BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Iðnaðarsigur á Gróttu!

16.02.2019

Blikar unnu góðan 3:0 sigur á Gróttu í fyrsta leik Lengjubikarsins árið 2019. Sigurinn var þó ekki auðfenginn því Seltirningar börðust vel allan leikinn og létu okkur hafa fyrir þessum þremur stigum. Alexander Helgi hélt upp á nýjan þriggja ára samning og setti tuðruna tvisvar í netið. Þriðja markið gerði Brynjólfur Darri eftir hrikaleg varnarmistök þeirra bláklæddu.

Byrjunarlið: KSÍ leikskýrsla.

Grótta byrjaði með miklum látum og pressaði Blikaliðið mjög framarlega. Við áttum í smá erfiðleikum að spila boltanum út úr vörninni en án þess þó að gestirnir næðu að skapa sér einhver alvöru færi. En smám saman fór að draga af Gróttumönnum og kom því ekki á óvart að Blikar náðu forystunni rétt fyrir leikhlé. Markið skoraði Alexander Helgi með mikilli seiglu með góðu skoti utan úr teignum.

Klippur úr leiknum í boði:

Margir áhorfendur töldu að þar með myndu Blikar ganga á lagið og valta yfir 1. deildarliðið. En Gróttan kom með miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og við vorum ekki að ná að opna vörnina hjá þeim. En á sama tíma komust þeir bláklæddu lítið áleiðis gegn sterkri Blikavörninni. Nokkur harka var í leiknum og virtist það fara í taugarnar á gestunum að við svöruðum í sömu mynt þegar þeir fóru í harkalegar tæklingar. Andstæðingar okkar verða að gera sér grein fyrir þvi að það er liðin tíð að við Blikar sýnum hina kinnina þegar að okkur er vegið! Aðstoðarþjálfari Seltirninga áttaði sig ekki á því og fékk að líta rauða spjaldið um miðjan seinni hálfleik.

Hrikaleg varnarmistök Gróttunnar um miðjan hálfleikinn gerði hins vegar út um leikinn. Varnarmaður sendi glæfralega sendingu aftur á markvörðinn og boltinn small í stönginni. En Brynjólfur Darri var fljótastur að átta sig og klobbaði markvörðinn með föstu skoti. Vel gert hjá þessum efnilega sóknarmanni.

Þriðja markið gerði síðan Alexander Helgi snyrtilega eftir góða sendingu Brynjólfs Darra inn fyrir vörn Gróttunnar. Eftir þetta var einungis eitt lið á vellinum. Við vorum í raun klaufar að bæta ekki við fleiri mörkum en stigin þrjú voru löngu komin í hús.

Nýju leikmennirnir Viktor Karl, Kwame Quee og Þórir eru ekki orðnir löglegir með Blikaliðinu og spiluðu því ekki í dag. En það var reglulega gaman að sjá Andra Rafn Yeoman koma inn á í síðari hálfleik í sínum fyrsta leik á þessu tímabili.

Næsti leikur verður líklegast erfiðari. Þá mætum við félögum okkar úr Fossvoginum.

Víkingar mæta í Fífuna eftir viku þ.e. laugardaginn 23.febrúar. kl.11.00.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!


 

Til baka