BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hvorugt liðið vildi tapa -gaur í röngum vesturbæ fór á völlinn

19.05.2018

Þegar KR tekur á móti Breiðabliki er einn kostur við að hafa búið í hinum Vesturbænum í tæp 20 ár.

–Maður getur labbað á völlinn.

Hafandi alið upp tvo KR-inga hér á Melunum, vildi ég ekki ögra nágrönnum mínum og var með Blikatrefilinn í vasanum alveg þangað til ég var kominn út á völl. Þá kom ég mér fyrir utan stúku með pípuna og trefilinn góða merktan bikarmeistaratitlinum, sælla minninga.

Núnú.

KR-ingar voru ákafari í þessum leik. Þeir pressuðu hátt, sérstaklega í byrjun beggja hálfleikanna, en traust vörn og djúp miðja sáu við þeim allan leikinn. Svæðum var lokað alveg prýðilega og þó manni virtist spilað svolítið laust á fyrirgjafamenn KR-inga, þá voru svæðin sem þeir gáfu í vel dekkuð.

Þegar eldmóður fyrsta korters hvors hálfleiks var að baki gekk okkur betur að láta boltann ganga, misheppnuðum sendingum út úr vörninni fækkaði og við náðum hvorttveggja að byggja upp efnilegar sóknir og ná uppbrotssendingum sem sköpuðu hættulegar stöður. Þær urðu þó sjaldnast að hættulegum færum en við áttum slæðing af efnilegum skotfærum sem ekki skópu mörk.

Ótti heimamanna við skyndisóknirnar okkar var augljós og að ósekju hefðu fleiri gul spjöld mátt sjást á KR-inga þegar þeir brutu fagmannlega af sér um leið og þeir misstu boltann. Eitt slíkra tilvika hefði getað verið annað gult en það var eins með það og tusk í okkar menn í teig KR-inga, sérstaklega á Svenna; það hefði verið svolítið hart en þó ekki ósanngjarnt.

Markið sem ég vonaði að riði baggamuninn var ekta Blikamark. Gott auga fyrir góðu hlaupi og Willum afgreiddi af yfirvegun þess sem er verðskuldað í efsta sæti deildarinnar. Snoturt og minnti talsvert á markið hans Gísla á móti hinu svarthvíta skammstöfunarliðinu um daginn.

Ég var ennþá að fagna þegar KR-ingar jöfnuðu. Þá kom okkur í koll laus dekkning á fyrirgjafarmanninum og hreinlega undirmönnun á fjarstöng. (Ég var reyndar líka að spá í hvort Gulla hefði verið orðið kalt en hitastigið í Frostaskjóli var aðeins fyrir neðan það sem ég sá á ísskápnum mínum áður en ég fór að heiman - með trefilinn í vasanum.)

Liðin fengu engar 2.000 krónur þó þau færu yfir byrjunarreitinn og sama baslið tók við eftir jöfnunarmarkið. Okkar menn áttu þó meira inni og voru sennilegri undir loks leiks. Þegar við fengum aukaspyrnu á óskabletti fyrir fram teig KR-inga var ég viss um að hún myndi álpast í netið. Hún fór þó nákvæmlega jafnlangt framhjá og skotin öll sem við áttum, sem voru þó nokkur. Skipti þá engu máli hversu vel boltinn lá fyrir skyttunni eða markmaðurinn illa úr jafnvægi; þau bara hittu ekki rammann flest.

Okkar menn voru með góðan haus í þessum leik. Það var ekkert óðagot þótt pressað væri hátt og nokkrar sendingar misheppnuðust. Skipulagið hélt og vörnin var feikilega traust þrátt fyrir þetta eina mark.

κῦδος á alla fjóra og þó sérstaklega Elvar og Damir. Þeir átu þetta flest.

Sveinn Aron var svolítið einmana uppi á toppi löngum stundum og þegar ferskir fætur voru settir inn í framlínuna voru lærin á miðjumönnunum kannski aðeins farin að lýjast þannig að þann þrýsting vantaði í skjótar sóknir undir lokin.

Þetta var leikur sem KR mátti ekki tapa og við – þegar öllu er á botninn hvolft – höfðum kannski meiri áhuga á að tapa ekki en að vinna. Við bættum við okkur stigi, taplausir með þrjá sigra og trónum á toppnum þar sem okkur líður ágætlega, sýnist mér.

Ég var með trefilinn góða þéttvafinn um hálsinn í slagviðrinu alla leiðina heim, algerlega viss um að nágrannar mínir væru mér persónulega þakklátir fyrir að KR hefði ekki tapað.

EHj

Byrjunarliðin

Umfjallanir netmiðla

Til baka