BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Höskuldur í landsliðið

30.12.2019

Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson hefur verið valinn í íslenska landsliðið sem spilar tvo æfingaleiki í Los Angeles um miðjan janúar. Höskuldur á að baki 7 landsleiki með U-21árs liði Íslands en hefur ekki spilað með A landsliðinu áður.

Leikirnir tveir eru gegn Kanada og El Salvador. Þar sem þetta eru ekki opinberir landsleikjadagar eiga ekki allir íslenskir leikmenn heimangengt. Þetta er því gott tækifæri fyrir aðra leikmenn að sýna sig og sanna fyrir landsliðsþjálfaranum.

Höskuldur sem er 25 ára gamall á að baki 139 leiki með meistaraflokki Breiðabliks auk leikja með Halmstad í Svíþjóð. Þetta er skemmtilegt krydd í tilveruna hjá Höskuldi en hann spilaði einstaklega vel með Blikaliðinu síðasta sumar.

Blikar.is óska Höskuldi til hamingju með þennan árangur og vonandi fáum við að sjá þennan snjalla leikmann áfram í græna búningnum næsta sumar.

Til hamingju með valið Höskuldur.

Til baka