sú sem betur fer misheppnaða hreinsum endaði hjá Andra Rafni og hann kom boltanum á Kolbein sem lúrði rétt utan vítateigs. Hann komst inn í teig óáreittur og skoraði með góðu skoti sitt fjórða mark í deildinni. Staðan orðin 1-1 og það var nú eiginlega framar vonum eftir mjög dapra frammistöðu okkar manna í fyrri hálfleik.

Sitthvað var skrafað í hálfleikskaffinu sem rann ljúflega niður með ferskum ávöxtum og allskonar fínerís bakkelsi. Það var eitthvað annað en spilamennskan. Þar var fátt um fína drætti að mati manna en þó ekki alveg vonlaust að það myndi lagast í seinni hálfleik úr því við náðum að jafna svona á síðustu stundu. Annars var þetta mjög hljóð stund og nú var enginn að tala um Stjörnuleikinn.

Blikar skora mikið þessa dagana og því töluverður ágangur í nammipokann góða. 

Blikar gerðu breytingu í hálfleik. Elfar Freyr yfirgaf sviðið í sínum 250. mótsleik með Blikum og Guðmundur Böðvar kom í hans stað. Óstaðfestar heimildir herma að Elfar hafi kennt sér meins.

Síðari hálfleikur hófst á keimlíkum nótum og sá fyrri. Eyjamenn komu á fljúgandi ferð og settu okkar menn strax undir pressu og hún hélt í nokkrar mínútur eða allt þar til Davíð Ingvarsson tók til sinna ráða og réðist á þá nánast einn síns liðs. Hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi og tók á rás upp alllan völlinn, lék framhjá nokkrum eyjamönnum og komst inn í teiginn en föst sending fyrir markið rataði ekki á samherja en það munaði litlu. Davíð átti fínan leik í dag. Við þetta var eins og Blikar áttuðu sig því nú breyttist þessi leikur eins og hendi væri veifað og okkar menn fóru að herja á gestina af krafti og það bar ávöxt skömmu síðar þegar Andri sendi á Aron sem tók sprettinn inn í teig. Hann komst framhjá varnarmanni og sendi fastan bolta fyrir markið, en þar var varnarmaður gestanna fyrstur í boltann en sendi hann rakleitt í eigið mark áður en Thomas náði til knattarins. Það mátti einu gilda, Blikar komnir yfir, 2-1.

Helgi Viðar frá BlikarTV var með myndavelina á vellinum í dag

Næstu mínútur var bara eitt lið á vellinum og sóknirnar buldu á gestunum. Brynjólfur kom inn fyrir Alexander á 70 mínútu eða þar um bil og enn sóttu Blikar. Enn heimtuðu eyjamenn víti, en það var fjarri lagi og hafi verið brot, sem ekki er gefið, þá var það allvega utan vítateig, Blikar skoruðu svo sitt 3ja mark skömmu síðar og það var af dýrari gerðinni. Damir sendi langa sendingu upp að vítatiegshorni vinstramegin, og þar kom Aron á ferðinni og lék að teignum . Svo klobbaði hann einn varnarmann um leið og hann hoppaði framhjá honum og brunaði því næst með boltann upp að endamörkum án þess að eyjamenn fengju rönd við reist. Þaðan sendi hann fastann bolta fyrir markið, beint á Thomas sem þrumaði boltanum upp í þaknetið. Búmm! 3-1 fyrir Blika og kættist nú stúkan.

Blikar voru hvergi hættir og voru nú komnir í mikið stuð á sama tíma og gestirnir virtust alveg missa móðinn. Kolbeinn, Aron, Jonathan og Thomas í tvígang með flottar marktilraunir. Eyjamenn ekki alveg dauðir úr öllum æðum náðu að lauma sér í vænlega sókn en skölluðu í slá. Viktor Karl kom inn fyrir Andra og var fljótur að láta að sér kveða og náði góðu skoti sem var varið. Semsagt líf og fjör síðustu mínúturnar þó úrslitin virtust ráðin. Blikar fengu svo sannkallað dauðafæri þegar Aron var einn inni í teig og lék vörn gestanna grátt en skaut í stöng fyrir opnu marki. Brynjólfur hirti frákastið og skoraði en var réttilega dæmdur rangstæður. Eyjamenn áttu svo næst síðasta færi leiksins þegar þeir fengu aukaspyrnu rétt við vítateig Blika en fast skot fór naumlega framhjá. Síðasta færi leiksins áttu hinsvegar Blikar þegar Guðmundur Böðvar skallaði yfir markið í álitlegu færi.

Fleira gerðist ekki og Blikar tylltu sér á toppinn með 22 stig. Það er fínn staður til að vera á en það þarf að gera mikið betur en í dag til að það verði lokastaðan í haust. Svona fyrri hálfleikur einsog í dag, að maður tali nú ekki um hörmungina á móti Fylki, dugar ekki í þann leiðangur. Það er svo einfalt.

Jonathan Hendrickx lék í dag sinn 50. og síðasta mótsleik fyrir Blika og fékk verðskuldað klapp í leikslok. Jonathan hefur verið flottur í grænu treyjunni og hans verður saknað. Vonandi verður fyllt í skarðið.

Næsti leikur Blika er gegn Fylki í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar. Hann er á Kópavogsvelli n.k. fimmtudag og hefst kl. 19:15.
Ég ætla rétt að vona að leikmenn mæti tímanlega og tilbúnir í þann leik og láti ekki Fylkismenn stjórna leiknum. Við fengum nóg af því um daginn, svo það sé bara sagt tæpitungulaust.

Áfram Breiðablik.

OWK

Umfjallanir netmiðla.

Visir.is - mörkin úr leiknum

Til baka