BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kaflaskil þegar Óskar Þorvaldsson kveður Breiðablik

10.10.2023 image

Stjórn Knattspyrnudeildar Breiðabliks tilkynnti eftir síðasta leik Bestu deildar karla að Óskar Þorvaldsson hefði látið af störfum sem þjálfari liðsins og Halldór Árnason verið ráðinn í hans stað.

Óskar var ráðinn til félagsins 5.október 2019 og vakti ráðningin talsverða athygli, ekki síst fyrir þá sök að hann var þá nýbúinn að stýra meistaraflokki Gróttu upp í efstu deild, í fyrsta sinn. Enn fremur töldu margir sparkspekingar Blika taka talsverða áhættu með að ráða til þess að gera óreyndan þjálfara til að taka næsta skref með okkar lið.

Óskar var ekkert að tvínóna við hlutina og hélt fund með stuðningsmönnum þar sem hann lýsti í grófum dráttum hvernig fótbolta hann og Halldór ætluðu að láta liðið spila, til að þróa það áfram. Og hann bað fólk sýna því skilning þó spilamennskan myndi kosta nokkur mörk, því það myndi hún óhjákvæmilega gera á meðan verið væri að slípa þetta til og sníða af mestu hnökrana. Óhætt er að segja að spilamennskan hafi verið nýstárleg og sannarlega reynt á taugar og langlundargeð áhangenda jafnt sem leikmanna, því nóg var af gjafamörkum, og sérstaklega framan af. En til að gera langa sögu stutta má segja að með þessu uppleggi hafi Óskari tekist að lyfta Blikaliðinu upp á þann stall sem honum varð tíðrætt um með því að ná lengra í Evrópukeppni en áður hafði tekist, og jafnframt að krækja í Íslandmeistaratitilinn á sannfærandi hátt.

Liðið hefur lengst af spilað skemmtilegan fótbolta og glatt áhorfendur með djarfri spilamennsku, og ólíkt því sem flest íslensk lið hafa oftast gert í viðureignum við sterk erlend lið í áratugi hafa Blikar verið óhræddir við að halda boltanum og spila sóknarbolta, í stað þess að hlaða grjótgarð á eigin vallarhelmingi. Margir urðu til að gagnrýna þennan leikstíl, og stundum komu skellir, en sú staðreynd að Blikar ruddu mörgum hindrunum úr vegi og komust fyrstir íslenskra karlaliða í riðlakeppni UEFA hefur kveðið þá gagnrýni í kútinn.

Allt Breiðabliksfólk hefur verið stolt af þessu liði og nú þegar Óskar hverfur til annarra verkefna vill ritstjórn Blikar.is óska honum velfarnaðar og þakkar honum fyrir vel unnin störf hjá félaginu.

Áfram Breiðablik.

image

Til baka