BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

ÍBV – Breiðablik í PEPSI sunnudaginn 9. júlí kl. 17:00

06.07.2017

Breiðabliksliðið fer á erfiðan útivöll þegar Blikar mæta ÍBV í Pepsi-deildinni á Hásteinsvelli á sunnudaginn klukkan 17:00.

Eyjamenn hafa verið grimmir undanfarið. Unnu góðan heimasigur á KR um daginn og slógu lið Víkinga Reykjavík út í 8 liða úrslitum Borgunarbikarsins um síðustu helgi með sigurmarki frá fyrrverandi leikmanni Blika, Arnóri Gauta Ragnarssyni.

Staða liðanna í deildinni er að ÍBV er með 10 stig, einu sæti neðar en Blikar ein eiga leik inni.

Leikur ÍBV og Breiðabliks á sunnudaginn er annar leikur liðanna á þessu ári. ÍBV vann 2-3 sigur í 1. umf Fótbolta.net mótsins 14. Janúar 2017. Nánar um leikinn.

Í 9 efstu deildar viðureignum Breiðabliks og ÍBV á Hásteinsvelli frá árinu 2006, eftir að Blikar koma aftur upp í efstu deild eftir 4 ár í næst efstu deild, hafa Blikar unnið 3 leiki, ÍBV 2 leiki og 4 leikjum hefur lyktað með jafntefli. Nánar.

"Eyjamaðurinn"

Olgeir Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari Blika er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann kom í heiminn árið 1982 og byrjaði ungur að sparka bolta. Hann spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki ÍBV árið 1999 aðeins 17 ára að aldri. Olgeir gekk síðan til liðs við okkur Blika árið 2003 og er í dag leikjahæsti leikmaður meistaraflokks frá upphafi. Hann lék 321 leiki með okkur Blikum og skoraði í þeim 39 mörk. Olgeir er enn að og spilar með dótturfélagi okkar, Augnablik, í 4. deildinni.

Sagan

Breiðablik og ÍBV hafa mæst 89. sinnum í opinberri keppni. Þar til viðbótar eru margir óskráðir leikir í svonefndri Bæjarkeppni liðanna sem var leikin heima og heiman vor og haust. Keppnin hófst í kjölfar eldgossins í Eyjum enda góður vinskapur á milli Kópavogs og Vestmannaeyja.

Allra fyrsti leikur liðanna var æfingaleikur við ÍBV í Vestmannaeyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga sín fyrstu skerf á knattspyrnuvellinum, en knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð árið 1957.

Í efstu deild eiga liðin að baki 54 leiki. Tölfræðin úr þeim leikjum alveg jöfn því hvort lið hefur sigrað 21 leik og jafnteflin er 12. Nánar.

Eyjamenn eru erfiðir á heimavelli enda Hásteinsvöllur næst erfiðasti útivöllur fyrir Blika að heimsækja á eftir Akranesvelli.

Í 27 efstu deildar leikjum gegn ÍBV á Hásteinsvelli frá upphafi hafa Blikar unnið 7 sinnum, tapað 12 sinnum og gert 8 jafntefli. Nánar.

ÍBV fellur um deild haustið 2006 – árið sem Blikar koma upp í efstu deild eftir nokkur á í næst efstu deild. Blikar með mikilvægan 0-1 sigur á ÍBV það ár með marki frá Marel Baldvinssyni. Nánar um leikinn 2006.

Árið 2009 er ÍBV liðið aftur komið meðal þeirra bestu. Blikar vinna 0-1 með marki frá Alfreð Finnbogasyni. Nánar um leikinn 2009.

Síðan 2009 eru jafnteflin 4 í 8 leikjum og 2 töp.

Fyrri tapleikurinn var árið 2013 og tapaðist sá leikur 4-1 sem var fullstór sigur heimamanna í leik sem bauð upp á margt. Nánar um leikinn 2013.

Hinn tapleikurinn var 2015 en þá unnu Eyjamenn 2-0 baráttusigur á Blikum. Nánar um leikinn 2015.

Í fyrra gerðu Blikar góða ferð til Eyja og sigldu 3 stigum í (Landeyja)höfn. Leikuinn vannst 0-2 með mörkum á 3. gg 6. mínútu leiksins. Ellert Hreinsson skoraði fyrra markið. Síðara markið er skráð sem sjálfsmark eftir að aukaspyrna Daniels Bamberg fór af stönginni í markmanninn og í netið. Nánar um leikinn 2016.

Leikur ÍBV og Breiðabliks verður á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum sunnudaginn 9. júlí klukkan 17:00.

Veðurspáin er frábær!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka