BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Í stuði með puði

08.06.2015

Blika beið verðugt og spennandi verkefni í 7. umferð PEPSI deildarinnar þegar þeir mættu Leiknismönnum á heimavelli þeirra síðarnefndu. Völlinn kalla heimamenn, eða a.m.k margir stuðningsmenn þeirra  ,,Ghetto ground“. Við munum hinsvegar ekki nota það orð. Bæði er að nafnið er n.k erlent slanguryrði og svo er hitt að Leiknisvöllur er mun fegurra orð. Og það er ekki smekksatriði.
Blikar voru með 12 stig að loknum 6 umferðurm og Leiknir með 8 stig. Óhætt er að segja að Leiknir hafi komið nokkuð á óvart í byrjun móts með góðri spilamennsku, aga og mikilli baráttu. Það mátti því búast við að það yrði nokkur brekka hjá okkar mönnum og það þyrfti að hafa fyrir hlutunum. Veðrið var þokkalegt, ekki meir. Suðvestan suddadrulla með allnokkrum strekkingi og hiti rétt móaði yfir og í kringum 7° á celsísuskvarðanum. Skyggnifrekar lítið og dapraðist þegar leið á kvöldið. Blikar með óbreytt byrjunarlið frá sigrinum gegn Stjörnunni og fyrirliðinn kominn til baka eftir meiðslin. Gott mál.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Guðjón Pétur Lýðsson - Andri R. Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Atli Sigurjónsson
Arnór Gauti Ragnarsson
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Sólon Breki Leifsson

Sjúkralisti: Davíð Kristján Ólafsson
Leikbann: Enginn

Leikskýrsla.

Þegar plötusnúðurinn á Leiknisvelli hafði leikið ,,In The Ghetto“ með Ella Prestsins gat leikurinn hafist. Fyrstu 15-20 mínúturnar  gekk boltinn sitt á hvað og vallarhelminga á milli en marktækifæri af skornum skammti svo ekki sé meira sagt. Aukaspyrnur voru legío og hvorugt lið gaf tommu. Heimamenn gáfu okkar strákum engan frið og pressuðu nokkuð vel. Fyrir vikið var samspil okkar manna heldur laskað framan af og við vorum stundum full fljótir að henda boltanum frá okkur, í stað þess að reyna að halda boltanum og láta þá hlaupa. En á móti kom að okkar menn gáfu ekkert eftir og héldu skipulagi vel eftir smá skjálfta í upphafi. Og eftir því sem leið á hálfleikinn náðu okkar menn betri tökum á spilinu og fóru að tengja saman fleiri sendingar og þá fóru þeir að komast framar á völlinn. Færin létu hinsvegar bíða eftir sér en við fengum 2-3 aukaspyrnur á álitlegum stöðum sem ekkert varð úr.  En rétt í þann mund sem menn fóru að gera sig klára í hálfleikskaffið varð gjugg í borg. Höskuldur náði að spóla sig inn í vítateig Leiknismanna, enda orðinn bálillur eftir að þola sífelld brot og hrindingar, og hann náði að koma boltanum fyrir markið. Þar urðu uppi fætur og fit og eitt augnablik hélt maður að þetta rynni í sandinn en þá kom Ellert aðvífandi og pikkaði boltanum í tómt markið. Skrýtið mark, en mark engu að síður. Staðan 1-0 okkur í hag og skömmu síðar flautaði dómari til leikhlés.
Þetta mark kom á fínum tíma fyrir okkur en að sama skapi dofnaði yfir trompeti og trommum hjá Leiknisljónunum sem annars héldu upp sannkallaðri karnivalstemmningu alla leikinn og raunar alllengi eftir að honum lauk. Okkar menn létu líka í sér heyra en voru ekki alveg jafn ferskir og á sunnudaginn var. En það er önnur saga.
Lítið varð hinsvegar um hálfleikskaffi að þessu sinni enda var þröng í stúkunni að reyna að mjaka sér í átt að veitingunum. Það gekk afar hægt og á endanum þraut undirritaðan örendið og hann snéri frá.  Þarna mega Leiknismenn sannarlega girða sig í brók og geta aukið hvorttveggja, tekjur og arðsemi af sjoppu til muna, ef þeir bara gefa fólki séns á að komast í sjoppuna tímanlega.
Fyrsti landsliðsmaður okkar Blika, Gummi Þórðar, var hinsvegar allhress með stöðuna og mjög bjartsýnn fyrir seinni hálfelikinn. Alveg handviss um 3 stig og jafnvel toppsætið. Staðan í öðrum leikjum var þannig að það var alveg smuga. ,,Helvíti góðir margir strákar þarna hjá Blikunum og vel spilandi, ha.“
Seinni hálfleikur hófst hinsvegar á svpuðum nótum og sá fyrri. Mikið klafs og barningur en svo fengu okkar menn gullið tækifæri til að bæta við marki þegar Guðjón lúðraði föstum bolta fyrir markið eftir laglegt spil en Ellert hitti boltann ekki nægilega vel í sannkölluðu úrvalsfæri..... En við þetta tilefni drógu stuðningsmenn okkar Blikafánnann að húni á Leiknisvellinum og var fallegt að sjá hann blakta þar. Hann fer allstaðar vel. Næstu tíu mínúturnar eða svo varð svo örlítill viðsnúningur á leiknum og heimamenn áttu sína bestu spretti til þessa og litlu munaði að þeir næðu að gera sér mat úr einni sókninni en Gulli var vandanum vaxinn og varði þrumuskot mjög vel og sló boltann um leið til hliðar þannig að það var engin hætta með frákastið. Vel gert.
Okkar menn náðu svo að rétta úr kútnum og náðu fínum undirtökum.  Nokkrar álitlegar sóknir litu dagsins ljós en  það vantaði ávallt herslumuninn. Næst því að skora í þessari atrennu komst Arnþór Ari en varnarmaður náði að renna sér fyrir skotið. Skömmu síðar fór Arnþór af velli og inn kom Atli Sigurjónsson. Það reyndist ágætis skipting því skömmu síðar lá boltinn í netinu. Guðjón Pétur átti í hörðum slag við varnarmann Leiknis á hægri kantinum og virtist vera búinn að miss boltann en náði honum aftur við vítateiginn og renndi í átt að fyrrnefndum Atla. Sendingin var hinsvegar ekki alveg fyrsta flokks en Atli náði eigi að síður að munda vinstri fótinn og þrumaði boltanum rakleitt í bláhornið. Einstaklega smekklega og vel gert og alveg óverjandi fyrir markvörðinn. 2-0.  Þetta var dýrari gerðin og Blikar nú komir í vænlega stöðu. Það sem eftir lifði leiks héldu Blikar áfram að sækja og áttu góð færi til að bæta við mörkum. Sérstaklega fengu Höskuldur og Guðjón góð færi en ekkert varð úr. Leiknismenn fengu eitt gott færi en Gulli varði vel tekna aukaspyrnu þeirra í horn.
Blikar sigldu svo leiknum heim í rólegheitum og sendu m.a. inn á tvo unga og bráðefnilega framherja, þá Arnór Gauta og Sólon Breka sem báðir eru í 2. flokki og eiga framtíðina fyrir sér ef þeir leggja hart að sér og taka aukaæfingar.

