BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Höktum áfram í 16-liða úrslit

06.06.2015

Það var engin glæsibragur yfir 1:3 sigri okkar yfir KFG-drengjunum úr Garðbæ. Það var þó þrennt sem við getum glaðst yfir. Í fyrsta lagi að vera komnir áfram í bikarnum, í öðru lagi var lokamark Höskuldar tær snilld og í þriðja lagi var barátta og kraftur sóknarmannsins unga Arnórs Gauta til fyrirmyndar. Gleymum þvi ekki heldur að bikarárið góða 2009 höktum við í gegnum fyrstu umferðirnar gegn neðri deildarliðum. Og við munum öll hvernig það ár endaði! 

Þjálfararnir gerðu tíu  breytingar á liðinu frá síðasta leik. Greinilegt var að þetta setti pressu á þó nokkuð marga leikmenn sem ekki náðu að sýna sitt rétta andlit. Menn ætluðu greinilega að spila þetta svo ,,kúl" og gleymdu kraftinum og áræðninni norðan lækjar. Uppbygging sóknanna tók allt of langan tíma og meiri hugmyndaauðgi vantaði til að brjóta upp sterkan varnarleik 4. deildarliðsins. Við settum þó gott mark í lok fyrri hálfleiks þegar hinn 18 ára framherji Arnór Gauti Ragnarsson skallaði knöttinn af krafti i netið eftir hornspyrnu Atla Sigurjónssonar. Næstu mínútur á eftir pressuðum við ofar og vorum nálægt því að bæta við marki. 

Í síðari hálfleik duttum við niður á sama plan og meirihluta fyrri hálfleiksins. Við vorum að dúlla með boltann fram og aftur, til hliðar og út og til baka aftur. Við vorum með boltann svona um 80% af leiknum en áttum samt varla marktækifæri í hálfleiknum framan af. Að vísu skallaði Arnór Gauti knöttinn í slána eftir hornspyrnu á 71. mínútu en þar með var það upptalið. Í sjálfu sér kom það ekki á óvart að heimapiltar jöfnuðu leikinn eftir snarpa sókn og lélegan varnarleik okkar manna allt frá fremstu sóknarlínu. 

Arnari þjálfara var ekki skemmt og skellti Arnþóri Ara og Höskuldi inn á fyrir Olgeir og Tandir tíu mínútum fyrir leikslok. Það var eins hendi væri veifað og gæði jukust mjög hjá Blikaliðinu. Á  85. mínútu kom Arnþór Ari okkur aftur yfir með ágætu skoti úr vítateignum með viðkomu í einum varnarmanni KFG. Í uppbótartíma sýndi Höskuldur tilþrif a la Messi. Hirti knöttinn af varnarmanni heimapilta, spændi í gegnum vörnina og vippaði glæsilega yfir markvörðinn. Heimsklassa sýning hjá þessum snjalla leikmanni! 

Ekki má dæma Blikaliðið of hart þótt menn hafi flestir ekki náð sér á strik í þessum. Það er ótrúlega algengt að spennustigið verði of hátt þegar menn fá tækifæri gegn ,,lakari" andstæðing. Þá ætla menn að gera þetta annað hvort af svo mikillli yfirvegun eða með of miklum gassagangi að flest fer úrskeiðis. Sá eini sem höndlagði spennuna með bravör var Arnór Gauti.  Hann barðist vel frá fyrstu mínútu, fór af hörku í alla bolta og gaf ekki tommu eftir í návígum. Skoraði síðan fínt mark og var nálægt því að bæta öðru við í síðari hálfleik. Gunnlaugur átti líka þokkalegan leik á miðjunni en flestir aðrir leikmenn voru nokkuð frá sínu besta. En eins og segir kvæðinu góða ,,og allir komu þeir aftur og engin þeirra dó... Við erum komnir áfram í bikarnum og það verður spennandi að sjá á móti hverjum við lendum í 16-liða úrslitum. Það verður dregið í höfuðstöðvum KSÍ í hádeginu á föstudag og við verðum límd við tölvuna! 

Leikurinn Í kvöld var hundraðasti opinberi leikur Gunnleifs Gunnleifssonar frá því að hann gekk til liðs við Breiðablik fyrir keppnistímabilið 2013. Fimmtugasti Blikaleikur Gulla í efstu deild var einmitt sigurleikurinn gegn Stjörnunni á sunnudaginn var. Gunnleifur náði nýverið þeim áfanga að spila 200. leikinn í efstu deild. Nánar um það hér

Leikskýrsla.

-AP

Til baka