BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hörkuleikur og dramatík í  Frostaskjóli

28.05.2013

Stuðningsmenn Blika fjölmenntu og mættu gallvaskir í Frostaskjólið í 5tu umferðar PEPSI deildar til sjá sína menn berja á KRingum. Enn ylja minningar frá 4-0 burstinu í Frostaskjólinu í fyrra og alveg ástæðulaust að láta KRinga, nær og fjær, gleyma því. En það var kannski ekki skrifað í skýin að slíkra úrslita væri von í kvöld. En það veit enginn fyrirfram.

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns
Elfar Árni – Andri Yeoman – Finnur Orri (F) – Guðjón Pétur – Ellert
Árni Vill

Semsagt nokkuð breytt frá leiknum gegn FH og inn komu Þórður Steinar í bakvörðinn í stað Tomma sem er meiddur og Árni kom í senterinn stað Nichlas(ar).

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Nichlas Rohde
Olgeir Sigurgeirsson
Viggó Kristjánsson
Jökull I Elísabetarson
Alexander Helgi Sigurðarson
Páll Olgeir Þorsteinsson

Leikskýrsla

Það var norðaustan sólvindur og frekar kalt í vesturbænum í upphafi leiks og hélst svipað allan leikinn. Leikurinn fór rólega af stað og heimamenn voru meira með boltann fyrstu mínúturnar og greinilegt að okkar menn ætluðu ekki að bjóða KRingum upp á neina veislu. Voru þéttir fyrir og gáfu heimamönnum lítinn frið þegar þeir nálguðust okkar vítateig. Það var því fátt um færi en heimamenn gerðu sig þó líklega nokkrum sinnum, en ávallt stóðu okkar menn vaktina, ef undan er skilið eitt færi heimamanna um miðjan hálfleik, en Gunnleifur varði ágætt skot vel. Það reyndist besta færi KR í fyrri hálfleik og í raun eina skiptið sem Gunnleifur þurfti að taka á honum stóra sínum í hálfleiknum. Okkar mönnum gekk hinsvegar ekki vel að halda boltanum innan liðsins og voru því stundum óþarflega fljótir að gefa hann frá sér og það kostaði talsverðan eltingarleik. Blikar fengu ekki margar sóknir en í einni slíkri fékk Árni  úrvals færi, en skot hans geigaði. Guðjón átti ennfremur góða tilraun úr aukaspyrnu en Hannes varði vel. Annars var þetta skynsamlega leikið og allt annað að sjá liðið en á móti FH. Samt á það mikið inni enn. Nú en til að gera langa sögu stutta þá skoruðu Blikar gullfallegt mark undir lok fyrri hálfleiks. Sverrir vann boltann af harðfylgi við vítateig og sendi fyrir markið þar sem Elfar Árni kom á fullri ferð og skallaði laglega í netið. 0-1. KRingar grétu ákaflega og kvörtuð sáran yfir markinu og aðdraganda þess. Og nú í kvöld hafa fjölmiðlamenn landsins hamast á sömu vitleysunni eins og uppvakningar í lélegri B-mynd. Lepur þar hver snápurinn froðuna upp eftir öðrum, gagnrýnislaust. Sverrir og Óskar Örn áttu í baráttu um boltann. Óskar féll við, ekki af því að Sverrir hrinti honum, og Sverrir fór stystu leið að bolta, og sú leið lá yfir Óskar sem reyndi að skýla boltanum liggjandi, en slíkt er með öllu bannað. En það er náttúrulega með ólíkindum hvað þessi fjölmiðlakór getur verið leiðigjarn þegar hysterían nær tökum á honum og hann hamrar sama versið, aftur og aftur. Þarna var bara slagur um boltann. Stundum er dæmt á þetta en það var t.d. ekki mikið verið að dæma á svona smotterí í úrslitum meistardeildarinnar á laugardag. Sáu fjölmiðlungar ekki þann leik?
Ég segi nú eins og Hlerinn; ,,Þessir myndu nú ekki duga lengi til sjós, og fengju snarlega að snýta rauðu!” En svona til að öllu sé til haga haldið þá skal viðurkennt að innkastið hjá Dodda var kannski ekki 100% skv. bókinni. En annað eins hefur nú sést um dagan og það er alveg óþarfi að missa þvag og fá svo móðursýkiskast ofaní það. Ég minnist þess ekki að fjölmiðlar hafi gert athugasemd við kolólöglega aukaspyrnu skagamanna gegn okkur um daginn. Upp úr henni kom samt markið þeirra.
Þetta var nú ,,smá” útúrdúr, en stundum er ekki hægt að láta þessa vitleysu yfir sig ganga átölulaust.
Og bara til frekari áréttingar, þá segir í alkunnum lögum Bangsapabba;

1.      Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

2.      Ekkert dýr má éta annað dýr

3.      Sá sem er latur og nennir ekki að afla sér matar, má ekki taka mat frá öðrum

4.      Öll mörk sem Blikar skora eru góð og gild

Áfram með leikinn. KRingar gerðu nú allharða hríð að okkar mönnum og dældu boltum þvers og kruss inn að vörninni en þessu var öllu stangað og þrumað í burt af Blikum. Upp úr einni slíkri sennu náði Andri svo boltanum og geystist upp allan völl að vítateig heimamanna. Þegar hann svo ætlaði að renna boltanum á Elfar, sem var kominn á ákjósanlegt færi, bilaði sendingin og úrvalsgott færi rann okkur úr greipum. Æææææ, 0-2 hefði verið mikið betra.