Þetta var flottur sigur og Blikar eru í góðri stöðu til að láta til sín taka þegar tæplega þriðjungur er búinn af mótinu. Þetta var ekki sama glans frammistaðan og gegn Stjörnunni um síðustu helgi, en þetta var engu að síður góð liðsframmistaða á erfiðum útivelli gegn erfiðum andstæðingum. Það var fyrst og fremst barátta og gott skipulag sem skilaði þessum stigum í hús. Stundum var samt eins og við værum aðeins of hægir og fyrirsjáanlegir í leik okkar og þá komust Leiknismenn betur inn í leikinn en þegar við náðum að auka hraðann, bara örlítið, losnuðum við undan pressunni og náðum þá oft að koma okkur í góða stöðu. En það er enn hellings rými til bætingar á leik okkar manna. Engu að síður 3 mjög góð stig og við erum nú í öðru sæti deildarinnar með 15 stig. Fjórða leikinn í röð höldum við hreinu og höfum nú fengið fæst mörk allra á okkur, svo það er ýmislegt að gleðjast yfir.
Nú tekur við hið árlega landsleikjahlé í júni og Ísland mætir Tékklandi næsta föstudag  á Laugardalsvelli. Þar eiga Blikar tvo fulltrúa, Gunnleif og Kristinn, sem nú eru einu landsliðmennirnir sem spila í PEPSI deildinni. Gott hjá þeim.

Næsti leikur í PEPSI deildinni er hinsvegar heimaleikur gegn Víkingi, settur á n.k sunnudag  en við væntum þess að honum verði frestað a.m.k um einn dag eða tvo vegna þessa landsleiks.  Nánar um það síðar.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka