BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jason Daði og Ágúst Hlyns sáu um KR

25.11.2023 image

KR-ingar voru ekki mikil fyrirstaða fyrir fríska Blika í BOSE mótinu í gærkvöldi. Lokatölur voru 6:1 fyrir þá grænklæddu og skoruðu bæði Jason Daði og Ágúst Hlyns þrennu í leiknum. Þetta var fín æfing fyrir Evrópuleikinn mikilvæga gegn Maccabi Tel Aviv á fimmtudaginn. Eins og tölurnar gefa til kynna er himinn og haf á milli þessara tveggja liða á þessum tímapunkti. Vesturbæjarliðið er nýbyrjað að æfa og er þar að auki með nýjan þjálfara. Blikaliðið er hins vegar í góðri leikæfingu enda tveir Evrópuleikir eftir af tímabilinu. Jason Daði fór mikinn í fyrri hálfleik og var hann búinn að skora þrennu eftir rúmlega hálftímaleik. Staðan því 3:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhléi. Gestirnir minnkuðu muninn í 3:1 fljótlega í síðari hálfleik en þá tók Ágúst Hlynsson til sinna ráða. Hann setti þrjú mörk á um fimmtán mínútum, það síðasta úr vítaspyrnu á 85. mínútu. Blikaliðið virkaði ferskt í leiknum. En það fær mun meiri mótspyrnu gegn Ísraelsmönnununum í Evrópuleiknum. Með góðum stuðningi getur hins vegar allt gerst og hver veit nema við fáum fyrstu stigin okkar á Laugardalsvelli á fimmtudaginn!

-AP

Til baka