Í hálfleik leituðu menn skjóls undan nöprum vindinum og varð tíðrætt um spjaldagleði dómaranna þetta árið. Okkar menn komnir með helling af spjöldum, alls 15, og sumir komnir á hættusvæðið. Annars voru menn nokkuð lettir á því og hóflega bjartsýnir á seinni hálfleikinn.

Seinni hálfleikur spilaðist líkt og sá fyrri. KR meira með boltann en við meira að elta og verjast. Smám saman varð pressaan óþægilega mikil og Blikar voru dáldið klaufskir í uppspilinu og fljótir að missa boltann. Árni var ekki í öfundsverðu hlutverki frammi og fékk sannast sagna úr litlu að moða. Hann átti samt mjög hættulegt færi eftir skyndisókn okkar manna, en boltinn small í stönginni og aftur fyrir. Snaggaralega gert, en senter á að skora úr svona færi. Það segir Árni sjálfur. 10 mínútum síðar var okkur svo refsað þegar KRingar fóru enn einu sinni upp hægri vænginn og náðu fyrirgjöf framhjá okkar mönnum sem virtust hálfdofnir og hreinlega gáfu KRingum þetta mark. Algjör óþarfi og svona ,,easy goal at the farpost” eins og enskurinn segir. Strákar! Horfa á mann og bolta – lykilatriði sem búið er að fara margoft yfir á æfingum. Blikar gerðu fljótlega eftir þetta skiptingu. Nichlas kom inn fyrir Árna. Árni sannarlega í erfiðu hlutverki í dag en ,,næstum” búinn að setja tvö mörk. Sannarlega framtíðarmaður.  Leikurinn hélt áfram og það var hart tekist á. KRingar vældu talsvert og lágu í grasinu og er það út af fyrir sig fagnaðarefni að menn skuli væla undan ,,hinum lipru og léttleikandi Breiðabliksmönnum” eins og sumir segja. En þetta var samt eiginleg aðeins of mikið hjá þeim röndóttu. Við vorum ekki svona grófir.  KRingar fengu varla færi eftir jöfnunarmarkið, ef undan er skilinn nokkuð hættulegur skalli á 85tu mínútu sem fór naumlega framhjá. Blikar gerðu enn breytingu og Viggó kom inn fyrir Guðjón Pétur. Blikar sóttu af og til og eftir flotta sókn upp hægri vænginn náði Nichlas fyrirgjöf, en KRingur slæmdi fæti fyrir og boltinn fór í loft upp þar sem Viggó náði að skalla, en færið erfitt og þröngt og boltinn yfir markið. Dómarinn bætti 4 mínútum við, og í uppbótartíma fengu Blikar besta færi leiksins. Nichlas átti magnaðan sprett og spólaði sig í gegnum KR vörnina, fyrst Grétar og svo Bjarna og komst einn á móti markmanni, en skaut í stöngina. Þarna hefðu Blikar getað stolið sigrinum og alla daga hefði maður sett peninginn á að Nichlas kláraði svona færi, en svo fór sem fór. Lukkan er ekki alveg að dansa með okkur í augnablikinu, en það hlýtur að breytast. Eins og Ólafur Helgi sagði í viðtali fyrr í kvöld; ,,þetta hefur verið mikið stöngin út hjá okkur í vor, en vonandi verður það stöngin inn eftir fríið.”

Jafntefli sennilega sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins en við fengum fleiri og betri færi án vafa og hefðum sannarlega átt skilið að landa þessu í lokin. En stigið engu að síður gott og við sannarlega enn með í mótinu. Liðið á hrós skilið fyrir mikla baráttu og greinilegt að men voru gíraðir í að taka á heimamönnum. Það var líka eins gott, því það hefði verið súrt að liggja 9 stigum á eftir KR eftir kvöldið. 6 stig eru nú í toppinn og enn er allt í boði. Hrós til liðsins og líka til stuðningsmanna sem dempuðu mesta gorgeirinn í miðju(moðs)mönnunum í vesturbænum í kvöld.
Fríið sem Ólafur Helgi talaði um kemur ekki alveg strax, því næsti leikur er strax á fimmtudaginn. Þá mætum við HK í Borgunarbikarnum. Það verður væntanlega ekta nágrannaslagur og þar má ekki gefa tommu eftir. Og við skulum hafa það alveg á hreinu, og það gildir jafnt um leikmenn og stuðningsmenn að nú má enginn láta sig vanta.

Fjölmennum og styðjum okkar menn.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka