BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hundur dillar rófunni!

17.05.2013

 

Blikar mættu í kvöld Skagamönnum í 3. Umferð PEPSI deildar karla. Fyrir leikinn voru Blikar með 3 stig að loknum tveim umferðum og því ljóst að það var eiginlega ekki í boði að tapa þessum leik á heimavelli. Blikar gerðu eina breytingu á liðinu frá leiknum gegn ÍBV. Tómas Óli kom í bakvörðinn fyrir Þórð Steinar en annars var byrjunarlið eftirfarandi:

Gunnleifur
Tómas Óli – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns
Árni Vilhjálmsson - Elfar Árni – Andri Yeoman – Finnur Orri (F) – Guðjón Pétur – Nichlas Rohde

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Ellert Hreinsson
Olgeir Sigurgeirsson
Viggó Kristjánsson
Jökull I Elísabetarson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Þórður Steinar Hreiðarsson

Blikar hófu leikinn af ágætum krafti og fengu nokkur hálffæri og áttu fyrirgjafir og horn án þess að eiga nein afgerandi færi eða skot á rammann. Nokkrar efnilegar sóknir runnu út í sandinn og okkar menn virtust eiga í nokkrum erfiðleikum að reikna hraðann á boltanum á vellinum sem var nokkuð háll eftir hefðbundna vökvun fyrir leik. Fyrir vikið enduðu nokkrar efnilegar sendingar ýmist fyrir aftan endamörk eða í höndum Páls Gísla í marki gestanna. Nokkur harka var í leiknum og það verður að segja það alveg hreint út að Erlendur dómari átti ekki sinn besta dag og sleppti m.a. mjög grófum brotum gestanna á Árna Vilhjálmssyni í tvígang. Í annað skiptið var um hættulegan leik að ræða en dómarinn lét það átölulaust. Nóg um það og við áttum svo sem okkar augnablik að þessu leyti án þess að um grófan leik væri að ræða. Og það var einmitt upp úr einni aukaspyrnu sem dæmd var á okkar menn  sem skagamenn náðu forystunni í leiknum undir lok fyrri hálfleiks. Þeir voru fljótir að taka spyrnuna – og boltinn var reyndar á fleygiferð -  á meðan Blikar voru að tuða í dómaranum og eftir klafs við vítateig slapp skagamaður í gegn og skoraði með föstu skoti án þess Gunnleifur kæmi vörnum við. 0-1 gestunum í vil og það var nokkuð gegn gangi leiksins svo ekki sé nú meira sagt. Í upphafi síðari hálfleiks pressuðu gestirnir nokkuð á okkar mark, án þess að skapa sér færi en smám saman settust þeir aftar á völlinn og við fengum meira pláss til að athafna okkur. En allt kom fyrir ekki. Við fengum fá færi og reyndar áttum við ekki skot sem hitti mark gestanna fyrr en á 65. mínútu... Slíkt er ekki sérlega vænlegt til árangurs en okkar menn héldu ótrauðir áfram að reyna að finna glufur á vörn gestanna og Elfar var hársbreidd frá því sð skora og Rohde átti að fá víti þegar honum var hrint í vítateig gestanna eftir laglega sókn. Blikar gerðu tvöfalda skiptingu á 70.mínútu. Inn komu Viggó og Ellert , fyrir Árna og Andra. Skagamenn skiptu líka og voru lengi með skiptingarnar. Fengu reyndar gult spjald fyrir vikið en reyndu sem þeir gátu að tefja og drepa leikinn.  Á 82. Mínútu varð svo vendipunktur í leiknum þegar Elfar Árni skorað laglegt mark. Hann vann boltann af harðfylgi inni í vítateig gestanna, og lagði boltann í rólegheitunum í markhornið hjá Páli Gísla. Þetta kveikti í Blikum, þeir fundu blóðbragðið , og þeir voru snöggir að hlaupa með boltann að miðjunni. Það sem gerðist næstu mínúturnar var ævintýri líkast. Blikar röðuðu 3 mörkum til viðbótar á 6 mínútum og þau voru hvert öðru betra. Fyrst setti Viggó Nichlas í gegn með glæsisendingu og okkar maður afgreiddi færið af sínu alkunna öryggi. Þá var komið að Ellert. Hann fékk flotta sendingu frá Elfari Árna, hljóp af sér varnarmann og skaut bylmingsskoti úr utanverðum teignum. Boltinn hafði viðkomu í Páli Gísla og markstönginni fjær, áður en söng í netinu. Staðna orðin 3-1 og allt brjálað í stúkunni. En Þetta var ekki alveg búið því Elfar Árni bætti við öðru marki á 89. Mínútu þegar hann renndi sér upp að vítateig gestanna og lagði boltann í bláhornið án þess skagamenn fengju rönd við reist. 4-1. Skömmu síðar fékk Elfar Árni heiðursskiptingu við dynjandi lófatak og í hans stað kom Páll Olgeir í sínum öðrum leik með meistaraflokki. Skömmi síðar blés dómarinn lokaflautið og Blikar fögnuðu vel og innilega, innan vallar og utan. Sannarlega ánægjulegur endir á leik sem var kannski bara hársbreidd frá því að renna okkur úr greipum og bauð upp á alþekkt tilbrigði við hið gamalkunna stef ; ,,It aint over till the fat lady sings“. Það eru orð að sönnu og á því fengu skagamenn að kenna í kvöld. Þeir voru eflaust farnir að finna lykt af 3 stigum. En það var bara lykt.
Það er sagt að til þess að hund sem verið er að þjálfa langi aftur á ,,æfingu“ með eiganda sínum þurfi hann helst að eiga ánægjulega minningu frá síðustu útiveru. Þess vegna lýkur hundaþjálfun oft með því að hundinum er gefið sælgæti og honum hrósað eftir að hafa verið barinn til hlýðni og jafnvel misþyrmt. Ef hundurinn fær nammi í lokin dillar hann rófunni næst þegar á að misþyrma honum. Í kvöld var þessari aðferðafræði  beitt á áhorfendur á Kópavogsvelli. Það er að segja stuðningsmenn Blika .Leikmennirnir kvöldu okkur í 80 mínútur, buðu til veislu í 10 mínútur og komu svo og klöppuðu  (fyrir) okkur eftir leikinn. Við erum líka farin að dilla rófunni af tilhlökkun eftir næsta leik. Það var nefnilega nammi í lokin.

Blikar verða að fjölmenna á völlinn næsta þriðjudag þegar við tökum á móti ríkjand íslandsmeisturum frá Fimleikafélaginu. En stóra spurningin er; Verður það 4-1 enn eina ferðina?

Komaso. Styðjum okkar menn til sigurs.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka